Blúsbloggið: Árslisti, færsla 2 af 3

Jæja. Þá er komið að sætum 6-11 á árslista blúsbloggsins yfir bestu plötur ársins 2021. (Ég bætti við einu sæti til að ná inn öllum sem ég vildi hafa með – þetta má maður þegar maður er sinn eigin ritstjóri).


11. sæti: Steve Cropper – Fire it Up


Steve Cropper er gítarleikarinn og lagasmiðurinn á bakvið ótal tryllta ofsasmelli – frá Sittin' at the Dock of the Bay, Soul Man, Knock on Wood, Green Onions og In the Midnight Hour. Hann er áttræður og þetta er önnur sólóplatan hans og sú fyrsta í 53 ár. Hann er með frábært band sér við hlið, æðislega lúðrasveit og bærilegasta söngvara – sem stenst nú reyndar ekki samanburð við Otis Redding eða Wilson Pickett, en það gera nú sosum ekki margir heldur. Stíllinn er gamaldags og Cropper hefur engu gleymt og engu breytt. Besta lagið er instrumental-lag sem er skipt upp í tvo kafla sem hefja og ljúka plötunni – en birtist líka óskipt sem aukalag. Klassískt Cropper-grúv. Ég veit ekki hvort það er mikils að vænta af Croppernum úr þessu – hann fer nú sennilega bara að taka því rólega – en þetta er líka mjög virðulegt lokalag á glæsilegum ferli.

10. sæti: Robert Finley – Sharecropper's Son


Robert Finley virkar einsog hann ætti að vera eldri en Cropper en er nú samt nokkuð yngri – fæddur 1954. Hann hefur lengi verið að gutla í músík en aðallega heima hjá sér – var smiður lengst af en missti víst sjónina og fór upp úr því að einbeita sér meira að músíkinni. Hann hefur átt góðu að gengi að fagna frá því hann gaf út sína fyrstu plötu 2015 – komst svo fljótlega í samband við Dan Auerbach úr Black Keys og hafa þeir talsvert unnið saman síðustu ár. Auerbach pródúserar þessa plötu og það heyrist.

9. The Blues Album – Joanna Shaw Taylor


Blúsplatan heitir hún ekki vegna þess að JST hafi ekki verið að spila blús fram að þessu, heldur vegna þess að hér eru ekkert nema koverlög – kannski ekki þekktustu lögin en samt gegnheilir og þvottekta klassíkerar. Þetta er mikil gítarhetjuplata en Joanna er líka með fallega rödd ofan í gítarhæfileikana (sem er nú því miður ekki alltaf raunin). Lagið sem ég vel hérna af plötunni er gamalt lag með Bettye Lavette og verður nú sennilega aldrei gert betur. En fjári vel gert er þetta samt. Mér verður reyndar illt af að horfa á sólóið í myndbandinu (það hefur greinilega ekki verið til nein taka af Joönnu að spila það svo það er bara notað „eitthvað“). Joe Bonamassa – JoBo sjálfur – og Josh Smith pródúsera (einsog reyndar líka plötu hinnar Joönnunar, Joönnu Connor, sem var nefnd í síðustu færslu).

8. Delta Kream – The Black Keys


The Black Keys eru sjálfsagt langþekktasta sveitin á þessum lista. Þetta er önnur koverlagaplata, með áherslu á svokallaðan „hill country“ blús, ekki síst Junior Kimbrough. Titillagið er reyndar einn af stærstu smellum John Lee Hooker en útgáfan er líkari útgáfu Kimbroughs. Þarna eru svo lög eftir RL Burnside, Big Joe Turner og Mississippi Fred McDowell.

7. sæti: Heavy Load Blues með Gov't Mule


Gov't Mule er eins konar afsprengi hinnar frægu sveitar Allman bræðra. Þetta er ein af þessum sveitum sem er ekkert að flækja hlutina mikið fyrir sér – snýst um að finna sér grúv og setjast svo rækilega í það. Enn ein koverlagaplatan – meðal bestu laganna eru Snatch it back and hold it eftir Junior Wells, Ain't no love in the heart of the city sem Bobby Blue Bland gerði frægt og þetta hérna, Make It Rain eftir Tom Waits af Real Gone.

6. sæti: Nowhere Sounds Lovely – Cristina Vane


Cristina var líka á listanum í fyrra með plötuna Old Played New sem innihélt alls kyns deltablúskover. Hér er hún með sína fyrstu breiðskífu af frumsömdum lögum – það eru alls kyns þjóðlagaáhrif hérna, írskir og hillbilly straumar, og lög einsog Dreamboy eru (í þeim útsetningum sem birtast á plötunni) bara frekar grípandi poppslagarar.

Síðasti skammtur kemur svo á næsta fimmtudag.

5 views0 comments

Recent Posts

See All

Það er ekki nema mánuður frá því ég ákvað að skoða blúsárið og gera einhvers konar lista yfir bestu plötur ársins. Einsog allir hinir tónlistarbloggararnir. Það er ekki ósvipað að leita að góðum nýjum

Einlægur Önd_edited.png