Dottið í það

Maður hefur ekki annað að gera en að missa vitið. Þetta getur farið á alla mögulega vegu. Kannski verður þetta búið á morgun. Það er ósennilegt en kannski – og kannski segi ég það bara vegna þess að það virðist eina spáin sem maður hefur ekki séð í fjölmiðlum. Lyf finnst og reynist nú þegar finnast í öllum helstu eldhúsum eða baðherbergisskápum. Desilítri af flúortannkremi klárar kófið. Lyftiduft og sojasósa í jöfnum hlutföllum. Svo fá sér allir smakk og á laugardag verður partí, Eurovision verður aftur sett á dagskrá – 21. mars verður svona international independence day (var það ekki eitthvað í samnefndri mynd?)

Og kannski klárast þetta aldrei. Ég hef séð nokkrar þannig greinar. Enga sem spáir brjálæðislegu mannfalli samt – enga sem spáir því að 95% mannkyns þurrkist út. Það gæti líka gerst. Lífkerfið myndi hugsanlega fagna – og ekófasistarnir enn þá hærra. Þegar ég segi ekófasistar er ég vel að merkja ekki að meina Andra Snæ heldur Pentti Linkola og Unabomber-týpurnar. Þeir gætu báðir lifað að sjá drauminn rætast. Linkola er fæddur 1932 og Ted 1942.

Ekki veit ég hvað gerist í raun þegar borgirnar og verksmiðjurnar fara að brotna niður – það er ekki endilega fallegt til lengri tíma, hvað sem líður höfrungum í feneyjarsíkjum. Það er ekki bara að við mengum við höldum líka ýmsri mengun í skefjum. Annars hef ég ekki heldur alveg áttað mig á því hvað gerðist þarna í Feneyjum. Hvaða mengun er það sem venjulega fer í síkin? Þarna býr enn fólk þótt það sé inni í húsunum frekar en úti á götunum. Voru það túristarnir sem pissuðu í síkin?

Þegar þetta var að hefjast dreymdi mig draum þar sem geisaði svona farsótt nema í stað þess að fólk dæi urðu bara allir lasnir alltaf – það var hið nýja normal ástand. Allir alltaf með kvef og 38 stiga hita. Mjög ódramatískt einhvern veginn en líka fáránlega dramatískt.

Myndskreyting. DV gerir sitt til að bæta í víruskvíðann.


Yfirvöld segja að hápunkturinn á Íslandi verði á föstudaginn langa. Þau sögðu í sjálfu sér fyrir nokkrum vikum að það myndu ekki nema svona 300 veikjast.* Sennilega er ekki svo auðvelt að spá um þetta og samt nauðsynlegt að segja eitthvað – það er áreiðanlega pólitík frekar en vísindi.

Upprunalega endaði nýja bókin mín á fullkominni og algerri einangrun söguhetjanna. Heiminn einfaldlega snjóaði í kaf. Í ragnarakastíl. Það virkaði ósennilega þegar ég setti það á blað við sundlaugina í Hondúras í sumar. Raunar var mikil félagsleg einangrun að vera í San Pedro Sula, lokaður inni í fílabeinsturni, það var innblásturinn – eða hið tilfinningalega fingrafar. En nú hættir ekki að snjóa í alvöru. Ég segi ekki að húsið sé komið á kaf en það hefur eiginlega alveg snjóað fyrir gluggann í bílskúrnum – sem er vesen af því ég er að spreyja gítar þarna inni og þarf loftræstinguna.

Og svo breytti ég endanum. Enda slapp ég úr fílabeinsturninum. Ég hef eiginlega breytt endanum á öllum bókunum mínum. Nema Hans Blævi – ég man ekki eftir öðrum enda á hana. Ekki sem stendur.

Ég spái því nú samt að okkur muni ekki snjóa í kaf og að þetta ástand taki enda. Hvað sagði Trump – að flensan myndi, líkt og fyrir kraftaverk, gufa upp í apríl? Eða sagði hann kannski mars? Í öllu falli með vorinu. Daði fær ekki að fara í Eurovision, Trump vinnur kosningarnar í nóvember og það verða jól. En fyrst – þegar þetta klárast, eða þegar fer að slakna, flensan að lempast og aftur mælt með því að fólk hittist – ætla ég að detta í það með vinum mínum. Þetta er spá dagsins.

***

Mér skilst að þessu hafi ekki verið haldið fram – heldur hafi þau sagt að 300 manns myndu veikjast nógu alvarlega til að leggjast inn. Sem er auðvitað nokkuð annað. Hitt er svo satt að margir, víða hafa vanmetið afleiðingar vírussins (og áreiðanlega hafa margir ofmetið þær líka – en það á eftir að koma í ljós).

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png