top of page

Eitur, rof og túristaheift


Ég kláraði Gift eftir Tove Ditlevsen áðan, í þýðingu vinkonu minnar Þórdísar Gísladóttur. Þetta er frábær bók en ég vissi það svo sem enda hafði Þórdís sagt það á samfélagsmiðlum. Ekki það að ég éti bara allt upp hrátt sem hún segir. En mér fannst þetta alltaf sannfærandi málflutningur. Bókin segir frá lífi höfundar frá því hún er gift eldri manni – ritstjóra ljóðatímarits – skilur við hann, byrjar með öðrum, heldur svo framhjá honum með þriðja manninum sem er læknir. Eftir hann verður hún ófrísk en fer til hans í þungunarrof og það leiðir til þess að hún fer að misnota eiturlyf – og hann verður hennar meðvirki díler í ein fimm ár. Gift þýðir ekki bara „gift“ á dönsku heldur líka „eitur“. Karlarnir eru eitur og lífið sem hún lifir er eitur og fíknin er eitur og eitrið er eitur og hún er eiginlega líka eitur sjálf – og gift þessu öllu og losnar aldrei við það.


Orðið þungunarrof, sem hefur tekið við af hinu síður geðslega „fóstureyðing“, er einmitt notað í bókinni og stakk mig aðeins í augun – af því fyrir mér er það 21. aldar orð. Kannski varð það samt mest til þess að ég fór að velta vöngum yfir því hvernig maður fari með svona í þýðingu. Tove hefur líklega notað það orð sem var venjulegt á fimmta áratugnum. Hins vegar ber þýðing yfirleitt talsverðan keim af þeim tíma sem hún er gerð á – jafnvel þegar þýðendur (eða höfundar) rembast við að skrifa fornan stíl er það nútímastíll með fornu yfirbragði. Það eru engir 19. eða 18. aldar höfundar sem skrifa einsog Ófeigur Sigurðsson eða Sölvi Björn Sigurðsson (ekki bræður!). Mér fannst þetta allavega ekki lýti á þýðingunni.


Í gær kláraði ég líka aðra bók um rithöfundaþjáningar (eðlilega laðast ég að svona verkum), sem gæti þó ekki verið ólíkari Gift. Þetta var Túristi eftir Stefán Mána, sem ég hef átt í plastinu guð veit hvað lengi. Hún kom út 2005 og er síðasta verkið sem hann skrifar áður en hann fer alfarið út í spennusagnaritun og líka sú síðasta sem hann gaf út hjá Máli og menningu. Ég hafði heyrt alls kyns sögur af þessari bók og sennilega flestar frá fólki sem hefur ekki lesið hana. Að í henni væri hæðst og skopast að öllum helstu bókmenntafígurum samtímans (2005) og það af meiri heift og gremju en gamansömum kærleika. Og þetta stendur í sjálfu sér heima – þarna er meðal annars háðuleg persóna sem heitir Kristján b), en Kristján B. Jónasson var ritstjóri Stefáns (og minn) á þessum tíma. Ég man alltaf eftir því að hafa einu sinni átt fund með Kristjáni strax á eftir Stefáni og Stefán (sem ég kynntist ekkert fyrren síðar) rétti Kristjáni diskettu með handriti og sagði eitthvað í líkingu við: „Svo ertu bara grjótharður við mig, ekkert kjaftæði, give it to me straight“ áður en kvaddi. Ég hef oft ímyndað mér að það hafi verið þessi bók.


Ég held það sé alveg óhætt að segja að bókin hafi sokkið. Ég þekki mjög fáa sem hafa lesið hana. Túristi fjallar um nokkra (karlkyns) höfunda á ólíkum aldri, konurnar sem þeir elska (og elska ekki) og sögurnar sem þeir eru að skrifa og það einfaldar ekki málin að stundum eru þeir að skrifa hver um annan – maður er oft pínu lost hvort maður sé að lesa söguna eða eina af sögunum inni í sögunni. En það þarf ekkert að koma að sök, að minnsta kosti truflaði það mig ekkert. Inn í þetta þvælast svo alls kyns mýtológískir þræðir.


Í grunninn er þetta bók um skáldskapinn – kannski í senn kveðjubréf og boðun nýs höfundar og einhvers konar fagurfræðileg yfirlýsing og skopstæling á sömu fagurfræðilegu yfirlýsingu, árás á fagurbókmenntirnar og heiminn sem hýsir þær. Á stundum minnti hún mig á Ljósgildruna hans Guðna frá því í fyrra – nema einhvern veginn heiðarlegri, ekki síst vegna þess að Stefán ber enga dul á það á hvaða höfunda hann er að ráðast, og ræðst að lokum harkalegast að sjálfum sér. Það er heldur engu logið um gremjuna í þessari bók – og það er pungur í henni, það er varla að konur séu til sem höfundar. Karlarnir fá útreið en konurnar hunsun. Hér er t.d. lýsandi klausa um kollega sem „fá misbragðvont grín á baukinn og eru hraktir út í ystu myrkur baktalsheima“:

Þar á meðal eru Íslenski hesturinn (sagnamaðurinn geðþekki sem fær klór bak við eyra á Íslendingadeginum í Þýskalandi), Kiljan (ódýr vasabrotsútgáfa af Stórskáldi), Herra Ég-heimur (hin ofmetna fjölmiðlamellubylting sem étur sjálfa sig), Ullarsokkurinn (útbrunni vinstrimaðurinn með Laxnessæxlið), Gulldrengurinn (svar íslenskra bókmennta við Mikka Mús), Endaþarmurinn (músin sem hræðist viðurkenningu á efri árum en óttast þó algleymið mest af öllu), Fransbrauðið (ljóðvitaskuld), Tafsarinn (höfundurinn sem skríður undir rúm þegar verk hans taka ákveðna stefnu), Íkorninn (fimmfaldur Ólympíumeistari í innhverfum landsbyggðarprósa án atrennu), Mikki refur (skildu apa eftir með ritvél í einn dag og út kemur ný bók eftir Mikka ref) og Sonarvomurinn (sálarlausi bókmenntarisinn sem reynir að lífga við eigin saur með búktali og bleikri slaufu), að ógleymdum Tussunum (konurnar sem skrifa bækur sem aðrar konur fá í jólagöf en enginn les).

Góðvinir Stefáns fá líka á baukinn (á einum stað er t.d. talað um ljóðabók „Steinars B.“ Strippaðu, Mjallhvít, strippaðu). Maður þakkar eiginlega fyrir að hafa ekki þekkt hann. Nema ég sé sonarvomurinn – búktalandi risi á þermistiginu, það gæti átt við mig. Ég var samt voða lítið byrjaður að búktala 2005.


Mér fannst Túristi miklu betri en ég átti von á – hressileg í allri sinni heift og sínu mýtológíska kaosi. Kannski dálítið endaslepp – það blasir ekki við hvernig eigi að enda svona bók og hún fjarar svolítið út – en æsilegt ferðalag engu að síður (ég er ekki heldur þannig lesandi sem krefst endahnýtinga – þær eru oft bara óþarfi).

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page