Fögur fagurfræði og galinn fagurgali

Mér varð ekki mikið úr verki í gær en ég náði þó að senda inn þetta blessaða viðtal. Endaði á að velja upphafið á If I Told Him eftir Gertrude Stein sem eftirlætis ljóðlínurnar mínar. Ég gæti ekki sagt ykkur hvers vegna þær heilla mig svona – þetta eru bara endurtekningar og umsnúningar. If I told him, would he like it, would he like it if I told him o.s.frv. Mjög Gertrudarlegt allt saman og hvergi hljómfegurra. Kannski er þetta svipað og að dást að fallegu bítboxi – eða bara fuglasöng. Margir hafa mikið óþol fyrir Gertrude og það var mikið híað á hana á sinni tíð – reyndar eiga mörg mín eftirlætis skáld þetta sameiginlegt að vera í senn merkilegar fagurbókmenntir en ekki nógu merkilegar fyrir merkilegustu fagurkerana.

Ég velti því oft fyrir mér hvers vegna fólk hefur ólíkan smekk – og mest hvers vegna ég hafi ólíkan smekk frá öðrum. Ég sé það auðvitað skýrast þegar ég fæ ritdóma sjálfur – t.d. á dögunum skrifaði gagnrýnandi Fréttablaðsins að Halldór í Brúnni væri svo óáhugaverður og leiðinlegur. Viðkomandi fannst bókin reyndar fín þrátt fyrir Halldór og sagði margt fallegt um hana – ég er alls ekki ósáttur við dóminn sem slíkan. En ég skil engan veginn hvernig manni getur þótt Halldór óáhugaverður – mér finnst hann svo áhugaverður að ég er búinn að skrifa tvær heilar bækur um hann. Honum finnst hins vegar sjálfum mjög lítið til sín koma og kannski finnst sumum bara lágvær sjálfsfyrirlitningin í honum svona sannfærandi.

En skrítnast í þessu öllu saman er samt að þetta fari í taugarnar á manni. Sem það gerir. Það er næstum einsog manni finnist rangt að einhver sé ósammála manni eða hafi aðra sýn á hvað sé áhugavert, fallegt, skemmtilegt. Auðvitað er í því fólgin einhver menningarleg og félagsleg pólitík – hvað fær að vera áhugavert – og kannski er alveg eðlilegt ástand fyrir listamann (af hverju finnst mér óþægilegt að kalla mig „listamann“?) að velta sér stöðugt upp úr öllum sköpuðum hlutum. En samt. Mig langar oft í meiri nonsjalans. Og óttast að einn daginn fari ég meðvitað eða ómeðvitað að eltast við samþykki fólks sem hefur einhverja allt aðra fagurfræði. Fari að dressa upp Halldóra mína í litríkari klæði og láta þá rembast til að þóknast einhverjum úti í sal.  Og kannski er ég bara að misskilja, kannski á maður að gera það – þetta er eitthvað svona list vs. skemmtiatriði dæmi. Kannski er millivegur og kannski er ekki hægt að þjóna tveimur herrum.

Annars er það að frétta að bókin er enn í þriðja sæti metsölulistans – situr sem fastast – og hljóðbókin ætti að fara að detta inn hvað á hverju. Hún er hljóðblönduð og komin til útgefandans.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png