top of page

Dagur 64 af ?: Áhyggjur mínar af borgarastéttinni


Við komumst fram og til baka. Krakkarnir spiluðu á Nótunni við góðan orðstír. Í Hörpu veitti ég því athygli að búið var að pissa undir allar klósettskálarnar karlamegin. Þetta olli mér heilabrotum – ef ekki hreinlega áhyggjum. Hvað er að verða um borgarastéttina? hugsaði ég. Er þetta kannski einhver afleiðing af covid?


Á veitingastaðnum var ég ávarpaður á ensku og þegar ég svaraði á íslensku sagði þjónninn: „Ó, ég hélt ... lopapeysan“ og benti á peysuna mína. Fyrir aldarfjórðungi var hún minn stolti dreifara-fáni, nú er þetta fyrst og fremst til merkis um að maður sé ekki innfæddur. Ég þarf kannski að kaupa mér skyrtu. Eða ekki – kannski bara alls ekki, hreint ekki.


Í bókabúð keypti ég Arf og umhverfi eftir Vigdísi Hjorth og var spurður í afgreiðslunni hvort ég væri Eiríkur. Ég játti því. Þetta þótti börnunum mínum forvitnilegt og ég fékk kærkomið tækifæri til að útskýra fyrir þeim að pabbi þeirra væri frægur í bókabúðum. Svo mjög raunar, að minnstu munaði að fólk bæri á mig kennsl. Og eina ástæðan fyrir því að konan var í vafa hafi verið sú að ég hef bætt á mig tíu kílóum við þessi blessuðu bókarskrif og er hættur að raka mig.


Ég gekk svo í flasið á Páli Baldvini í annarri bókabúð. Hann þekkti mig strax og spurði – mjög hissa – hvað ég væri að gera í borginni. Páll var reyndar í mjög góðu skapi. Ég var hins vegar með allt á hornum mér – og minnti á PBB annó 2006 í Kiljunni – veifaði handritinu fúllyndur framan í hann og sagðist ekkert geta skrifað út af þessu Nótu-dæmi. Ég sé fyrir mér að í ritdómi sínum næsta haust (ef þetta hefst fyrir haustið og Auður Jónsdóttir verður ekki búin að reka hann af Heimildinni) muni Páll nefna að sennilega hefði þessi bók mátt við meiri vinnu – að minnsta kosti góðri helgi í mars, það sé hreinlega einsog tempóið hafi fallið þegar höfundurinn þurfti óvænt að fara til Reykjavíkur.


Lomma hittum við Aram í pizzu. Hann lét mig svo fá gamlan Nýhil-lager sem ég mun raða í hornið á skrifstofunni minni sem Elísabet, leigusali minn, arkitekt og listapatrón, kallar „óseldu bækurnar hans Eiríks“ – nú stækkar sá haugur sem sagt umtalsvert og þar með niðurlæging mín að geta ekki selt þetta. Mest er af Af steypu og Handsprengju í morgunsárið – sem eru samt bestu bækurnar mínar.


Ég náði jafn lítið að vinna og ég hélt ég myndi gera. Settist þrisvar niður í yfirlestur – einu sinni í Hörpu, einu sinni á Hressó og einu sinni á Oddsson í Skeifunni (þar sem við Aram gistum). Í fyrstu lotunni, þegar ég las byrjunina, fylltist ég miklu vonleysi. Sennilega var þar um að kenna samblandi af þreytu og því einfaldlega að þetta er ekki nógu gott. Byrjunin er ómarkviss (ég veit það hljómar undarlega fyrir sumum að ég kalli skrif mín ómarkviss, af því þau eru stundum svolítið út um allt, en það á samt að vera á þessum vaðli tiltekið form, there's a method to the madness og það allt saman) og hreinlega leiðinleg og klunnaleg. Mér til talsverðrar gleði rætist nú úr þessu „fljótt“ (eftir svona 50 síður) og allt fer að virka svona meira og minna einsog það á að gera. Og þegar ég var búinn að hvíla mig varð mér líka ljóst að þessar 50 síður get ég hæglega lagað – það er auk þess til marks um að ég sé ekki út á þekju að ég komi auga á svona og sé fær um að fyllast vonleysi og sjálfshatri yfir því. Verst væri að taka aldrei eftir neinu.



2 comments
natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page