top of page

Ekki brjálaður heldur sjúkur


Ég rakst á þessa fallegu önd fyrir utan kynlífstækjaverslun í dag.

Ég er í Nantes, í Frakklandi, til þess að taka þátt í Atlantide bókmenntahátíðinni. Ég er sennilega ekki að „fara vel“ með Frakklandsferð mína. Ég kom svo dauðþreyttur í gærkvöldi að ég stökk beinustu leið upp á hótelherbergi um leið og ég hafði fengið kvöldverð (tælenskt tartar) og svo sat ég yfir BBC og CNN fram eftir kvöldi áður en ég fór að lesa. Svaf svo af mér morgunmatinn – hékk á hótelherberginu, gerði jóga, hlustaði á fréttir, og fór ekki af stað fyrren ég átti að hitta útgefandann minn og Rosu Montero yfir hádegisverði (hörpuskel og linguini). Við Rosa deildum síðan sviði í panel um fjölskyldur og leyndarmál – ég er að fylgja eftir Hans Blæ, sem heitir Troll á frönsku – og sátum í klukkustund á eftir og árituðum bækur. Ég fékk líka eina áritun sjálfur þegar kúrator hátíðarinnar, Alain Mabanckou, lét sjá sig (ég tók með mér eintak af Broken Glass).


Svo fór ég loksins að skoða þessa fæðingarborg Jules Verne. Rölti um í klukkustund síðdegis og kom við í plötubúð – fann meðal annars einstak af What Are They Doing in Heaven Today? með Washington Phillips, en Denomination Blues af þeirri plötu er eitt fallegasta lag sem ég þekki.

Raunar er ansi harkaleg gospelslagsíða á feng dagsins.


Svo fór ég bara aftur upp á hótelherbergi og hélt áfram með Fjallkirkjuna (ég er sem sagt að gera alvöru úr því að lesa Gunnar Gunnarsson – þótt Beta gengur laus hafi ekki reynst vera eftir hinn eina sanna GG – og er búinn með bæði Aðventu og Svartfugl). Í stað þess að halda svo á hátíðina eða skoða bæinn meira skaust ég bara út eftir pizzabita og rétt náði heim fyrir kvöldfréttir á RÚV (nú malar BBC World Service í hótelherberginu – einhver rússneskur diplómat að halda því fram að bandaríkjamenn fjármagni nýnasískar hreyfingar í Úkraínu, sem í raun réttri ráði landinu).


Í Fjallkirkjunni er einmitt einn Eiki sem liggur í öllum fötunum uppi í rúmi. Sá harðneitar að lesa bækur, þegar upp á því er stungið. Finnst það ótrúleg vitleysa.


Í sjálfu sér var kannski frekar mikið að gera fyrri partinn. Allavega átti ég fremur bágt með að svara símtölum, sem af einhverjum orsökum voru fjölmörg. En ég skammast mín svolítið fyrir að vera ekki duglegri við að sjá hátíðina og borgina en ég er mjög upptekinn af bæði Fjallkirkjunni og fréttunum og frekar lúinn. Svo seinnipartur dags fór að mestu bara í að hvíla sig og ég sé fyrir að það verði svipað á morgun.


Ég hef ekki komið nema einu sinni til Úkraínu og þá til Lviv, fæðingarbæjar Leopold von Sacher-Masochs, sem er alveg vestast. En það var mjög eftirminnileg heimsókn (ég hékk ekkert uppi á hótelherbergi yfir bókum og sjónvarpi) og ég veit ekkert hvernig það fólk sem ég kynntist þar hefur það. Hugur minn er samt hjá því, eðlilega.


Gáfulegasta og eftirminnilegasta greiningin á þessu ástandi sem ég hef heyrt – og nú er ég búinn að hlusta á mjög marga sérfræðinga tjá sig – kom frá úkraínskri konu í Kænugarði, sem sagði aðspurð um hvort Pútín væri brjálaður:


„Putin is not crazy. He is sick.“

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page