top of page

Fagurfræðileg markþjálfun


Fyrir skömmu sá ég einhvers staðar einhvern sem ég ber virðingu fyrir mæla með Alkemistanum eftir Paolo Coelho og í staðinn fyrir að fella viðkomandi af stallinum eða einu sinni lækka stallinn hugsaði ég hvort verið gæti að ég hefði dæmt Coelho of harkalega síðast þegar ég las hann fyrir aldarfjórðungi síðan – þá fannst mér þetta alger fávitalitteratúr. Nú man ég ekki lengur hver þetta var (ég er hræðilega minnislaus, einsog hefur áreiðanlega komið fram hérna – ekki það ég muni slíkt).


Ég segi þetta af því fyrsta setning þessarar færslu átti að vera tilvitnun í dóttur mína, sem sagði í gærkvöldi, áður en hún fór að sofa: Í dag var góður dagur. Og svo ætlaði ég að bæta einhverju við um að þetta hefði verið rétt hjá henni – dagurinn var góður, ekki síst hjá okkur tveimur, sem höfðum bakað kirjálapírökur saman og lært að spila Happy Birthday, Johnny með St. Vincent (hún á bassa og ég á kassagítar) – en að maður veitti því sennilega sjaldan eftirtekt. Að maður gleymi að muna góðu dagana, skrásetja hjá sér að þeir hafi verið góðir. En svo fannst mér þetta eitthvað of markþjálfalegt hjá mér, og sjálfshjálparcoelho-eitthvað, og ég bara hætti við og þá mundi ég þetta með Coelho – hver sagði þetta? – og hugsaði að kannski ætti ég bara að segja þetta samt. Því varla er þetta neitt minna satt og ekki geri ég þá kröfu á mína persónulegu dagbók, sem er sama og ekkert lesin, að hún sé róttækar/sínískar bókmenntir? En ef ég geri það ekki, hvers vegna geri ég þá kröfu á bókmenntirnar mínar? Eða geri ég kannski alls ekki þá kröfu – er það bara eitthvað sem ég gerði?


Þessu tengt: Stundum finnst mér einsog ég hafi ekki hugsað skýra hugsun svo árum skiptir.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page