top of page

Dánarrannsóknir og morðtilraunir

– vaðið á ljóðum á skítugum skónum

Úr 3. tbl TMM, 65. árgangi, 2004

Ég drep í sígarettunni hálfreyktri (glóðin datt af) og kveiki mér í nýrri. „I might leave in a bodybag, but never in cuffs” rappar einhver svertingi í eyrun á mér, og ég reyni að muna hvenær skáld var síðast kært fyrir ljóð. Mér sýnast ljóðskáldin svo lútersk í sálum sínum að láti þau út úr sér þó ekki sé nema eitt dónalegt orð, stingi þau skottinu undireins milli lappa sér og hörfi inn í órætt myrkur ljóðrænuleysis, með silkiklút um hálsinn, faðma rauðvínsglösin og brosa feimin þegar gagnrýnendur klípa þau krúttlega í kinnarnar. „Oo, hvað þú ert dónalegur…”

Kannast einhver við þessa mynd? Eða þá hina, þá klifun, þá síbylgju, að ljóðið eigi að vera „skorinorð hugsun”, ljóðið sé til sjálfs sín vegna… hið smáa hvísl í rokinu, í besta falli þungt og höfugt eins og rauðvínið í skuggunum, en umfram allt „ratar ljóðið til sinna” – það er að segja: ljóðið sem er ekki allra. Því það er „sinna”. Þjónar ákveðnum herrum. Ljóð er andstaðan við popp. Ljóð eru ekki léttvæg, og þeim á maður ekki að taka með hálfkæringi, heldur mara hálfur á kafi í einni ljóðabók um aldir alda.

Menningarpostuli á næsta borði hagræðir klútnum og segist vera lengur að lesa eitt ljóð eftir Sigfús Daðason, en að rumpa sér í gegnum ritsafn Dostojevskís, og mér verður hugsað til góðs vinar míns sem hefur eytt mörgum árum í að lesa Dostojevskí ofan í kjölinn. Ég á ekki von á honum upp úr því hafi í bráð.

Mér finnast ljóð vera popp. Mig langar í ljóð með rafmagnsgítar. Og tunguna út í loftið. Ljóð með krúttkynslóðar-lopahúfu og iMac.

Ég les í blaðinu um barkaþræðingu ljóðsins, Kristján B. Jónasson yrkir í TMM (gamla): „Klassísk ritklif þeirra [sem ræða ljóð]felast í umsnúningi neikvæðra formerkja: „líkið andar”, „ljóðið er ekki á heljarþröm”, „andlátsfréttirnar eru ýktar”, „þrátt fyrir að ljóðið eigi að vera við dauðans dyr” er það „sprækt og frískt”.”

Ég fæ það á tilfinninguna að Ljóðið sé í öndunarvélinni af því ljóðskáldin eru gegnsýkt af vemmilegheitum, ljóðandi út úr sér lífinu eins og lífið lifi í eyðunum, skera burt orð úr setningum þar til setningarnar sjálfar verða að daufum skugga sín sjálfra – ljóðið vart nema kviðlingurinn af sjálfu sér orti góður maður – og mig grunar að líf þessara skálda séu síður en svo sá dans og mikilfengleiki sem líf geta verið, að eyðurnar í skáldskapnum séu til komnar af eyðilegum lífum skáldanna, eyðilegum hugum þeirra.

Ég stend á fætur, borga kaffibollann, pakka saman lappanum og valhoppa af stað í gegnum bæinn beinustu leið upp á heilsugæslustöð. Með beyg í hjarta. Nei, með ótta í hjarta. Líkt og röðulsetrið brennur ekki á mér.

