De kommer att drunkna i sina mödrars tårar; Orange is the New Black; The Good Place, s. 3; Us; Conti

Ég hef lítið lesið síðustu daga – eða lesið hægt, bók um sögu blússins sem ég er hvergi nærri búinn með – en mikið horft og ekkert dokumenterað. Það eru margir póstar sem þarf að segja frá og ég ætti að gæta mín á að segja ekki of mikið um hvern og einn. Svo er reyndar líka merkilegt hvað þetta er fljótt að hverfa úr minninu.

***

De kommer att drunkna i sina mödrars tårar eftir Johannes Anyuru. Hún fjallar um konu úr hliðarveruleika sem rankar við sér í miðri hryðjuverkaaðgerð. Í veruleikanum sem hún á heima í átti þessi aðgerð sér líka stað, þótt hún tæki ekki þátt í henni, og varð til þess að fasistar tóku völdin og múslimar urðu kúgaður og pyntaður minnihlutahópur með svipuðum aðferðum og í helförinni og/eða abu ghraib. Konan lifir aðgerðina af og endar á hæli og rithöfundur – Johannes Anyuru sjálfur? – fer reglulega og ræðir við hana um hennar sýn á lífið.

Þetta er í senn sci-fi og harðkjarna raunsæi – sósíal-realísk bók sem samt einblínir á sálarlífið. Mjög góð og meðmælist innilega. Eini gallinn, fyrir mig, var einhver asnalegur kjánahrollur yfir vissum elementum í hliðarveruleikanum. Hann var því betri sem hann var realískari en eitthvað hallærislegur þegar farið var að tala um „sensogram“ (sem er Facebook með bara texta) og annað álíka dót í hliðarveruleikanum. Fullkominn óþarfi – passar ágætlega í annars konar bækur en reif mann alltaf upp úr þessari, svona einsog maður væri annað veifið staddur í einhverju Andrésblaði.

***

Kláraði lokaseríuna í Orange is the new black kvöldið áður en við áttum að fara frá Hondúras (við lentum í afar dýrum vandræðum og lögðum ekki af stað heim fyrren degi seinna en við ætluðum). Eftirminnilegasta senan fyrir mig verður alltaf sú þegar Blanca ákveður að elta manninn sinn, sem hefur verið vísað úr landi, og flýgur til San Pedro Sula: Hvað ertu að gera hér, í morðhöfuðborg heimsins, þegar þú gætir verið hvar sem er annars staðar? spyr Diablo. Fyrir ástina, svarar Blanca.

Ég átti hins vegar völ á því að taka ástina með mér frá San Pedro Sula og er mjög þakklátur fyrir það.

Lokaserían var langdregin og það gerðist ekkert nýtt eða áhugavert í henni. Það var talsvert verið að strjúka súper-aðdáendunum og væmnast yfir því að þetta væri búið – sem var ábyggilega gott fyrir þá sem voru djúpt sokknir en minna fyrir okkur hin sem vorum farin að missa áhugann. Mér finnst líka bara almennt fleiri og fleiri svona seríur lenda í vandræðum með söguþráðinn – þetta er allt byggt í kringum einhverra narratífuhúkka og þegar þeim sleppir áttar maður sig á því að persónurnar eru, í allri sinni djúpu baksögu, voðalega keimlíkar – eða a.m.k. einsog þær hafi allar orðið til í sama think-tankinu sem mannað var fólki með mjög keimlíkan og þröngan bakgrunn (kannski ólíkan húðlit og kynhneigð en útskrifað úr sömu skólunum, með sömu gráðurnar) hafandi lesið sömu bækurnar).

