Coca Cola, pírökur og plokkfiskur

Ég sé á Facebookinu mínu að í sumum Evrópulöndum er ég orðinn 41 árs. Ég er byrjaður að fá kveðjur. Í San Pedro Sula á ég enn sjö tíma eftir sem fertugur maður. Raunar eru ekki nema kannski þrír mánuðir frá því ég hélt upp á fertugsafmælið – með Nödju, sem var líka að fagna 41 árs afmælinu sínu. Það var mjög skemmtilegt kvöld – ég varð ofsalega fullur og gerði ósköpin öll af kokteilum og hló hátt og greip fram í fyrir fólki einsog ég væri ekki í grunninn fyrst og fremst haugur af alls konar félagslegum komplexum (einsog svo margir).

Hvað um það. Í gær fórum við Nadja í fjallgöngu upp að helsta kennileiti borgarinnar, Coca Cola skiltinu.


Þessi mynd er af internetinu. Maður sér skiltið ekkert mjög vel þarna uppi – bara svona hornin á því. Fjallið heitir El Merendón og upphaflega var víst sett upp skilti þarna fyrir Muebles Capri húsgagnamerkið. Árið 1984. Því var ekkert haldið við og þegar það var fjarlægt fannst fólki eitthvað vanta – skiltið laðaði fólk að. La Cerveceria Hondureña – Vífilfell þeirra Hondúrasmanna – kom til bjargar og reisti þetta skilti, sem raunar er ljósaskilti, neon í rauðu og hvítu, þótt það sé sjaldan kveikt á því lengur. Skiltið er 10 metra hátt og 79 metra breitt og pælingin var að þetta yrði stærsta kókskiltið í gervallri mið-ameríku – ég veit ekki hvort það er það eða var það en það var allavega ætlunin.

Skemmst er frá því að segja að við vorum hvorki rænd né drepin á göngunni þarna upp heldur mættum við mikið af vinalegu fólki og buðum þeim góðan daginn – „buenas“, sögðum við, og þau sögðu „buenas“ til baka og það var afskaplega ánægjulegt. Bara einsog maður væri umkringdur fólki sem hefði engan hug á að ræna mann eða drepa. Meðfram stígnum – þetta er um þriggja kílómetra ganga – voru lítil tréskilti með ritningarorðum úr biblíunni. Fólkið sem við mættum var alls konar – nokkuð um yngri pör, íþróttamenn sem hlupu upp og það sem kom mest á óvart, feitir miðaldra karlar (50-60 ára, ekki fertug unglömb, vel að merkja) sem hjóluðu. Svona týpur sem maður sæi aldrei sporta á norðurlöndunum. Ekki nógu feitir til að vera í líkamsrækt að læknisráði en of feitir til að láta sig enn dreyma um sixpakk. Sumir tóku því rólega en aðrir voru greinilega bara í hörkusporti. Við tókum líka fram úr einum og mættum honum aftur á leiðinni niður sem var í ofsalegri yfirvigt – djöfull sem mér fannst hann harður. Þá mættum við hundum og geitum, sem var líka gaman. Á nokkrum stöðum var hægt að kaupa svaladrykki, kókoshnetur og ávexti. Gatorade virtist sérstaklega vinsælt.

Þegar við komum að svæðinu þar sem göngustígurinn byrjar keyrðum við framhjá mörgum húsum sem ég held að hljóti að tilheyra glæpamönnum eða stjórnmálamönnum eða öðrum sem þurfa að hafa talsverðar áhyggjur af lífi sínu, af því glæsihýsin við götuna þar sem við lögðum voru flest með risastóra veggi í kringum sig og gaddavír, sem er í sjálfu sér ekki óvenjulegt, en að auki voru byssuhreiður á hornunum. Ég gleymdi auðvitað að taka mynd af þessu en þetta er svolítið svakalegt að sjá – húsin voru ekki bara útbúin til að halda þjófum úti heldur beinlínis til að mæta innrás. Þetta ku ríkasta svæði borgarinnar en eftir göngustígnum voru líka nokkrar flottar villur – en líka bárujárnskumbaldar.

Annars var bílastæðavörður líka – gömul kona sem talaði mikið á spænsku og svaraði alltaf frekar furðulega því sem við spurðum. Þegar við reyndum t.d. að spyrja hvort þetta væri einstefna og við ættum að snúa við eða hvort við gætum keyrt niður hana og beygt fyrir hornið sagði hún bara að við ættum að „fara heim núna“.

Við göngustíginn var svo hlið og þar var líka vörður. Tvær löggur á sama mótorhjólinu virtust síðan bara rúnta upp og niður stíginn – sá sem sat aftan heilsaði mér alltaf, veifaði. Nadja sagði að það væri augljóst að hann væri að heilsa mér og ekki henni. Mín kenning er sú að hann hafi lesið Illsku sem kom út á spænsku í fyrra. Ég sé ekki að þetta geti stafað af neinu öðru. Annar maður heilsaði mér líka sérstaklega, hálftannlaus bóndatýpa með stráhatt – fyrsti maðurinn sem við mættum á göngustígnum. Hann sagði „What\’s up, hermano!“ og var mjög hress. Það er ekki mikið af tveggja metra háum mönnum hérna og enginn þeirra sem ég hef hitt gengur með kúluhatt.

 Þegar við vorum komin upp dáðumst við að útsýninu og hlustuðum á partílætin úr bænum – það var einhvers konar karnival í gangi, sem við vissum ekkert um – og keyptum okkur hvort sinn melónubitann. Eða Nadja keypti melónubita fyrir okkur bæði – ég keypti engan melónubita, en fékk samt. Ég var mjög sveittur.


Á leiðinni til baka komum við við í búðinni og keyptum í matinn – til að gera karelskar pírökur og plokkfisk. Það er frekar dýrt að versla í matinn hérna, merkilegt nokk – margt er ódýrara en svona random innkaupakarfa fer auðveldlega upp í 20 þúsund kall. Við fórum í 15 í þessari ferð. Sennilega munar mest um eitthvað svona dót sem er sjaldgæft hérna – seríóspakkinn var dýr, líka quorn-gervikjötið og sápa sem var ekki 99% lyktarefni var dýr. Mjólk var ekki dýr og ekki heldur hvítur fiskur – vel að merkja. Fengum frosinn vartara, sennilega hátt í kíló, fyrir rétt rúmlega þúsundkall. Föt eru ódýr – mikið af fataverksmiðjum í landinu. Í dag gerði ég pírökurnar en á morgun verður eitthvað afmælis og ætli plokkfiskurinn verði þá ekki á þriðjudag.

Af bíóferðum okkar Arams er það að frétta að nýja Spiderman myndin verður frumsýnd fjórða júlí og hún kemur vonandi í staðinn fyrir Dark Phoenix plönin. Þá á undan sáum við einmitt með Hauki Má í sérstakri feðgaferð til Berlínar um árið. Það var góð ferð.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png