Ekkert að frétta

Í dag er ég búinn að drekka helst til mikið kaffi en þó ekki jafn mikið og oft áður. Mér finnst einsog ég sé ekkert búinn að gera nema flakka á milli síðna – með Twitter opið, Facebook opið, svara pósti út af illskuþýðingarbroti á lettnesku, öðrum um „svívirðilegar árásir frjálshyggjumanna á rithöfunda sem skrifa einkabækur fyrir auðvaldið“, þriðja um greiðslumatið & fasteignakaupin og svo framvegis. Skipuleggja vinnuferð til Helsinki í næstu viku.

En sé þó þegar ég gái að ég hef komist nokkuð áleiðis í skáldsögunni, það hefur bæst heilmikið við nýjasta ljóðið í Ljóð um samfélagsleg málefni (það heitir Ljóð um bókmenntir) og eiginlega ekkert í fyrirlesturinn sem ég þarf að flytja í Biskops-Arnö í júní.

Ég þarf að hækka hnakkinn á hjólinu mínu og pumpa aðeins í dekkin. Kannski gera smá jóga þegar ég er búinn að sækja börnin. Ég hljóp hálfmaraþon fyrir rétt rúmum mánuði en hef aðallega setið á rassinum og étið ís síðan – en fór í fimm kílómetra skemmtiskokk í fyrradag og er enn að drepast í fótunum. Svo þarf víst að matreiða kvöldmat ofan í heimilisfólkið. Ég sem er ekki einu sinni búinn að ganga frá eftir hádegismatinn. Og versla í matinn, þetta kaupir sig ekki sjálft. Já og mig vantar ennþá að redda mér gistingu í París í tvo daga í júní.

Hvað um það.

Er ég eini maðurinn sem finnst True Detective vera óþolandi tilgerðarlegir? Ég hef alveg frekar háan tolerans fyrir artí-látum, en ég meikaði þetta ekki. Kannski hefur mér vaxið það í augum síðan ég reyndi að horfa á þá – það er a.m.k. hálft ár síðan. Ég sé það er verið að auglýsa nýja seríu.

Annars er held ég ekkert að frétta.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png