Á heilsugæslustöðinni er mér vísað á gjörgæsludeildina af vinalegum hjúkrunarfræðingi. Ég lít inn í stofuna gegnum rúðu á veggnum. Ljóðið er fölt, einhver hefur breitt yfir það fána lýðveldisins upp að haus og bundið það fast við stuðul og staf. Læknirinn, sem skyndilega stendur við hliðina á mér, segir í hálfum hljóðum: „Ég veit ekki hvort við getum gert nokkuð fleira. Við höfum haldið hvert ljóðakvöldið á fætur öðru, tæmt alla sjóði og keypt hverja skruddu sem hefur verið gefin út síðustu hundrað árin. Við höfum meira að segja reynt að horfa undan, til að sjá hvort það væri að þykjast. En allt kom fyrir ekki, ljóðið er vart með lífsmarki. Hefur ekki sagt neitt markvert í árafjöld, stumrar upp úr sér Tímanum og vatninu á góðum degi – stundum held ég það sé hreinlega ekki með réttu ráði – auk þess er höfuð þess þyngra en svo að herdeildir sjúkraliða fái lyft. Það ku nefnilega hellt fullt af myrkri.”

Ég dæsi. Kristján hafði kannski rétt fyrir sér? Er þetta formerkjavandamál? Maður blæs varla lífi í dauðar glæður, þegar hægt er að snúa sér að næsta bálkesti. Kveikja nýja elda.

„Má ég líta inn?” spyr ég og læknirinn opnar hurðina fyrir mér.

„Já. En hafðu hægt um þig, ljóðið er þreytt, og þrátt fyrir verkjalyfjasúpuna á það hægt um tjáningu.” Ég lofa og sver í bak og fyrir (Guð og Föðurlandið!), skýst eins og eldibrandur inn fyrir hurðina og skelli í lás á eftir mér.

Læknirinn gapir framan í mig í gegnum rúðuna, furðu lostinn. Ég brosi, hneigi mig, og vind mér svo að sjúkrarúminu. Á hálfrar mínútu fresti heyrist píp í hjartalínuritinu, Ljóðið er með augun aftur, og slöngu upp í munninum. Ég losa hana varlega upp úr kokinu og hvísla að því einhverjar illa ígrundaðar ásakanir. Gerist dónalegur í orðavali, jafnvel svo að mér blöskrar. Svo tala ég hærra. En Ljóðið bærir ekki á sér. Ég fleygi slöngunni á rúmið og læt mig detta niður í leðurstól við hliðina á sjúkrarúminu, sveittur með andlitið í greipum mér. Djöfull. Andskotans djöfull. Ég tek upp fartölvuna, og tengist netinu í gegnum símainntak við hliðina á sjúkrarúminu.

Ég skrifa stuttan tölvupóst, og stíla hann á Skáldið. Ég veit ekki hvort Ljóðinu er eðlilegt að vera svona viðkvæmt, svona veikt fyrir vírusum og innrásum og árásum, en ákveð að taka neikvæða pólinn í hæðina, til að komast að því hvort Skáldið sé tilbúið að leggjast í skotgrafirnar fyrir Ljóðið. Hvers vegna er íslensk ljóðlist svona léleg? Hvers vegna lestu ljóð, hvers vegna les nokkur ljóð?

Ljóðið í rúminu rumskar, hóstar stuðlum og höfuðstöfum, sem flækjast kyrfilega um hálsinn á því, og mér sýnast þeir vera eftir Kristján Þórð eða Hallgrím Helga. Eitthvað hversdagslegt í upphöfnu formi. Eins og póstmóderníski brandarinn um sjálft sig. Að öðru leyti heyrist ekkert.

Sigmundur Ernir hélt því fram í einhverju viðtali, að það væri óþarfa misskilningur að skáld þyrftu að vera fyllibyttur, sagðist sjálfur yrkja betur edrú. Nú ætla ég ekki að fara að halda því fram að skáldum sé hollt að drekka, enda er það misskilningur og skarplega athugað hjá Sigmundi að menn yrki betur edrú. En það er falinn í þessum orðum einhver meinleysisboðskapur. Einhver smáborgaraleg kredda. Ljóðskáld ýfir ekki fjaðrir. Ljóðskáld berst ekki í bökkum (eða bokkum). Ljóðskáld yrkir bara. En það er ekkert bara. Skortur á viðfangsefnum er að eyðileggja ljóðið. Óræðar myndir ríða húsum, án þess að merkja eitt né neitt. Njörður P. Njarðvík vann ljóðstaf Jóns úr Vör fyrir ljóð um að strjúka einhverri konu og „hlusta með hendinni”.

