top of page

Dagur 6 af 90: Miðjan og markið

Zadie Smith segir að í miðri skáldsögu verði höfundurinn hugsjúkur og allt annað hverfi sjónum hans. Öll samskipti litist af því sem er að gerast í sögunni – eða hún hreinlega taki yfir. Allar fréttir í blöðunum hafi beint með söguna að gera. Öll tónlist streymi beint inn í hana. Makar breytist í risastórar semíkommur og börn verði þankastrik. Í raun sé ekkert til nema bókin.


Mér varð hugsað til þessa áðan þegar ég leit upp í miðri setningu og sá þetta:

Þetta eru auðvitað geðþóttatölur – eitthvað slump. En ég er þá hálfnaður að slumpuðum endalokum.


Ég veit ekki hvort ég hef nokkurn tíma séð Nödju breytast í semíkommu en ég kannast við tilfinninguna um að finnast allt sem maður rekst á einhvern veginn tengjast því sem maður er að gera – og engin tengsl verða nógu langsótt, allt brúast með hægð. Kannski er þetta skylt því þegar fólk fellur fyrir samsæriskenningum um eðlufólk og frímúrara – eða lendir í geðrofi. Alltíeinu hverfist allur heimurinn um bókina og allt sem getur truflað hana – sem er fátt – vekur óstjórnlega gremju, en allt sem frjóvgar hana – sem er næstum allt – vekur óstjórnlega kátínu.


Zadie Smith tekur vel að merkja fram að miðja skáldsögunnar sé ekki endilega landfræðileg miðja hennar – ekki akkúrat þegar maður er búinn að skrifa helming orðanna. Hún getur verið hvar sem er í ferlinu. Fyrir sumum er hún kannski í endurskriftunum – fyrir öðrum þegar heimildavinnunni er lokið, strax og fyrsta orðið er sett á blað. Og sennilega birtist hún mér í þessari sögu einmitt þarna fyrir 5-6 þúsund orðum þegar mér fannst skyndilega – eftir tveggja ára streð/pauf/dútl/þrældóm – stefnan og heimurinn orðin nógu skýr til þess að ég gæti bara sett allt í botn og keyrt áfram. Ég get ekki lýst því með orðum – og er það þó mitt fag – hvað þetta er fullnægjandi tilfinning. Helst vildi ég vera hér að eilífu og komast aldrei út á enda, klára aldrei þessa sögu. En þessi saga er af tiltekinni stærð – þótt sú stærð sé slumpuð – og sennilega er það, ef ég á að vera heiðarlegur við sjálfan mig (og ykkur), líka hluti af gleðinni: að sjá í mark.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page