Einlægt í jólabókaflóðinuFyrstu eintök Einlægs Andar munu komin til landsins. Þau eru þá í Reykjavík, þangað sem bækur og aðrar innfluttar vörur koma fyrst, og ég hef ekki séð þau, af því ég er ekki í Reykjavík. Ég er á Ísafirði og hér er voðalega leiðinlegt veður. Þegar það er svona vont veður fæ ég næstum samviskubit gagnvart fjölskyldunni minni, því þótt ég þykist vita að þau vilji líka búa hérna er alveg augljóst að þau myndu ekki gera það nema af því að ég er héðan. Ef fjölskyldufaðir þessarar fjölskyldu væri t.d. spænskur en ekki íslenskur myndu þau kannski öll búa í Mijas á suður Spáni og það er ég viss um að þar er ekki svona leiðinlegt veður. Það er ekki heldur svona leiðinlegt veður í Svíþjóð – þar er fallegt, norrænt haust.


Ég þarf að fara að gíra mig upp í jólabókaflóðið. Veit reyndar ekki alveg hvernig. Ég var eiginlega búinn að segja jólabókaflóðinu upp – ég spriklaði mig vitlausan þegar Hans Blær kom út, sem var dýrt og taugatrekkjandi, og var búinn að ákveða að ég nennti þessu ekki. Ég tók meðvitaða ákvörðun um að hafa Brúna yfir Tangagötuna ekki í flóðinu heldur gefa hana út snemma að vori til þess að vera að mestu laus við upplestra, ferðir og væntingar um umfjöllun. Ég hélt ekkert útgáfuhóf þegar hún kom út og las ekki upp úr henni opinberlega fyrren bara um daginn* – fljótlega eftir að eðlilegt hefði verið að halda útgáfuhóf byrjaði líka covid og þar með var útgáfufriðurinn fullkomnaður. Það var ágætt og ég er ekkert viss um að það hefði breytt neinu um viðtökur hennar – sem voru mjög góðar – þótt ég hefði dröslast um allar koppagrundir og fyllt samfélagsmiðla af skáldlegum hugleiðingum um bókina. Bækur eiga bara sín augnablik og stundum hitta þær á þau og stundum ekki.


Þegar líður að útgáfu þarf ég yfirleitt að taka tvær stórar ákvarðanir. Sú fyrri og stærri er hvernig ég ætli að haga ferðum mínum til höfuðborgarinnar. Það er svo undarlegt að ef mér er boðið til Bonn, Barcelona eða Rio de Janeiro til að lesa upp þá fæ ég gistingu, uppihald, ferðir og laun. Ef mér er boðið til Seyðisfjarðar, Tálknafjarðar eða Stykkishólms fæ ég gistingu, uppihald, ferðir og (oftast) laun. En ef mér er boðið til Reykjavíkur er ætlast til þess að ég borgi undir mig sjálfur, skottist yfir heiðarnar í vetrargaddi eða splæsi á mig flugi, fari á hótel eða reddi mér gistingu inn á einhverjum, láti bjóða mér í mat eða næri mig á veitingastöðum og ég má bara heita mjög góður ef ég fæ einhver laun (og aldrei í lífinu þann hækkaða taxta sem RSÍ mælir með ef maður fer út fyrir heimabyggð). Og þá er alveg sama hvort ég er að lesa á vegum forlagsins míns eða rithöfundasambandsins – meira að segja Ísfirðingafélagið í Reykjavík var steinhissa þegar þau buðu mér að koma og lesa upp og áttuðu sig á að það gæti kostað eitthvað. Ástæðan er alltaf sú sama. Það er ekki gert ráð fyrir þessu – rithöfundar eiga heima í Reykjavík, eða nógu nálægt Reykjavík til að geta skotist. Það þýðir ekkert að segja mér að ef það er hægt að finna pening til þess að flytja inn ljóðskáld til Rio eða fljúga með hersingar af Reykvískum rithöfundum á austfirði og vestfirði eða bjóða erlendum höfundum í kynningarferðir til landsins, sé ekki hægt að finna slíka sjóði í Reykjavík. Þetta er bara vani og hefð – og niðurstaðan þegar fólk áttar sig á því að þetta er eiginlega ekki sanngjarnt verður bara sú að bjóða manni ekki.


