top of page

Dagur 4 af 90: Súrdeigsmaður


Allt gengur einsog ... í sögu (hehe). Þanniglagað. Fyrstu tvo dagana var innblástur bærilegur, í gær var hann ekki alveg nógu góður – en það sem mér tókst að skrifa var samt sennilega mjög gott og mikilvægt þótt það væri erfitt að koma því í orð – og í dag var ég eiginlega bara búinn að „öllu“ fyrir klukkan 11. Með „öllu“ meina ég þá það sem ég ætlaði mér. Búinn að dagsverkinu. Í stað þess að þramma bara áfram einsog sköpunarferlið væri járnmaður ákvað ég að nálgast það einsog súrdeigsmóður, baka úr þessu sem ég skóflaði upp í morgun, en skilja líka helling eftir í krukkunni, mata hana með einhverju, og sjá hvort það verður ekki allt sprúðlandi af sköpunargleði hérna á morgun líka. Ég hef líka nóg annað að spekúlera – pota í strúktúrinn, krota hjá mér glósur fyrir einn stóran nýjan þráð, og svo hef ég bara gott af því að lesa aðeins. Ég leit líka á viðtöl við Jonathan Franzen og Don DeLillo að gamni. Í dag eru þeir mitt vatn og hveiti.


Það er ekki alveg vandkvæðalaust að blogga um ritstörf þegar maður vill helst ekki láta of mikið uppi um hvað maður er að skrifa. Það er alveg hugsanlegt að ég hafi nefnt það eitthvað á netinu – af og til hef ég verið spurður á förnum vegi og það er upp og ofan hvort ég sný mig bara út úr því, segist ekkert vilja gefa upp, eða blaðra öllu um söguþráð, helstu persónur, fyrirætlanir mínar og hvernig þessar persónur vilja stundum ekki hlýða mér. Kannski hef ég meira að segja sagt eitthvað í viðtölum – ég myndi alveg trúa mér til þess! Ég hef mjög litla stjórn á sjálfum mér. En það er auðvitað mjög misráðið. Í raun og veru ætti maður kannski aldrei að segja neitt og kannski ekki heldur gefa neitt út – bókmenntir eru mjög prívat, svona þegar ég hugsa út í það.


En ég hef samt frá ýmsu áhugaverðu að segja. Ég er t.d. að íhuga að taka allt bláa kennaratyggjóið af strúktúrblöðunum mínum – sem hanga upp á vegg svo ég geti horft á bókina úr fjarlægð – og skipta því út fyrir gult kennaratyggjó. Ég er meira að segja búinn að kaupa gult kennaratyggjó. Mér er sagt að það haldi betur. Glósurnar mínar eru nefnilega alltaf skakkar og stundum losna þær og detta á gólfið. Ekki eru þetta nú þungir miðar samt. Svo þarf ég að kaupa svartan tóner í prentarann minn – hef aldrei gert það áður – en það reið fjárhagnum næstum að fullu að kaupa þetta gula lúxus kennaratyggjó svo ég veit ekki. Kannski get ég bara prentað í gulu og bláu fram á vor.


ps. Ef maður vill fá tilkynningar um fleiri álíka færslur – og geta þannig fylgst með því hvernig kennaratyggjó- og tónerævintýrum mínum vindur fram – er eyðublað hér fyrir neðan.


natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page