Höfuð þess ljóðs var einhvern veginn hvorki þungt, né léttleikandi, það var varla kviðlingurinn af sjálfu sér. A poem should not mean but be. Og vissulega má færa fyrir því rök að þetta sigurljóð hafi ekki þýtt neitt. En vera þess rétt náði þreytulegum geispa. Ljóðið var ekki spennandi á neinn máta, það hafði ekkert að segja neinum, það hafði ekki til að bera neina sérstaka formfegurð (nema íhaldssemi og uppkokkun úr löngu ortum ljóðum geti talist formfegurð), í því var engin tilraun til að leika sér með tungumálið (sem er helsti kostur ljóða: formið býður uppá nánast hvað sem er – ljóð ætti aldrei að þurfa að verða eftirlíking af sjálfu sér, eða uppiskroppa með stílbrögð). Í sem stystu máli: Fugl, fiskur? Hvorki né!

En Njörður er varla vandamálið. Vond skáld geta ekki verið vandamálið, nema öll skáldin séu vond. Og því fer fjarri, það er allt morandi í ágætis skáldum. Og meðal þessara ágætis skálda eru jafnvel nokkur mjög góð, á stangli má finna frábær ljóð. Og ég ætla ekki að lasta neinn fyrir að vera lélegt skáld, það er ekkert að því að reyna og mistakast. En ef öll ljóðin sem bárust voru verri en þau sem unnu, þá hefði átt að sleppa verðlaunagjöf.

Ég stend á fætur og geng að sjúkrarúminu. Ljóðið er löðursveitt, á síðasta snúningi. Ég strýk því um ennið og hugsa um Sigfús Daðason. Allt þetta höfuð. Segir alltaf færri og færri orð… ég skelli óvart upp úr. Og roðna svo af skömm. „Þú ert indælis Ljóð,” hvísla ég varlega. „Manstu Sigfús? Eða Dag? Þekkirðu Kristínu Eiríks? Hún er góð stelpa, er það ekki?”

Ljóðið svarar engu. Ég brosi og andvarpa. Það er ljúft, þrátt fyrir allt.

Ég man þegar ég sá ég ástralska ljóðskáldið John Tranter á bókmenntaráðstefnu í Berlín. Hann er stuttur í loftinu, miðaldra og gráhærður með há kollvik í vestispeysu og skyrtu (minnir helst á fjárbónda einhvernveginn, ég held honum færi vel að keyra traktor og klappa þessum krúttlegu ám sem þeir eiga hans megin í heiminum), með gamansemi í svipnum, og maður fær það á tilfinninguna að hann sé að gera grín að manni þegar hann segist ljóðskáld. Hann er í hreinni andstöðu við ímynd ljóðskáldsins, ekkert sérlega gáfulegur í framan, ekki tekinn af drykkju, hvorki vemmilegur né brenndur og harður. Hann er bara „svona kall”. Hann fitlaði við fingurna á sér og brosti út í annað, þegar hann var spurður hvað honum fyndist um að ljóðskáld stunduðu pólitík í verkum sínum: „Only a fool would trust a poet.” Og mér varð ljóst að þessi óskáldlegi maður var mesta skáld sem ég hafði séð um ævina. Hann var skáld í hverjum þræði. Og nota bene, þá er hann afskaplega pólitískur í verkum sínum.

Ljóðið opnar augun stutta stund, lítur á mig og mér finnst skyndilega eins og mér standi hætta af því. Samt er það ekki líklegt til stórvirkja. Bara ský í buxum, lítið og brothætt. Leysist sundur og lokar augunum.