Áhugaverðast í lokaseríunni var útúrdúrinn – fangabúðir hælisleitenda og flóttamanna – en virkaði eiginlega bara fyrir þá karaktera sem við vorum búin að kynnast. Egypska kynfæralimlesta lesbían sem þaut inn í líf okkar og hvarf svo aftur markaði lítil spor í tilfinningalíf mitt – eða svona, bara einsog lítil frétt í blaði hefði gert. Mjög sorglegt en ég náði ekki að kynnast henni að ráði og kannski sérstaklega ekki vegna þess að höfundar reyndu að tvíhenda henni ofan í kokið á mér.

Annars fínt. Ég er að kvarta meira en þetta átti skilið.

***

Good Place – 3. sería. Eftirlífskómedía sem er skemmtileg meðan ég horfi á hana – kannski bara af því allir eru svo myndarlegir – en ég man ekki alveg um hvað þetta var. Fallegt fólk held ég, sem er dautt. Ted Danson alltaf flottur.

***

Kvikmyndin US virkaði ágætlega. Fín hrollvekja. Svolítið einsog það væri búið fullmikið búið að túlka merkingu hennar ofan í áhorfendur – táknsagan aðeins of augljós, ég hefði viljað vinna meira af vinnunni sjálfur og að merkingin væri svolítið óljósari. Merking myndlíkingarinnar er annars sirka: Byltingin er að koma og ríkt forréttindafólk verður skorið milli eyrnanna og heimurinn ferst og sennilega er byltingarfólkið skítugt og ljótt og vont og hættulegt (einsog raunar líka í Tímakistunni, sem við börnin erum að lesa – bæði verk sem virðast hálfvegis með byltingunni í liði en sjá hana líka sem stjórnlaust eyðileggingarafl). Þetta birtist okkur sem zombísaga með því tvisti að zombíarnir eru doppelgangerar.

Ég hélt hún væri meira artí. Var í þannig stellingum. Annað hvort meira Guillermo del Toro eða Romero – en þetta var meira bara svona Single White Female. Gæti algerlega orðið einhvers konar klassík en pródúksjónin er samt mjög meinstrím og hefði mátt vera vogaðri.

***

Gítarnörd elska John Mayer. Þetta hefur mér skilist á poddköstum og youtubemyndböndum. Hann er með besta sándið, tæknilega flottastur, spilar og syngur af ofsalegri tilfinningu. Svo er hann líka mjög sætur. Ég hef nokkrum sinnum reynt að gefa þessu séns en aldrei fattað neitt. Þegar Josh Scott (pedalahönnuður; JHS) nefndi svo á youtubinu sínu að Continuum með John Mayer, frá 2006, hefði breytt gítarheiminum ákvað ég að gefa þessu séns.

Þetta er í sjálfu sér fínasta popp. En sennilega ekkert fyrir mig. Það virðist ekki mega gefa út tónlist nema ofpródúsera hana svolítið hressilega. Og þótt gítarleikurinn sé að sönnu góður fer bara frekar lítið fyrir honum – nema kannski í Bold as Love koverinu.

Það sem mér finnst skemmtilegt í gítarleik – það sem kveikir í mér – er stjórnleysið og hávaðinn. Þegar skepnunni er hleypt á skeið og reiðmaðurinn gerir sitt besta til að halda aftur af henni – missa ekki sjónar á bítinu og reyna svona sirkabát, en ekki alveg, að halda sig innan hins melódíska slóða. Þetta gera Charley Patton og Son House, þetta gera Hendrix og Stevie Ray, þetta gera Django og Wes – meira að segja Steve Vai og Eddie Van Halen gera þetta. John Mayer reynir aldrei á þolmörk þessa nornakústar, hvorki í lagasmíðum né spilamennsku, heldur er hann svolítið einsog … hérna … sko. Þegar ég var barn og unglingur lék ég oft tölvuleiki. Einhvern tíma uppgötvaði ég síðan svokölluð cheat. Ef maður hélt niðri fimm ólíkum tökkum í 10 sekúndur og ýtti svo á tvo aðra fékk maður endalaus líf og varð ódrepandi og gat vaðið í gegnum öll borðin. John Mayer er svolítið svoleiðis. Rífur í sig tölvuleikinn einsog alger meistari – án þess að vera meistari, án þess að taka nokkra áhættu. Þetta er einsog leiðinlegustu hliðar Claptons, nema leiðinlegra. Wonderful Tonight á fínna kókaíni.