Ég gæti auðvitað sleppt því bara. En það yrði held ég ekki vinsælt uppi á forlagi og varla að mér þætti það forsvaranlegt sjálfum. Ég ætlast til þess að þau auglýsi bókina og eyði tíma og pening í að koma henni til skila. Og ég fengi bara samviskubit gagnvart bókinni. Ef ég gat lagt það á mig að skrifa hana hlýt ég að geta lagt eitthvað á mig til þess að fá fólk til að lesa hana.


Og þess vegna þarf ég alltaf að planleggja eina góða Reykjavíkurferð. Helst að komast í Kiljuna, hitta blaðamenn á kaffihúsum, láta taka af mér myndir, fara upp í útvarp, ná að lesa upp á bókakonfekti forlagsins og helst fleiri upplestrum. Á eins fáum dögum og ég get komið því við. Sem skapar önnur vandræði. Ég hef til dæmis verið bókaður í þrjú viðtöl uppi á RÚV sama daginn – eitt í sjónvarpi og tvö í útvarpi – sem skapaði meiriháttar óróa vegna þess að dagskipunin að ofan er þar að það séu ekki allir að tala við sama fólkið um sömu hlutina í sömu vikunni. Sem er í sjálfu sér skiljanlegt en það virðist heldur ekki vera rými fyrir starfsmenn til að vinna hlutina fram í tímann – að eiga viðtal á lager í nokkrar vikur – og þá stendur eftir möguleikinn fyrir mig að fara mörgum sinnum til Reykjavíkur. Sem er bara ekki í boði nema einhver ætli að borga fyrir mig flugfar fram og til baka (sem er reyndar standard í Svíþjóð – a.m.k. fyrir sjónvarpsviðtöl – en það er önnur veröld).


Í ár ætla ég – einsog ég reyni stundum að gera – að láta þetta hanga saman við utanlandsferð. Mér er boðið til Slóvakíu um miðjan nóvember og þær ferðir fæ ég borgaðar. Ekki bara til Slóvakíu heldur líka frá Ísafirði til Reykjavíkur og til baka og hótel í Reykjavík eina nótt á hvorri leið. Þá vantar mig að brúa 4-5 nætur og reyna að skipuleggja dagana svo þeir nýtist sem best. Ég er þegar búinn að bóka mig í hljóðbókaupptökur á morgnana – það á að taka upp Hugsjónadrusluna – og mér stendur yfirleitt til boða að gista hjá nokkrum vinum og kunningjum, en ég á eftir að gera það upp við mig hvort ég vilji heldur splæsa í hótel. Það er dýrt – kostar a.m.k. þriðjung úr fyrirframgreiðslunni minni – en því fylgir líka annars konar hugarró.


Hin ákvörðunin sem ég þarf að taka er um útgáfuhófið. Ég engist um af ákvörðunarkvölum. Hluti af mér langar alltaf að gera eitthvað brjálæðislega flókið skemmtikvöld – en hluti af mér vill bara slaka á og gera sem minnst. Mæta bara, fara kannski í spariföt, setja á mig hattinn, lesa eitthvað upp og árita bækur.


Í ár hef ég ákveðið að hafa útgáfuhófið í restina. Eða þannig. Tíunda desember, er ég að hugsa um, og þá er þetta eiginlega búið – a.m.k. fyrir okkur sem búum ekki í Reykjavík og erum ekki í jólahlaðborðunum eða fyrirtækjaglöggum. Þá get ég lýst þátttöku minni í jólabókaflóðinu – sem ég hata ekki bara, þetta er líka skemmtilegt, en einmitt kannski helst til langt í báða enda – lokið. En fyrir utan dagsetninguna er ég ekki búinn að ákveða neitt. Kannski væri gaman að hafa einhverja músík líka. Ég hef víst nægan tíma til að spá í þessu.


* Ég mundi alltíeinu að sennilega las ég einu sinni úr Brúnni fyrir einhvern gönguskíðahóp á Hótel Ísafirði. Þar voru eiginlega bara konur ef ég man rétt. Hinn upplesturinn úr henni var fyrir fullum sal af bókasafns- og upplýsingafræðingum í Edinborgarsalnum á dögunum. Það voru eiginlega líka bara konur.


118 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png