top of page

Ferkantað land fyrir kantlausan slúbbert

Það er ekki auðvelt fyrir vísitöludreifarann að búa í landi einsog Svíþjóð. Þegar maður er vanur því að allt reddist af því að allir þekkjast og reglur séu sveigðar austur og vestur til þess að skapa ekki „óþarfa vesen“ er erfitt að læra að sætta sig við þvera og ferkantaða lífssýn vísitölu-svensons. Þessa eilífu þrá eftir því að gera hlutina „rétt“. Íslendingar eru sannarlega ekki umburðarlyndir á alla vísu og einsog dæmin sanna er auðvelt fyrir utanaðkomandi að flækja sig svo í kerfinu að lífið verði hálfgerð martröð – egypska fjölskyldan sem var rétt í þessu að fá úrlausn sinna mála, fyrir kraft samstöðu gegn hinni kerfislægu frekju, er gott dæmi um slíkt – en það er samt talið til dyggða að láta hlutina reddast. Og mál einsog egypsku fjölskyldunnar eru vel að merkja mýmörg í Svíþjóð líka – hér er alltaf talsvert um hælisleitendur sem fara huldu höfði.

Það hefur líka oft hvarflað að mér þar sem ég missi góða skapið eftir samskipti mín við ferkantaða bjúrókrasíu út af einhverjum smámunum hvað maður eigi samt gott að afleiðingarnar skuli vera svona minniháttar. Þannig man ég að þegar Aram fæddist hér fyrir 11 árum hafði ég samband við sendiráðið upp á réttu leiðina til að fá ð-ið skráð í eftirnafnið hans og var sagt að það væri ekkert mál – það væru margundirritaðir norrænir sáttmálar um þetta allt saman, en vandamálið væri að starfsfólkið í kerfinu hefði ekki hugmynd um þessa sáttmála og myndi því ekki hjálpa mér. Það sem ég þyrfti að gera væri að skrá barnið, kæra svo skráninguna og fá nafnið rétt skráð fyrir dómstólum. Ég man ekki hvað það átti að kosta en það voru einhverjir hundraðþúsund kallar, give or take.

Um svipað leyti lenti ég líka milli skips og bryggju gagnvart þjóðskrá. Ég var alltaf skráður til heimilis á Íslandi, af því ég vinn og skatta þar, hvar svo sem rassgatið á mér er statt hverju sinni. Þegar við fórum til Íslands yfir jól og ætluðum að skrá Aram í kerfið kom í ljós að við hjónin vorum ekki skráð gift – af því að þeim pappírum þarf maður víst að skila inn sjálfur (við giftum okkur í Finnlandi og reiknuðum bara með að þessi kerfi töluðu saman). Þegar við skráðum okkur gift, til þess að skrá Aram í þjóðskrá, kom í ljós að við máttum alls ekki hafa sitthvort lögheimilið. Ég bölvaði þessu í sand og ösku, meðal annars því við ætluðum til Finnlands aftur um sumarið, og vegna þess að ég var enn skráður á Íslandi myndi ég þurfa að skatta í þremur löndum. Janúar á Íslandi, febrúar-júní í Svíþjóð og svo rest í Finnlandi. Og það er nú ekki það skemmtilegasta sem ég geri að fylla út í skattskýrslur. En þegar ég fór á þjóðskrá hér og fyllti út í pappírinn um lögheimilisflutninga, þar sem fram kom að ég ætlaði að fara til Finnlands um sumarið, var mér tjáð að þetta gæti ég ekki – því það mætti ekki flytja lögheimili sitt til skemmri tíma en sex mánaða og þetta væru bara fimm. Ég mátti því hvorki hafa lögheimilið áfram á Íslandi, né flytja það til Svíþjóðar þar sem ég bjó.

Og nú er ég sem sagt kominn aftur út og byrjaður að reka mig á aftur.

Það eru til tvö öpp til að panta heim mat. Við getum hvorugt notað af því við erum ekki með sænskt símanúmer – reiturinn fyrir símanúmerin er einu stafabili of þröngur til að ég komi íslensku númeri fyrir. Ég hef áður lent í því að geta ekki pantað mat af því ég var ekki með Swish – sem er svona Aur eða Kass app, sem allir hér nota, en Swish fær maður ekki nema maður sé með sænskan bankareikning. Nú er Nadja reyndar með Swish svo ég get beðið hana að redda þessu. Maður gæti haldið að það væri ástæða til þess að tengja Swish við kreditkortaþjónustu – en svo hef ég svo sem rekið mig á það líka að geta ekki notað íslenskt kreditkort á sænskri síðu. Samt er þetta ekkert íslenskt – bara mastercard.