Milan Kundera heldur því fram í skrifum sínum um skáldsöguna (með stóra s-inu) að skáldsagan deyi ekki þannig að fólk hætti að skrifa sögur, heldur þegar hún byrjar að endurtaka sjálfa sig. Þegar fólk er hætt að eiga í samræðu hvort við annað. Skáldsagan orðin að klisjunni um sjálfa sig (er nokkuð eins klisjukennt í bókmenntaumræðunni og að vísa til Kundera?) Ég held því ekki fram að íslensk ljóðskáld kunni ekki að tala saman, en af einhverjum orsökum fer lítið fyrir þessari samræðu þeirra. Hún er í versta falli stillt og snotur, og í besta falli exklúsíf, skilur út undan, sem er eins og við vitum versta tegund eineltis. Auðvitað er þetta ekki einhlítt, víða eru menn sem berja sér á brjóst áður en þeir hefja upp raust sína, sem hvísla ekki bara í samræðum heldur æpa stundum yfir hæðirnar. En stjórnin, hið ráðandi afl ljóðlistarinnar, er ekki hrifin af látum. Stjórnin lækkar rostann í Hallgrími Helga, Stefáni Mána, Eyvindi Pétri og Steinari Braga, yndislegum róttæklingum af öllum tegundum og segir „sussubía, krakkar, ekki þessi læti…” og þeir sitja eftir sárir á hálfum launum. „Hey krakkar, ég er með hugmynd, af hverju skrifið þið ekki eins og Sigurbjörg, eða Sigtryggur…”

Pent og fínt. Sneitt og skorið. Og kurteist.

Vandvirkni á ekki að vera eyðileggjandi afl, eins og svo oft verður raunin. Vandvirkni snýst ekki bara um að skera niður, fækka orðum og ritskoða burt skoðanir, heldur og að bæta við, þykkja, stækka, skýra, breiða út hugmyndirnar útvíkkaðar og endalausar. Ég veit ekki hvort íslensk skáld eru svona miklar smásálir, en það geislar ekki beinlínis af ljóðum þeirra. Innhverf og einhverf, lokuð og feimin við að láta í sér heyra („sound of like you’ve got a pair” hrópaði liðþjálfinn í Full Metal Jacket, og allt í einu var hvergi skáld að finna: „I bet you could suck a golfball through a gardenhose.”). Skáld gegn stríði hvísla í mótstöðunni, merkilegt nokk. Skáld eiga ekki að vera friðarsinnar, þó þau séu á móti stríðum, skáld eiga að vera byltingasinnar (og nei, þetta er ekki stafsetningarvilla: krefst byltinga í fleirtölu). Gandhi var ekki friðarsinni, þó hann væri mótfallinn ofbeldi. Gandhi háði glæsilegustu orrustu nútímans.

Ef maður á ekki erindi upp á dekk, ef maður ætlar ekki að taka til hendinni, þá á maður að halda sig til kojs. Halda sig til skúffs. Þegar við hrópum „RÆS!!!” viljum við engar mannleysur um borð. Enga geispa uppi á dekki, þakka þér fyrir. Engin andvörp.

Annars verður einhver settur frá borði í næstu höfn.

Skyndilega pípir tölvan. Ég sest niður, set hana í fangið á mér og hristi af mér skjávarann. Ljóðskáldið er komið á msn messenger, spjallforrit lífsins. Í boði Microsoft. Ljóðið á sjúkrarúminu hóstar og kveinar. Skáldið er ekki bara annar, heldur og margur. Allir er ljóðskáld/lesandi.

Hvaða læti! Hvaða læti! Hvaða píp! Útskýrðu mál þitt!

Ég hrekk upp. Þarf maður að standa við orðin tóm? Útskýra mál mitt?

„Uhh. Hérna… ég er ekkert að trufla, er það?”

