top of page

Bætt stjórnmál og stagbætt


Ég hef alltaf verið pólitískur. Ég náði því að fara í framboð fyrir bæði Alþýðubandalagið og sameiginlegt vinstrimannaframboð áður en ég varð tvítugur. Hékk svo með inn í Vinstri-Græn þegar það var stofnað – án þess þó að hafa nokkurn tíma verið virkur. Í menntaskóla stofnuðum við vinirnir Vinstrimannafélag sem stóð fyrir reglulegum málfundum, minningarathöfnum (um Che og MRTA), mótmælum, tók þátt í verkfallsvörslu fyrir verkalýðsfélagið Baldur, gaf út tímarit (sem ég ritstýrði) og hafði meira að segja sósíalíska pönkhljómsveit á sínum snærum. Ég var líka í Sósíalistafélaginu, Herstöðvaandstæðingum, hékk með Ungum sósíalistum og var áskrifandi að Militant, skrifaði í Testamentið og fór til Kúbu að tína appelsínur fyrir byltinguna.


Eftir menntaskóla missti ég eiginlega trúna á þennan samtakamátt – bæði í litlum félagasamtökum og stærri flokkum. Róttæklingarnir voru oft illa haldnir af rörsýn og heift. Ég fékk oft á tilfinninguna að þeir umgengjust í raun aldrei fólk sem þeir væru ekki hundrað prósent sammála og hefðu litla innsýn í líf annarra. Auðvitað var þetta ekki algilt en þannig viðhorf fengu að vaða uppi – t.d. man ég eftir manni sem fullyrti að lögreglumenn væru ævinlega réttdræpir vegna stéttareðlis síns. Ég spurði sérstaklega hvort þetta ætti líka við um umferðarlögreglumann á Suðureyri og fékk það svar að þetta væri ekki spurning um einstaklinga heldur eðli stéttarinnar – lögreglumenn verðu kapítalið og þeim þyrfti að útrýma. Sami maður hélt því líka fram að það væri ekkert vændi á Kúbu – bæði fyrir og eftir að ég horfði á hann hverfa upp í leigubíl með vændiskonu. (Maður komst ekki fimm metra í Habana eftir klukkan átta á kvöldin án þess að vera boðin kynlífsþjónusta).


Stóru flokkarnir voru síðan bara eitthvað grín. Ég skrifaði einhvern tíma grein fyrir sameiginlegt framboð og var beðinn um að breyta orðinu „alþýða“, sem kom 3-4 sinnum fyrir, í „fólk“ af því það væri engin alþýða til lengur. Ég benti ritstjóranum á að flokkarnir sem gæfu út blaðið hétu Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag – niðurstaðan úr því er auðvitað þekkt. Ári síðar voru báðir flokkar lagðir niður.


Það var samt ekki einsog ég hætti að vera sósíalisti. Ég hvarf á vit einhvers konar persónulegrar ábyrgðar – mér fannst sem mér bæri fyrst og fremst skylda til þess að skrifa, ég væri rithöfundur og ég ætti bæði að skrifa greinar um stjórnmál og vefa stjórnmálin inn í bókmenntir mínar. Mér fannst samt ekki, og finnst ekki, að í þessum bókmenntum ætti að vera mórall eða boðskapur heldur að bækurnar ættu að takast á við stjórnmálin með verkfærum skáldskaparins – með því að skapa óvenjulegar aðstæður, varpa ljósi á hið óséða, veita perspektíf og velta upp möguleikum. Með því að öskra á torgum og snúa öllu á haus. Ég get haft afstöðu, t.d. í greinarskrifum, en skáldskapurinn hefur ekki afstöðu. Hann er skáldskapurinn.


Hafandi sagt mig úr lögum við allan þennan félagsskap er ég auðvitað munaðarlaus – og áreiðanlega sérvitur og erfitt að gera mér til geðs pólitískt til lengdar. Síðast kaus ég Pírata. Magnús frændi minn – sem er vel að merkja lögfræðingur hluta þess fólks sem var sent úr landi í gær – var í framboði í mínu (risavaxna) kjördæmi og þótt Píratar séu sennilega talsvert hægrisinnaðri en ég þá fannst mér þetta samt liggja frekar beint við. Þarna væri færi á að ná inn manni sem hefði innsýn í ljótustu mál íslensks samtíma – málefni hælisleitenda. Manni sem ég þekkti og treysti. En ég er augljóslega ekki Pírati. Flokkurinn er bæði of teknókratískur og svag fyrir markaðslausnum fyrir mig.


Samleið minni með Vinstri-Grænum lauk fyrir löngu, ég sagði mig úr flokknum einmitt út af þessum andskotans hælisleitendamálum – gott ef það var ekki í eftirhrunsstjórninni, þessari sem átti að vera „fyrsta hreina vinstristjórnin“.


