Eftirlætis ljóðlínan mín

Hver er eftirlætis ljóðlína mín – allra tíma? Og uppáhalds fræga skáldið mitt? Þessu á ég að svara og alltíeinu finnst mér einsog ég hafi aldrei lesið neitt ljóð og kannist ekki við nafnið á einu einasta ljóðskáldi. Og mér finnst öll svör sem mér detta í hug vera annað hvort popúlísk eða snobbuð – að velja einhverja línu sem enginn hefur heyrt minnst á eða eitthvað sem allir kannast við. Ekki að ég muni neinar línur sem enginn hefur heyrt minnst á, frekar en ég man neitt annað – ég er gersamlega minnislaus. Ég skrifa í staðinn fyrir að muna.

Ekki segi ég Ko Un af því hann er ígrundaður (e. cancelled). Ekki segi ég Allen Ginsberg af því það finnst öllum það svo hallærislegt – hann tilheyrir þeim flokki listamanna sem hefur einhvern tíma verið svo hressilega hæpaður að þeir bera þess eiginlega aldrei bætur. Það er einsog að segja að Bítlarnir séu uppáhalds hljómsveitin manns. Sama gildir um Bukowski og Waldman og Kerouac og eiginlega alla sem ég las sem unglingur. Er ekki tilgerðarlegt að segja Gertrude Stein? Hvað með Bodil Malmsten – er það ekki sjálfhvert (af því hún elskaði Illsku, er það ekki bara einhver leið til bókmenntalegrar sjálfsfróunar)? Snobbað að segja Paul Celan? Einhvern tíma hefði ég hiklaust nefnt tilraunaskáld – og jújú, ég gæti sagt Kurt Schwitters. Það væri ekki fjarri lagi. En ég hef ekki lesið hann spjaldanna á milli og ekki á frummálinu nema að litlu leyti. Og það sem mér finnst frábært er kannski engin ósköp – en mér finnst það mjög frábært. Eða eitthvað gott torf – Bruce Andrews eða Lyn Hejinian. Er ég búinn að lesa nóg af Hildu Doolittle til að segja að ég haldi mest upp á hana? Eða Jacques Roubaud? Á ég kannski að segja eitthvað íslenskt – sól tér sortna. Mér finnst Þorraþrællinn vera besta ljóð sem ort hefur verið á íslensku og ég man ekkert hver orti það. (Kristján Jónsson – gúglaði). Æri-Tobbi er mér afar kær en það meikar ótrúlega lítið sens fyrir útlendinga (þetta er fyrir útlendinga).

Whitman væri möguleiki – og ljóðlínan þarna „do I contradict myself. Very well then, I contradict myself. I contain multitudes.“ Þetta finnst ábyggilega einhverjum líka vera mjög ómerkilegt (ég er alltof viðkvæmur fyrir einhverjum ímynduðum lesendum) en þetta var svolítið eureka fyrir mig og ég held að nákvæmlega þetta, sem fagurfræði og heimspeki, sjáist í mínum eigin verkum. Ég yppti öxlunum við mótsögnum, þannig rúlla ég.

Skáldið og línan þurfa reyndar ekki að heyra saman. Og ég þarf að svara fleiri spurningum. Lýsa ljóðlist minni í fáum orðum. Nei, heyrðu – ég var að misskilja sé ég núna. Ég á að velja tvær úr hópi tíu spurninga. Svo ég hefði getað sleppt báðum þessum. Og ég get engst yfir þessu í nokkra daga í viðbót.

Kannski upphafið að If I Told Him eftir Gertrude Stein – mér finnst það geggjað en ég er ekki viss um að margir tengi endilega mjög sterkt við það. Og auðvitað er svona neimdropp einhver sölumennska.

Hugsanlega fer ég yfir á skrifstofu (ég er aftur á Heimabyggð) og lít yfir kilina á ljóðabókasafninu mínu. Ég er ábyggilega að gleyma einhverju enda augljóslega minnislaus, einsog mig minnir að ég hafi nefnt. Kannski þarf ég bara að lesa allar ljóðabækurnar mínar aftur.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png