Nei, í margblessuðum bænum, ég er í hálfri vinnu við að hangsa á kaffihúsum. En vildirðu samt gjöra svo vel að koma þér að efninu.

Skorinorðar hugsanir, skorinorðar spurningar!

„Hvað varð þess valdandi að þú fékkst áhuga á ljóðum?” Mér líður eins og ég sé Gísli Marteinn að taka viðtal við einhvern sem ég hef aldrei hitt. Í skemmtiþætti, þetta sé það sem heitir í Washington, „human interest story”.

Ég var alltaf hæst í bekknum.[1]

Það var auðveldara en að byrja að reykja.[2]

„Gott og vel. Þú varst hæst í bekknum. Hvað gæti verið meira viðeigandi? Ekki geta skáldin farið að falla? Var ekki sömu sögu að segja um Rimbaud? Alltaf hæstur í bekknum! Reyndar held ég hann hafi lært að reykja og ríma um svipað leyti. Orti jafnvel í reykbólstrum. Á fullum báti (í franskri rauðvínsmerkingu, frekar en drekkhlaðinni íslenskri merkingu). En hvers vegna er íslensk ljóðlist svona léleg?”

Leiðandi viðhorf eins og koma fram í spurningum þínum gagnast engum, sérstaklega ekki þér ef þú vilt í raun og veru fá álit þeirra sem þú spyrð. Þú býður mér ekki að segja álit mitt á ljóðinu, heldur aðeins að verja hvers vegna það er svona lélegt.[3]

Ég áttaði mig skyndilega á að ég þurfti að breyta um taktík. Gerast aðgangsharður, vera Morley Safer frekar en Barbara Walters. Egill Helgason frekar en Gísli Marteinn.

„Nei heyrðu mig nú, þú getur tekið afstöðu til spurningarinnar, eða formerkjanna, eftir því sem þér sýnist, en ekki víkja þér undan. Ekki dæma sjálfa(n) þig úr leik með undanbrögðum. Myndi ég fara inn í brennandi hús með þér? Inn í krakkbæli með Ljóðskáld mér til varnar? En svona í alvöru, okkar á milli, mano a poeta, off the record, í fyllstu einlægni, on the q.t and very hush hush, af hverju er íslensk ljóðlist svona léleg?”

Af þrúgandi hefð og hræðslu við dóma fyrst og fremst. Af hræðslu við að sýna inn í sig, hreyfa sig öðruvísi og láta ljós skína inn í sig og gegnum sig. Af leti við að lesa erlend ljóð og setja í skynvinnsluvélina. Af þreytu og leiða.[4]

„Hefur eitthvað gengið á, sem ég veitti ekki athygli? Hvers vegna er ljóðið þreytt?”

Af því að rembingsháttur og kaldhæðnisleg hótfyndni er það sem ræður för. Þegar hjartað er fjarlægt og ekkert er að segja þá hefur ljóðið lítinn tilgang annan en að vera skrautmunur. [5]

„Rembingsháttur og þrúgandi hefð? Hreyfir sig ekki öðruvísi, og skreytir sig fjöðrum? Jahérna hér, og þetta úr innsta hring, frá Ljóðskáldinu sjálfu! Hér sit ég í makindum á gjörgæslunni, með dauðvona Ljóð í sjúkrarúmi; ég hef fjarlægt barkann úr hálsi þess. Á ég að koma honum aftur fyrir, eða leyfa ljóðgarminum að drepast?”

Ljóðið í öndunarvélinni er ekki the poem it used to be … og hvort það lifir eða deyr er nokkuð afleiðingalaust nema fyrir stétt afburðavælukjóa sem yrði atvinnulaus og myndi alla angra. Þetta læt ég trúlega ekki hafa eftir mér á prenti.[6]

„Og sei sei. Þú þorir víst ekki að hreyfa þig öðruvísi… frekar en aðrir… þorir ekki að láta hafa eftir þér skoðanir þínar á prenti. Í innsta hring er Ljóðskáldið vísast bara afburðavælukjói, skáldið ekki nema skrautfjaðrirnar á baki sjálfu sér, eða hvað? Ertu ekki í mótsögn við sjálft þig? Yrkir en trúir ekki á ljóð?”