***

Ég horfði á Antman. Hún var held ég fín. Mest til að drepa tímann í flugvél. Minnir að mér hafi þótt hún ágæt.

***

Ég horfði líka á Captain Marvel. Ég man að mér fannst hún betri en Antman. En um hvað var hún aftur? Einmitt já, hún hélt hún væri geimvera en var mannvera (spoiler alert, sorrí). Ætli mér hafi ekki þótt leikkonan góð líka, ég held það. Söguþræðirnir í þessum myndum renna svolítið saman fyrir mér. En ég fíla þær samt. Það þarf ekki allt að vera eftirminnilegt og það er ekki eini mælikvarðinn á gæði.

***

Sideways. Gamall klassíker. Líka í flugvél. Ekki nógu woke, held ég, sennilega myndi því fólki finnast hún fullmikið normalísera eitthvað toxískt. Hún fjallar um tvo misheppnaða náunga. Annar á bágt með að leyfa fólki að elska sig af því hann hatar sig sjálfur svo mikið og hinn á bágt með að elska aðra, sennilega af því hann er of sjálfselskur. Þeir fara í ferðalag um vínekrur Kaliforníu til að velja vín í brúðkaup þess sjálfselska – sem hefur einnig hugsað sér að ríða mjög mikið á þessum lokametrum fyrir hnappheldu, og koma hinum vonlausa vini sínum upp á kvenmann. Bæði tekst í sjálfu sér en hefur alls konar neikvæðar afleiðingar.

Þegar myndin var gerð hafði enginn vit á víni. Að hafa vit á víni – eða bjór eða ólífum eða súrdeigsbrauði eða öllu hinu – var eitthvað sem oflátungar höfðu. Það þótti mjög fyndið að heyra þessi merkikerti rífast um merlot. Þetta hefur breyst mjög mikið. Nú hafa allir skoðun á merlot – eða, flestir eru komnir í náttúruvín, held ég. Eru þau líka merlot? Ég er svo mikill oflátungar að ég er yfir þetta hafin – grobba mig beinlínis af því að kaupa bara vínflöskur út frá verðinu (ég er svona 2.500-3.000 króna flösku maður í ríkinu – fer hærra í fríhöfninni og geymi þær flöskur fyrir sérstök tilefni). Í alvöru er þetta samt bara af því ég hef ekki tíma til að vita allt og það eru of mörg vín í ríkinu.

***

Once upon a time in Hollywood. Nú er hætt við að ég verði ofsalega margorður en ég ætla að standast það. Þetta er besta mynd Quentins Tarantino frá Pulp Fiction – eða í það minnsta Kill Bill – og hugsanlega sú sem höfðaði mest til mín. Ég er orðinn rosalega þreyttur á sögum sem draga mig áfram á plottpunktum og vendingum – þessu netflix-heilkenni, keppninni um athygli okkar, þetta horfðu á mig horfðu á mig horfðu á mig – og var eiginlega bara mjög þakklátur fyrir að fá svona sögu þar eru engir eiginlegir plottpunktar fyrren í lokin. Fyrstu tveir og hálfi tíminn eru bara einsog ljóð úr kvikmyndaminnum og fegurðarblæti – svo kemur ofsalegt þriggja mínútna kaþarsis. Knús og kómedí í lokin.

Ég lenti í stuttri rimmu um myndina á Facebook – við Gunnar Smára. Hann tók woke-afstöðuna og las í þetta kvenhatur, barnaskap og hægrimennsku – kvað meira að segja upp Reagan og sagði myndina andsnúna hippum. Gekk meira að segja svo langt að segjast ekki vita „hvers kyns fólk Manson og hans lið var“ – það væri kannski bara búið að demónísera þau svona.