Vinstri-Græn og Samfylkingin skiptast nefnilega á að vera róttækir vinstrimenn þegar þau eru í stjórnarandstöðu en bakka svo harkalega alltaf þegar þau fara í stjórn – og þurfa ekki Sjálfstæðisflokkinn til einsog eftirhrunsstjórnin sýndi. Það er alveg hægt að tala sig fölan í framan um að sú stjórn hafi þurft að „taka til“ og „borga brúsann“ og það allt saman – en það hefði verið hægur leikur og ódýr að taka til í hælisleitendamálunum og það var ekki gert. Báðir flokkar hafa svo legið í það römmum sleik við Sjálfstæðisflokkinn, alltaf þegar færi gefst, að allt tal um að eiga enga samleið með honum er fullkomin sjálfsblekking.


Og vel á minnst – ef það er eitthvað sem ég hef ímugust á í stjórnmálaumræðu síðustu ára þá er það þegar Vinstri-Grænir setja ofan í við Samfylkinguna fyrir að „svíkja hin góða málstað“ – og öfugt. Því báðir þessir flokkar hafa margsýnt að þeim er ófært að framfylgja nokkurri eiginlegri vinstristefnu, sérstaklega þegar kemur að málefnum hinna verst settu. Það eina sem þessir flokkar hafa sér til málsbóta er að þeir eru ekki neinn hinna flokkanna.


Sósíalistaflokkurinn minnir mig síðan alltaf meira og meira á áðurnefndan kunningja minn með rörsýnina. Langar ræður um hvað aðrir, jafnvel fyrrverandi samstarfsmenn úr hópi róttæklinga, séu ógeðslegir og viðbjóðslegir og sjúkir sósíópatar – ofan í alls konar klækjavafninga og hjaðningavíg – þetta bara gerir ekkert fyrir mig sem ég gæti ekki fengið úr House of Cards (eða þið vitið, ef Spacey væri ekki úr leik). Þá var harðlínustefnan sem tekin var upp í Covid-málum – þar sem það var t.d. varið að senda fólk í nauðungarsóttkví og að loka landinu með öllu – frekar óhugnanleg. Ég held að róttækum sósíalistum (einsog sjálfum mér) sé fátt mikilvægara en að læra af sögunni og fara varlega í allt þetta tilgangurinn-helgar-meðalið dæmi. Það súrnar mjög hratt.


Og þá eru upptalin þau starfandi stjórnmálaöfl sem ég hef – eða mun – íhuga að kjósa.


Ég hef tvö grundvallarprinsipp í stjórnmálum, fyrir utan bara grundvallarlögmál lýðræðisins – að við ráðum þessu saman, ríkið megi ekki níðast á okkur og allir eigi að borga skatt. Hið fyrra er að stjórnmálin eigi að stuðla að meiri jöfnuði – helst þannig að við séum bara öll efnahagslega sirka á sama stað. Hið síðara er að fólk eigi að mega vinna og starfa (og kjósa og nema) sirka þar sem það vill. Ef þetta tvennt er í lagi treysti ég því að margt annað lagist af sjálfu sér.


Ég er ekki viss um að „þjóðin fylgi mér að máli“ í efnahagsmálunum – við erum voðalega ánægð með að halda í ójöfnuðinn, af því það dreymir svo marga um að verða ríkir og það er ekki hægt ef ríkidæminu er útrýmt. Þá sem langar ekki að vera Bjarni Ben langar bara að vera Haraldur Þorleifsson. Það er áreiðanlega líka hellings stuð að vera ríkur. Maður getur svo margt sem aðrir geta ekki. Og það er ekki nærri jafn gaman að geta eitthvað ef allir aðrir geta það líka.


En þótt fólk sé upp til hópa kannski ekki með mér í no-borders pælingunni er ég vonbetri um að fólk vilji í raun og veru afnema mannfjandsamlega stefnu ríkisins í útlendingamálum og hætta að senda fólk með lögregluvaldi úr landi, fólk sem hefur vel að merkja ekkert gert af sér annað en að vilja vera nágrannar okkar og samstarfsfólk. Auðvitað eru undantekningar – Jón Gunnarsson, augljóslega, og Margrét Friðriks, og fleiri – en ég held við viljum upp til hópa ekki að atburðir einsog þeir sem áttu sér stað í gærkvöldi gerist á okkar vakt. Ég trúi því einlæglega að ekki einu sinni Katrín Jakobsdóttir vilji það.


Og þá stendur eftir spurningin – fyrst stjórnmálaflokkunum er ófært að laga þetta áratugum saman, og það hefur margsýnt sig vera árangurslaust að skipta um stjórnmálaflokka – hvernig lögum við þetta þá? Með því að stofna enn einn stjórnmálaflokkinn? Kannski væri hægt að stofna einsmálsflokk – einsog Kvennalistann og Frjálslyndaflokkinn – sem hefði ekkert annað á sinni könnu en þetta? Og kannski væri það bara til að auka á ruglið.


Ég er ekki að skrifa þetta vegna þess að ég hafi neinar lausnir að stinga upp á. Ég veit ekkert og hef ekkert á borð að bera nema sístækkandi holu míns botnlausa vonleysis.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page