Herdeildir plebba pikka upp plebbafrasann – hafður er eftir dálkahöfundi, Kolbrúnu Bergþórsdóttir, til dæmis, í plebbapirringskasti – „X er ekki bara óskiljanlegur, hann er í mótsögnvið sjálfan sig,” sem er slæmt og gott og vel, og þetta festist, viðkomandi verður einskis-konar og settur hjá garði íslenskra bókmennta sem eiga jú umframallt að „segja góða sögu og hafa húmor” og Frakkar geta ort þögnina en við Íslendingar, eins og þeir segja þorskamenn fyrir vestan, við tölum nú bara íslensku hérna, skilurðu, öll í sama bátnum o.s.frv.![7]

„Öll í sama bátnum! Og þú dirfist að rugga. Í guðanna bænum, blessaður, kallarðu þetta skrautfjaðrir? Þetta er bara dónaskapur! Þú ert ekki einn í bátnum, væni. Og list þín kannski bara hjákátleg, eftir alltsaman, að loknu uppklappi og frumsýningarpartíi?”

Öll list er almennt léleg og leiðinleg í öllum greinum. Mestöll tónlist er drasl, mestöll myndlist er drasl og mestöll ljóðlist er drasl.[8]

„Og er þá ekkert gott að finna? Hvergi mýrarljós í sjónmáli? Erum við bara að misþyrma líki? Enn eitt Neskaupstaðarmálið… Ljóðið er kannski bara löngu dautt, og þessi hér á rúminu sekur um að þykjast vera ljóð. „Impersonating á poem”, eins og þeir segja í Texas. Hvað með allt sem ort hefur verið? “

Flest athyglisverðustu verk síðustu 25 ára hafa verið prósaverk, með undantekningum þó. Síðasta raunverulega grundvallarstórvirki íslenskrar ljóðsögu, Ljúgðu Gosi, ljúgðueftir Steinar Braga fór til dæmis fullkomlega fyrir ofan garð og neðan hjá öllu bókmenntaapparatinu. Ástæðan er einföld. Lesendurnir eru svo lélegir. Kreppa ljóðlistarinnar er að lesendahópurinn hefur engan sjálfstæðan smekk, heldur apar upp ljóð sem líkjast þeim ljóðum sem þeir muna eftir að var teflt fram af kennurum þeirra í menntaskóla og háskóla: þ.e. hið innhverfa, hnitmiðaða, myndvísa ljóð. Þessi kreppa lestursins er alls staðar fyrir hendi, nema kannski helst í þeim löndum þar sem söngurinn er enn þá raunverulegt element í þjóðlífinu.[9]

„Ertu að gera at í mér? Bera lesendur ábyrgðina? Og skáldið sleppur? Skáldið gott en lesandinn ekki læs… skrifar skáldið þá ekki ólæsilegan texta? Er notendaviðmót ljóðsins ekki bara ónothæft? Eitthvað sem ómögulegt er að vinna á, nema maður leggi á sig að mennta sig í ljóðlist? Og hvað þá með plebbann? Á hann að skilja hvað þú ert að tala um? Er hægt að afplebba plebba sem fær ekki að vera með í samræðunni?”

Verk sem er skilið um leið og það kemur út fyrir jól er dautt eftir jól.

Og verk sem er skilið af höfundinum er dautt.

Og verk sem er skilið af lesandanum er dautt.

Og sannleikurinn verður ekki skilinn.

Og allt sem er skilið er dautt.[10]

Skaldid appears to be offline.