Í dag ætlaði ég að ná í póst. Ég hef áður lent í vandræðum með það. Ein sending var af einhverjum orsökum tollskyld (í henni var úreldur snjallsími, sem hefur mest verið notaður sem svona þykjustusími). Það var rúmur þúsundkall. En verst var að við vorum aldrei látin vita af því. Fengum enga tilkynningu – hann bara sat þarna á pósthúsinu þangað til við fórum að spyrjast fyrir og borguðum tollgjaldið. Svo fékk ég hann ekki afhendan af því hann var merktur Aram og ég var ekki með passann hans. Í dag taldi ég að pósturinn væri merktur mér, en það reyndist misskilningur, svo ég þurfti að fara heim að sækja passa beggja barnanna – af því pakkinn var merktur báðum (og skiptir engu að ég sé forráðamaður þeirra). Þegar við Aram komum svo með passana ætlaði konan að gera okkur afturreka aftur á þeirri forsendu að passinn hennar Ainoar væri útrunninn (ég tók vitlausan). Þegar ég maldaði í móinn var náð í annan starfsmann sem ákvað að það dygði í þetta sinn að við værum með passa þess sem er fyrr tiltekinn á bréfinu – sem var Aram – öfugt hefði ekki gengið.

Um daginn vantaði mig líka svona lítinn þráðlausan gaur til að tengja við plötuspilarann svo ég geti notað hann með heddfónum. Ég fann hann á netinu hjá Clas Ohlsson, festi mér hann og greiddi – en af því að ég var nýbúinn að eiga í svipuðum viðskiptum þar sem ég strandaði á að vera ekki með sænska kennitölu, skráði ég Nödju sem kaupanda (ef ske kynni að kennitöluvesenið kæmi upp). En svo fékk ég hann auðvitað ekki afhentan þótt ég væri augljóslega greiðandi (sjálfum þætti mér eðlilegra að það væri öfugt – það myndi a.m.k. vera betra til að lágmarka svindl).

Síðasta umkvörtun dagsins – nei, næstsíðasta (ef mér dettur ekkert fleira í hug) – er að maður kemst ekki inn í fjölbýlishúsið okkar nema með sérstöku blippi, svona tölvulykli. Og það er engin dyrabjalla. Hér er sem sagt ekki hægt að banka uppá – hvorki sölumenn, trúboðar, börn á hrekkjavöku eða vinir og kunningjar.

Síðasta umkvörtunin – last dagsins – fær síðan nágranninn á ská fyrir ofan okkur. Þegar við fluttum inn fór Nadja og spurði fólkið fyrir ofan okkur hvort það væri í lagi að Aram væri að tromma á rafmagnstrommusettið sitt. Þau sögðust ekki geta sagt um það, þau yrðu að heyra það fyrst – en þá hafði hann einmitt verið að tromma og enginn heyrt neitt. Fólkið á ská fyrir ofan – sem ætti að heyra verr, enda hinumegin við stigaganginn – kom hins vegar í fyrrakvöld og sagði að nú væri öllum trommuleik í þessu húsi lokið. Ég er svo mikill trékall – og vanur því að fólk bregðist frekar illa við mér, ég veit ekki hvort það er hæðin eða skeggið eða röddin eða bara fasið, en Nödju gengur allavega miklu betur en mér að lempa svona fólk og hún var ekki heima – að ég jánkaði bara eitthvað og baðst velvirðingar. En svo sýður auðvitað á mér. Ég er með kategórískt ofnæmi fyrir því sem á ensku er kallað „entitlement“ – að finnast maður stöðugt geta krafist þess að veröldin trufli ekki viðkvæma tilvist manns. Auðvitað eru takmörk fyrir öllu – en ef maður má ekki heyra í nágrönnum sínum, finna lykt þegar þeir laga mat o.s.frv. þá þarf maður bara að búa einhvers staðar þar sem eru ekki nágrannar. Því fólki fylgir visst ónæði. Svo finnst mér líka að það eigi að vera tónlist á heimilum.

Nú er á planinu að kaupa betri mottu undir settið og færa það í annað herbergi og tala svo við fólkið og fá uppgefinn einhvern tíma sem hentar betur en annar – þetta var eitthvað rúmlega sjö.

Eitt af því sem er áhugavert í þessu öllu saman, a.m.k. nú í dag frekar en þarna um árið, er að megnið af vandræðunum eru ekki á vegum hins opinbera (enn sem komið er) heldur einkafyrirtækja. Það er pósturinn, öppin, pizzeriurnar, fyrirtekið sem rekur húsið, Clas Ohlson o.s.frv. sem eru með mesta vesenið.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page