top of page

Brotnar niður í náttúrunni


Hvernig sem á því stendur njótum við þess að horfa á öðrum farnast illa. Eftir því sem fólk stendur okkur fjær þeim mun meira abstrakt verður harmurinn sem það gengur í gegnum – á endanum er þetta bara einsog að lesa spennandi ævintýri. Og best af öllu er ef þetta er líka fólk sem við höfum horft upp á rísa upp úr meðalmennskuhafinu sem við hin búum í. Íkarusarþórðargleði. Ekki er verra ef við getum talið okkur trú um að við höfum skapað þau en fall þeirra sé sjálfskaparvíti og helst að þau eigi ekki betra skilið (eða að lágmarki að staða þeirra sé forréttindi sem þau eigi ekki tilkall til – les: we made you, we can break you).


Þekktasta dæmið er auðvitað Britney Spears – engum fannst kannski hún eiga skilið að fara í margra ára (semi-)geðrof í beinni útsendingu en þegar það hófst var fólki líka bara alveg sama. Hún var bara einhver poppari, eitthvað óþolandi drasl í útvarpinu, hæfileikalaus forréttindadúkka smíðuð af sálarlausu bransafólki í æfingabúðum fyrir Disneykrakka. Af hverju mátti hún ekki brenna? Það var gaman að horfa á það. Við fengum öll að sjá á henni píkuna – og súpa hveljur eða fá reisn eftir atvikum.


Það er nautn í sensasjónalísku ruglinu. En þessi nautn er ekki einföld þórðargleði samt af því henni fylgir líka hneykslunarnautn. Nautnin af því að dæma aðra – því henni fylgir líka óorðuð yfirlýsing um eigin sjálfsmynd. Ég er kannski ekki fullkominn en ég er þó ekki svona.


Kanye - sekur!

Britney - sýknuð!


Fyrir 100 árum voru glæpirnir aðrir en tilfinningin sú sama. Hin dæmandi nautn eins. Í einhverjum skilningi er þetta bara þorsti okkar í dramatískar sögur ofan af Ólympustindi – og auðvitað er meira gaman þegar þær eru sannar. Eða virðast a.m.k. sannar – oftast fáum við bara mjög lítið og afmyndað brot af sannleikanum, sem búið er að sía í gegnum fimmtíu PR-skrifstofur og tvö hundruð æsifréttamiðla áður en við komum að borðinu með dómarahamarinn.


Og það skiptir víst engu máli upp á auglýsingatekjurnar hvort maður smellir til að verða miður sín, reiður, graður eða flissandi yfir kjánaskapnum.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page