Það fór. Skáldið aftengdist. Lokaorðið var ‘dautt’. Og mér fannst það einhvern veginn táknrænt. Skáldið hafði af mér síðasta orðið, af eintómri frekju, og valdi til þess þetta orð: dautt – til að ljúka samræðunni. Við hlið mér fjarar lífið úr Ljóðinu, óskiljanlega, og ég velti því fyrir mér hvort lífið felist í því að deyja á órannsakanlega vegu. Líf einstaklings er aldrei nokkurn tímann jafn áþreifanlegt og rétt í þá mund sem hann er að hrökkva upp af. Aldrei er því veitt jafn mikil eftirtekt og einmitt í andarslitrunum.

Langar í mig í föðurmorð? Jafnvel mjög vanhugsað föðurmorð? Að sópa hefðinni undir teppið, og fara að leika mér eins og fullorðinn maður, frekar en barn sem enn býr í foreldrahúsum?

Fyrir utan gluggann stendur læknirinn og horfir á mig bænaraugum, hvort ég vilji ekki taka úr lás. Stundum finnst mér þessi mannúð standa okkur fyrir þrifum. Þessi ljóðúð, þessi eilífi velvilji við lélegan kveðskap. Að bókadómar hljómi upp á að Eyjólfur hressist vonandi, eða að skáldið eigi eftir nokkurn þroska… eða hvað það er. Ég vil frekar vera kallaður skuggaboxari[11], en ungskáld. Að vera ungskáld er að vera ekki tekinn alvarlega. Að vera hálfskáld. Táningur. Ekki fyllilega með. Að vera kallaður skuggaboxari er að minnsta kosti fyllilega eitthvað. Tilraun manns er tekið af heilum hug, og þá fordæmd eða prísuð eftir því hversu vel hún kemst til skila. En ég óska engum þess að vera kallaður ungskáld. Og ég nenni ekki að eyða tíma mínum í að vorkenna deyjandi ljóðum.

Og gleymum ekki, hér á dánarbeðinu, öllu lífinu. Öllu þessu ótrúlega iðandi ljóðlífi. Sumarið 2003 fékk ég að ferðast um landið með hópi af mögnuðum skáldum, og lesa upp fyrir alls konar fólk. Sumsstaðar var meira að segja mjög mikið af alls konar fólki að hlusta, og sumsstaðar hlustaði það í margar klukkustundir. Góðum línum var ekki fagnað með golf-klappi, heldur gólfstappi og húrra-hrópum. Ljóðið var allt í einu alveg feykilega skemmtilegt, og þetta hóstandi lík hérna við hliðina á mér var hvergi nærri. Lá fyrir dauðanum þá sem nú. Fólk hlustaði ekki með höndunum, heldur eyrunum, hló ekki bara að bröndurum í ljóðum heldur af skínandi gleðinni. Átakagleðinni. Samt var ekki að sjá að þetta væru „einfaldari” ljóð, né heldur voru þau bundin eða óheyrilega mystísk, og þetta voru ekki brandaraljóð. Heldur þung höfuð eins og beljur að vori. Skoppandi höfuð upp um allar hlíðar og meðfram öllum lækjum. Allt í einu voru skáldin ekki gamlir karlar, menntaskólakennarar menntaskólakennaranna minna, heldur ungt fólk með krúttkynslóðar-lopahúfur og rafmagnsgítara. Leðurjakka og iMac. Án þess að aldurinn þurfi að skipta máli. Þetta er nefnilega hægt. Vonleysi dánarbeðsins getur verið víðs fjarri. En til að halda því fjarri þurfa ljóðin líka að vera góð og skáldin óhrædd við að yrkja. Og það eru vissulega ekki allir sem yrkja óhræddir. Það er jafnvel minnihluti.

