top of page

Dagur 9 af 90: Til punkts


Mig minnir að það hafi verið Thomas Mann sem sagt var um að hann hefði alltaf staðið upp frá skrifborðinu við sama orðafjölda, jafnvel þótt hann væri í miðri setningu. Mér finnst líklegt að hann hafi skrifað með penna svo hann hefur þá stöðugt þurft að vera að telja. Ég geng ekki svo langt og þarf ekki að telja sjálfur. Oft kemst ég í stuð við að fara í gegnum textann í annað sinn og byrja að fita hann og sjá á honum alls konar skemmtilega vinkla en ég reyni að stramma mig samt af – það er drjúgt að eiga þann innblástur til góða þegar maður sest niður næst, andlaus og illa sofinn.


Ég svaf reyndar vel í nótt – sem er einsog lesendur þessa bloggs vita kraftaverki næst.


Kominn tíund í gegnum þetta átak og þótt ég hafi sinnt mínu finnst mér ekki einsog ég sé tíund nær marki og er strax farinn að íhuga hvort ég eigi að framlengja átakið eða breyta skipulaginu einhvern veginn. Líklega eru það ótímabærar áhyggjur.


Hluti af mér þráir heitt að klára þessa bók fyrir vorið svo það megi gefa hana út í haust. Annar hluti af mér vill helst aldrei klára hana og alls ekki vera með í þriðja jólabókaflóðinu í röð. Sá hluti er sennilega líka tilfinningalega markaður af því að þegar ég byrjaði á þessari bók ákvað ég að nálgast hana einsog þetta væri síðasta bókin mín – eða hugsanlega bara sú eina. Skyldar hvatir hafa sprottið upp í mér áður – alls ekki alltaf að vísu og ég hef aldrei verið jafn meðvitaður um tilfinninguna. Eða hvað maður kallar það. Kenndina. Ákvörðunina. Hvötina. Þetta er löngun til þess að tala út – komast til botns – og kannski líka þrá eftir því að hvíla sig, án þess að finna til skyldunnar að grípa strax í næstu sögu. Og líka löngun til að vera um kyrrt.


Þegar ég byrjaði lýsti þetta sér praktískt í því að ég ákvað að smíða sögusvið sem ég gæti jafnvel endurnýtt mörgum sinnum – þar sem segja mætti margar sögur, þar sem ég gæti sest að til frambúðar. Nú tveimur árum síðar finnst mér í sjálfu sér ólíklegt að sviðsmyndin standi af sér ósköpin sem þar dynja á – eða að þar verði sagðar fleiri sögur – og ekki undarlegt að þeirri uppljómun fylgi ákveðinn heimsslitabragur. Ég smíðaði heiminn og ég sé hann fyrir mér þurrausinn með vorinu og því fylgir léttir og ótti. Ég vil kannski tala til punkts en ég óttast líka merkingu punktsins og það sem er handan hans.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page