Fölir kóngar
David Foster Wallace, George Orwell og Albert Camus eiga það allir sameiginlegt að hafa dáið 46 ára gamlir. Eða áttu það sameiginlegt – þeir eru auðvitað dánir. Þá á maður ekkert sameiginlegt lengur. Orwell dó 1950, Camus 1960 en DFW ekki fyrren 2008, enda fæddist hann ekki einu sinni fyrren tveimur árum eftir að Camus dó og tólf árum eftir að Orwell dó. Camus og DFW dóu frá hálfkláruðum bókum, Camus frá Le Premier Homme (Fyrsti maðurinn) en DFW frá The Pale King (Föli kóngurinn). Camus dó meira að segja nánast bókstaflega með hana í fanginu – hún fannst í bílnum/bílhræinu sem útgefandinn hans, Michel Gallimard, hafði keyrt á tré. Og Camus í farþegasætinu. DFW gekk frá sínu hálfkláraða handriti þannig að það myndi finnast og fór svo og drap sig. Orwell hafði hins vegar lokið við allt sitt, það best ég veit – 1984 kom út árið áður – og eyddi síðasta ári sínu í ástarmál og heilsubrest (hann dó úr berklum).
***
Það hafa verið tveir eða þrír sumardagar á Ísafirði síðan ég kom heim. Þegar ég skoða dagatalið sé ég reyndar að þetta er nærri þriðjungur allra dagana, en mér finnst einsog ég sé búinn að vera heima í mánuð og ef það væri satt væru 2-3 sumardagar ekki merkilegar heimtur – en það er ekki satt og þá er þetta kannski bara alltílagi. Eða segjum innan marka. Auðvitað vil ég fá fleiri sumardaga. Auðvitað ættu helst allir dagar að sumri að vera sumardagar. En til þess þyrfti maður eiginlega að búa sunnar í Evrópu.
***
Ég er að lesa Infinite Jest í fyrsta skipti. Það sem meðal annars blasir við er hversu mikil áhrif hún hefur haft á bandarískar bókmenntir á þeim tæplega 30 árum sem eru liðin frá því hún kom út – en líka hvað hún virkar að mörgu leyti ómöguleg miðað við nútímastandarda. Ég er ekki viss um að bók megi vera svona þreytandi lengur. Eða að það sé álitið kostur – sérviskurnar (neðanmálsgreinarnar!), óforskammaður intelektúalisminn, langhundarnir. Einhver sagði að maður þyrfti að lesa hana mjög vandlega tvisvar bara til þess að ná samhengi í kaflana – til þess að átta sig á því hvað sumir þeirra væru að gera þarna. Og aðrir segja að það geri maður bara aldrei og kannski séu þeir alls ekki í neinu samhengi. Ég er að reyna að lesa hana með ákveðinni þolinmæði – búinn með 200 síður á fjórum dögum og á ekki nema 900 blaðsíður eftir – og efast um að ég lesi hana aftur í bráð. Ekki vegna þess að hún sé ekki líka frábær, vel að merkja, ég ætla bara að láta einn lestur duga. Í byrjun árs gerði ég lista yfir nokkrar bækur sem mér fannst að ég hefði átt að lesa en hef ekki lesið og Infinite Jest er á honum. Af listanum er ég búinn með Ulysses, árstíðafjórleik Ali Smith, Janey Eyre, Dala-Líf, Money eftir Martin Amis, House of Leaves og Stríð og frið. Hingað til hafa Ali Smith, House of Leaves og Ulysses verið eftirminnilegastar – en auðvitað eru þetta allt meistaraverk. Stríð og friður gerði reyndar „lítið fyrir mig“ – má segja svona um Stríð og frið, hefur það einu sinni neina merkingu? Mér fannst hún ekki skemmtileg, kom ekki auga á það sem gerir hana stórfenglega og er fullkomlega opinn fyrir því að það hafi meira með mig að gera en bókina.
***
Ég las L'Étranger á frummálinu í júlí. Á frönsku, ég las hana á frönsku, ég er núna maður sem les stundum bækur á frönsku, ég er heimsborgari. L'Étranger, segi ég og dreg jafnvel seiminn. Ég er samt enn mjög feiminn (og lélegur) að tala frönsku upphátt. Í dag áritaði ég bók fyrir franska konu og var allan tímann að hugsa um að útskýra fyrir henni – sem er að læra íslensku – að ég væri að læra frönsku en gerði það svo aldrei. Je m'apprendre francais, ætlaði ég að segja en sagði ekki. J'ai lu L'Étranger! Þess í stað sagðist hún bara ætla að lesa Plokkfiskbókina, enda væri hún að læra íslensku.
Útlendingurinn er miklu sérstakari bók en mig minnti – einhvern veginn ólíkari öllu öðru en mér fannst þegar ég las hana tvítugur á íslensku. Kannski var ég þá bara eitthvað að eltast við plottið og hugsanlega fór þetta andlega ástand Meersaults meira framhjá mér – það var áreiðanlega ekki jafn mikið í fókus. Þessi ... doði eða hvað á maður að kalla það? Kannski er það einfaldlega ástand sem maður hefur sjaldan upplifað þegar maður er tvítugur, sem maður þekkir ekki, en kynnist náið síðar – þessi störukeppni við lífið.
***
Ég man ekki hvenær ég las Orwell. Kannski bara þegar ég þýddi leikritið 1984 eftir Duncan MacMillan og Robert Icke fyrir Berg Þór og Borgarleikhúsið – 2017. Þá reyndi ég í gegnum báðar íslensku þýðingarnar að skáldsögunni.
Recent Posts
See AllÉg sá því haldið fram um daginn að mennirnir sem nauðguðu Gisèle Pelicot hafi verið venjulegir. Þessu til sönnunar var tiltekið við hvað...
Ef allt fer að óskum kemur ljóðabókin mín út í mars. Hún átti einu sinni að heita mjög ljóðrænum titli en á endanum ákvað ég að láta...
Þessu myndi Brynjar nokkur Viborg aldrei trúa!