Jóhann Hjálmarsson orti fyrir ekki alltof löngu: „Kannski er best að leyfa því [ljóðinu] að sofa, að minnsta kosti sumum ljóðum. Hvaða skáld kannast ekki við þessa baráttu, vafann sem svo erfitt er að sigra? Án hennar yrðu ekki til ljóð, aðeins orð á haugi málsins. Það er kannski erfitt að skera úr þessu, einkum nú þegar skáld virðast svo oft rekin áfram af heimtufrekju orðanna.”

Einhvernveginn hef ég það á tilfinningunni að „heimtufrekja orðanna”, njóti alls ekki sannmælis. Að það sé sjálf sköpunargáfan, sköpunargleðin, sem Jóhann vill setja í hlekki. En það er misskilningur að öll góð ljóð séu ort af vandvirkni, ekki get ég ímyndað mér vandvirkan Rimbaud, eða Tristan Tzara, vandvirkan Allen Ginsberg eða Jack Kerouac. Að minnsta kosti ekki þesslags vandvirkni sem heldur aftur af „heimtufrekju orðanna”.

Wise men say, only fools rush in…

Orðin berast til mín úr útvarpinu frammi á gangi. Elvis Presley syngur, og ég veit þetta er rétt. Það eru bara flón sem drífa sig. Flón sem stoppa ekki til að hugsa. Flón sem kjósa föðurmorð og heimtufrekju orðanna fram yfir skorinorða hugsun, færri og færri orð. But I can’t help… … falling in love with you…

Skyndilega er bankað. Ég lít upp og sé að læknirinn snýr baki í mig. Það er bankað aftur, en ég sé engan banka. „Psst, ég er hérna…” Ég lít við, Skáldið er hálft komið inn um gluggann sem snýr að götunni. „Mér fannst óverjandi að láta þig dúsa hérna, komdu, ég þekki sæta stelpu sem þú þarft endilega að hitta…” Það bjástrar við að troða sér innum alltof lítinn gluggann.

Ég geng framhjá sjúkrarúminu, og horfi á Ljóðið í síðasta skipti. Það er fölt og sveitt og blátt í framan og allt í einu finnst mér dauðinn eðlilegasti hlutur í heimi. Hringrás lífsins, eins og hjá Disney. Það kemur nýr Konungur Ljónanna á eftir þessum. Í S-Ameríku gildir sú þumalputtaregla að ef maður drepur forsætisráðherrann, þá verður maður sjálfur forsætisráðherra. Mér finnst þetta allt svo eðlilegt. Deyr fé, frændur, feður, og jafnvel orðstír og ljóð. Skáldið réttir mér höndina. Við horfum út á bílastæðið. Það eru fjórar hæðir niður á malbikið. „Geronimo?” spyr Skáldið. „Geronimo,” svara ég og sýp hveljur.

Um leið og ljóst er orðið að Ljóðið hefur endanlega gefið upp öndina, er sýnilega dautt, hérnamegin og þarnamegin, stökkvum við yrkjandi út um gluggann. Eins og beljur að vori.

Í fjarska heyrist sungið: Raindrops keep falling on my head…

 

[1]Ónefnt ljóðskáld


[2]Kristian Guttesen


[3]Davíð A. Stefánsson


[4]Þórunn Valdimarsdóttir


[5]Þorleifur Örn Arnarson


[6]Haukur Már Helgason


[7]Steinar Bragi


[8]Ófeigur Sigurðsson


[9]Kristján B. Jónasson


[10]Steinar Bragi


[11]Í dómi sínum um ljóðabók mína Heimsendapestir sagði Geirlaugur Magnússon að ég væri skuggaboxari. Ég var reyndar kominn á fremsta hlunn með að fara heim til hans og gefa honum einn eða fleiri á ‘ann, til að afsanna þessa kenningu hans. En svo stóðst hún náttúrulega. Næst þegar ég hitt Geirlaug ýlfraði ég eins og hvolpur og seldi honum nýju bókina mína. Að vera ljóðskáld er það sama og að vera skuggaboxari.

5 views0 comments

Recent Posts

See All

Fúsk

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page