Smári er yfirleitt mjög læs á stórsöguna, þótt hann eigi til að missa sjónar á díteilum og mikilvægum undantekningum, en eitthvað held ég hann hafi misst úr nokkra kafla í menningarsögunni þegar hann er farinn að lesa Reaganisma út úr höfundarverki Quentin Tarantino og einfalda hippa úr Manson og kompaní. Nema bara veröldin sé öll komin á hvolf.

Annars er það vel að merkja alveg satt að það er ýmislegt misfagurt í myndinni og sjónarhornið og karakterarnir eru ekki endilega neitt æðislega réttlát – þetta er mynd um misheppnað en fallegt fólk og sjónarhornið er á tíma sem voru misheppnaðir en fallegir. Einsog allt fólk og allir tímar eru misheppnuð og falleg strax og maður stígur upp úr eigin skinhelgi og sér það í perspektífi. Þetta lærði ég af hippanum Allen Ginsberg (raunar mætti segja að Howl/Ýlfur Ginsbergs sé svipað byggt og af álíka fetisjisma fyrir eigin sögu – Ýlfur fjallar líka um gallað og ljótt fólk sem er fallegt og heilagt).

Það má reyndar lesa eitthvað í söguna um samtímann – ég segi það alls ekki – og það er ekki allt einhver dýrðarsöngur um (móralska) vinstrimenn. Ég held það sé ekki tilviljun að woke-drottningin Lena Dunham er látin tilheyra Mansongenginu. Og það er ekki tilviljun að þau halda ræður um skemmtanabransann – sem hafi gert þau að morðingjum, spillt þeim. Móralska krafan sem hangir yfir Hollywood – sem er ásamt tölvuleikjahönnuðum og tónlistarmönnum kennt um að búa til siðleysingja, morðingja, sjálfsmorðingja, aumingja, úrhrök og svo framvegis – er þrúgandi og Tarantino hefur ábyggilega fengið kaþarsis út úr því að slátra henni bara svona metaforískt. Og það má alveg halda því til haga að þangað til á allra síðustu árum kom þessi siðsemiskrafa ekki síst frá hægri – og a.m.k. ekki vestræna vinstrinu – og náði þá hápunkti sínum hjá áðurnefndum Reagan og hans ágætu frú, Nancy.  Jú og Tipper Gore líka – ef við viljum kalla hana „vinstri“ þá er vinstrið ekki alveg saklaust af þessu heldur.

***

Continuum gengur hér í bakgrunninum. Þetta er nú soldið næs þótt þetta sé gelt. Svo það sé sagt. Ég er náttúrulega á rétta aldrinum fyrir adult contemporary (sem ég hafði annars dellu fyrir þegar ég rétt skriðinn yfir tvítugt). Hann mætti nú samt syngja af aðeins minni tilfinningu stundum, hann John. Það er ekki hægt að ná neinum toppum ef maður byrjar alltaf í botni. En hann getur líklega ekkert gert að því að vera svona rosalega tilfinningasamur maðurinn.

***

Ég fór á Bossa Nova tónleika í Edinborg. Það var líka eins gott – missti af Salóme Katrínu á Tjöruhúsinu og mun missa af austurrísku sveitinni Fräulein Hona á Húsinu á laugardag (erum að fara í Flatey með gjafakort til að fagna 12 ára brúðkaupsafmæli). Ef ég hefði misst af öllum þremur hefði ég orðið mjög leiður.

Ife Tolentino og Óskar Guðjónsson léku aðallega lög eftir – eða í útsetningu – Joao Gilberto. Þetta var bæði skemmtilegt og fróðlegt. Bossa Nova er í grunninn samba-taktar spilaðir á klassískan gítar – endurframleiðsla á nístandi toppum ásláttarhljóðfæra á hljóðfæri sem hefur enga toppa, er náttúrulega kompressað, ljúft og tamið. Hitinn og þunginn hvíldi á Ife á gítarnum allan tímann – hann söng líka, í þessum sérstaka söngstíl sem á uppruna sinn í einhverju héraði í Brasilíu sem ég man ekki hvað heitir, og var tekinn upp í Bossa Nova (sem þýðir bara „nýbylgja“, vel að merkja). Óskar leikur sér að þessu – að vísu var hann stundum aðeins of mikið á sjálfstýringu, en það er helvíti mikið á spunasólóista lagt að halda 100% einbeitingu allan tímann. Meira að segja Hendrix datt öðru hverju úr zóninu. Ég tala nú ekki um þegar menn eru hangandi í bíl allan daginn milli gigga og spila á hverju kvöldi. Hann átti líka geggjaða spretti og var auðvitað Óskar Guðjónsson alla tónleikana, og það leika ekki margir eftir, og ég er ekki að segja að þetta hafi ekki verið frábært!

***

Ég hlustaði á podcast-viðtal við Vanessu Place, ljóðskáld sem skrifaði bók sem er í grunninn ekkert annað en sægur af nauðgunarbröndurum aðallega frá sjónarhóli gerenda. Einsog þið getið kannski ímyndað ykkur tók samtíminn bókinni ekki alveg fagnandi og hún var auðvitað afboðuð og fær sjaldan boð um upplestra eða annað í bókmenntakreðsunum í Bandaríkjunum. Hún var að vísu alltaf umdeild og var a.m.k. búið að hálfafboða hana fyrir að tísta allri Gone with the Wind, orðrétt, á twitter. Það þótti mjög ljót endurvinnsla á rasískri bók en vakti aðallega athygli og úlfúð sem hálfgerð framhaldsathygli og framhaldsúlfúð í óveðrinu þegar Kenneth Goldsmith – postuli „uncreative writing“ og fundinna texta – las upp krufningarskýrslu Michael Browns á uppákomu í Bandaríkjunum fyrir nokkrum árum. Þá var Vanessa afboðuð eiginlega bara af því fólkið var hvort eð er með kvíslarnar á lofti og hún þvældist fyrir þeim á leiðinni heim. Rape Jokes hefur verið í Amazonkörfunni minni um nokkra hríð en ég hef ekki keypt hana enn – en hef heyrt Vanessu lesa næstum alla bókina á netinu. Þetta er fyndið og alls ekki fyndið og hrikalegt og allt í senn. Merkingarlítið sem stakir brandarar en nær einhverjum skriðþunga svona hver á fætur öðrum í deadpan flutningi innanum fólk sem veit ekkert hvernig það á að bregðast við.

Annars er hún líka umdeild fyrir fræðistörf sín. Hún er lögfræðingur og raunar lögmaður – ver verstu skítseyðin, fólk sem er sakað um nær ólýsanlega ljóta glæpi – og hefur skrifað bók þeim og sér til varnar. Þá bók hef ég lesið og man kannski helst eftir því sem hún skrifaði um DNA-rannsóknir í glæpamálum og oftrú okkar á þá annars ágætu tækni. Jú og almennt um takmarkanir laganna og hvað við eigum erfitt með að sætta okkur við að lögin skuli ekki leysa öll vandamál, að réttlætið sé hreinlega ekki alltaf í boði.

Mér var reyndar bent á hvað þetta viðtal væri hræðilega pródúserað. Þetta er símaviðtal á einhverju heimapoddkasti og gaurinn sem tekur það er með meira agenda en Vanessa, sem er kúl. Annars er svo mikið af ljóðapoddköstunum sem ég hef hlustað á svo brjálæðislega lo-fi – bara eitthvað fólk með iphone á milli sín í klukkutíma – að ég tek ekki eftir svona lengur.

***

Við Aino lásum Hvernig á að passa afa eftir Jean Reagan. Hún fjallar um strák sem passar afa sinn meðan foreldrar hans fara út. Er eins konar leiðarvísir. Textinn er skrítinn, ég átta mig ekki á því hvort bókin er illa þýdd eða bara illa skrifuð, en þetta er ruglingslegt. Aino finnst hún samt skemmtileg. Verksmiðjulegar teikningar.

Við lásum líka Það er tígrisdýr í garðinum eftir Lizzy Stewart. Hún er nú ekki illa þýdd! Enda amma Ainoar Magneu og hálfnafna, Herdís Magnea, sem þýddi og hún kastar sko ekki til hendinni. Bókin fjallar um stelpu sem leiðist heima hjá ömmu sinni (sem er held ég undarlegur og ókunnur veruleiki fyrir Aino og ömmu hennar) og er send út í garð á þeirri forsendu að þar sé tígrisdýr, ísbjörn og ýmislegt fleira ævintýralegt. Stelpan er vantrúuð á þetta en fer samt og auðvitað stendur þetta allt heima. Mjög skemmtileg bók og fallegar teikningar.

***

Það er kannski ekki beinlínis menningarviðburður en ég gekk í fangið á einu uppáhalds ljóðskáldinu mínu á dögunum, hinum suður-kóreska Ko Un. Það var eiginlega alveg fáránlegt. Ko Un var einn allra líklegasti kandídatinn til þess að fá nóbelsverðlaun þar til hann lenti í einhverjum áreitniskandal sem ég kann ekki mikið um – en held hafi verið mínímal – og svo þegar akademían lenti sjálf í epískum áreitnisskandal – fremur maxímal – þá dó sú von held ég alveg. Ko Un er samt alltaf og verður eitt allra besta skáld samtímans – ég held að enginn tali jafn sterkt til mín. Og svo bara birtist hann hérna – einsog hver annar Alexander Skarsgård (sem Andri Snær dró mig einu sinni út í bjór með á Tjöruhúsinu).

Ég var lasinn heima og fékk skilaboð frá kunningja mínum á Flateyri, Eyþóri Jóvinssyni, sem sagði Ko Un hafa rambað inn í bókabúðina sína. Í svona fimm mínútur sat ég bara og velti því fyrir mér hvort ég ætti að gera eitthvað. Hvort ég væri of gamall til að láta einsog ég væri fimmtán ára, árið væri 1965 og Ko Un væri John Lennon. Átti ég að fara á áritunarveiðar? Var ég of kúl fyrir það? Var kannski ekkert lúðalegra en að vera of kúl fyrir áritunarveiðar þegar maður veit af átrúnaðargoði á næstu slóðum?

Á endanum ákvað ég að ég gæti ekki minna gert en farið úr húsi og náð í bækurnar mínar ef ég skyldi fá tækifæri til að biðja um áritun. Ég hjólaði niður á kontór, náði í þær upp í hillu og þegar ég kom út aftur var Ko Un og fjölskylda hans fyrsta fólkið sem ég sá. Hann tók mér vel og áritaði bækurnar og þau sögðu mér aðeins af ferðum sínum og að þau væru að vonast til að það yrði einhver viðburður í Reykjavík þann 23. ágúst en strandaði á einhverju, sem ég áttaði mig ekki á hvað ætti að vera. Svo þakkaði ég bara fyrir mig af öllum innileik og lét mig hverfa. Ég er ekki viss um að maður græði neitt á því að kynnast átrúnaðargoðum sínum – það er kannski bara til að gera út af við galdurinn. Hluti af mér er svo auðvitað á því að ég hefði bara átt að elta hann út á enda veraldar, sitja við fótskör hans og nema eilífðarvísindin. En það verður ekki sleppt og haldið og sennilega hefði fjölskyldunni hans bara þótt það vandræðalegt.

***

Gítarleikari vikunnar er John Mayer. Ég reyndi að finna eitthvað live og svolítið hrátt en hann verður bara ekkert hrárri en þetta. Samt mjög góður – og auðvitað frábært lag.


0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png