Blús sem hávaði og læti

Hljóðstyrkur var lengi vel aðalatriði í sögu gítarsins, sem er auðvitað samofin sögu blússins, eða eiginlega alveg þangað til það var hægt að stilla svo hátt að það þurfti að setja lög um að nú mætti ekki lengur stilla svona hátt. Gítarinn náði vinsældum sem undirleiks- og sólóhljóðfæri vegna þess að hann var eiginlega eina hljóðfærið sem a) réði við hvorutveggja og b) var hægt að bera með sér. En parlor-stellurnar sem pantaðar voru upp úr Sears-vörulistanum – og settu gítarbyltinguna af stað sem svo markeraði alla tónlistarsögu 20. aldarinnar – voru litlar og ekkert sérlega hljómmiklar. Það var kannski ekki alltaf fjölmennt á öldurhúsunum í Mississippi en það var alveg í það mesta til þess að einn maður með gítar gæti haldið dansgólfinu á hreyfingu. Þess vegna var algert grunnskilyrði að söngvarar hefðu stórar og miklar raddir og þýddi ekkert að kalla sig söngvara annars – söngvarar æptu eiginlega alveg þangað til Frank Sinatra braut hefðina – og svo börðu þeir gítarana og slógu þá alveg einsog þeir þoldu.

Fyrsta lausnin á þessu gítarvandamáli er hin svonefndi resonator-gítar – oft kallaður dobró, sem var eitt af aðalvörumerkjunum. Resonator-gítarar eru með eina eða fleiri hljóðkeilur úr málmi undir strengjunum sem magna hljóðið umfram það sem venjulegur hljómbotn ræður við. Fyrsta fyrirtækið til þess að framleiða þessa gítara var National og það eru enn í dag flottustu resonator-gítararnir sem maður fær – þótt fyrirtækið hafi farið í marga snúninga síðan – en það er sami maður sem bjó þá til fyrir National sem nokkrum árum síðar stofnaði Dobro-fyrirtækið, John Dopyera, ásamt fjórum bræðrum sínum. Dobro stendur fyrir Dopyera Brothers – en er líka orðið „gott“ á slóvakísku móðurmáli þeirra bræðra. Þetta er ekki sponsuð færsla en það skal tekið fram að ég er að bíða eftir svona gítar (ódýrri Harley Benton útgáfu) með póstinum frá Þýskalandi (og hef beðið nú í um sex vikur út af Covid).

Þessir gítarar urðu auðvitað að sínu eigin sándi einfaldlega og í dag er ekkert síður spilað ljúflega og lágt á þá – en Bukka og Son voru ekkert að hlífa skepnunni og það var áreiðanlega ekki gert á téðum öldurhúsum heldur. Á milli þeirra situr pollrólegur Skip James og unga konan hverrar andlit birtist í prófíl í smástund meðan Son House er að spila er engin önnur en Ruth Brown.

Þegar rafmagnsgítarinn svo kemur til sögunnar í kringum 1940 er tónlistin svona í mildari kantinum. Sister Rosetta Tharpe leikur sinn gospelblús, Floyd Smith er djassaður og ljúfur, Big Joe Williams og Bukka eru að spila deltablús – Bukka ólíkt harðari en Big Joe vinsælli, t.d. með smellinn Crawling King Snake, sem er standard síðan – Louis Jordan er í sveiflublús, Dinah Washington er enn að syngja blús en á leiðinni í íburðardjassinn, Big Maceo Merriweather er í búggíblús og Arthur Crudup er að finna upp rokkið.

1948 kemur svo Muddy Waters með I Can\’t Be Satisfied (hér er miklu meira um það allt) og Chicago-senan fer að gera sér mat úr hávaðanum sem magnarar geta framleitt. Það er sagt að Muddy og hljómsveit hafi verið fyrsta sveitin til þess að magna upp öll hljóðfærin í bandinu – setja míkrafóna á allt sem gaf frá sér hljóð. Fram til þess var gítarmagnarinn bara notaður til að hafa gítarsándið jafn hátt og allt hitt var frá náttúrunnar hendi. Það er sennilega um þetta leyti sem hávaðinn verður að hálfgerðu blæti í tónlist – desibel sem tilfinningalegt hreyfiafl – og heldur því áfram alveg ómengað þar til að upparnir taka við tónlistargerð upp úr 1985. Í kjölfar Muddy og félaga kemur fljótt rokkið, svo hipparokkið og þar á eftir pönkið og metallinn í hverju skrefi er hækkað meira og meira og meira. Það passar við ártalið sem ég valdi (af handahófi) að árinu áður – 1984 – kemur Spinal Tap myndin þar sem sagður er brandarinn frægi um magnarann sem er betri en aðrir magnarar af því hann fer upp í 11. (Auðvitað er samt ekki öll sagan sögð með hávaða sem blæti – stadiumrokkið heldur þessu áfram – en það breytist samt eitthvað þarna upp úr 1985, grípur um sig einhvern fágun svipað og þarna um miðja öldina).

Allt er þetta formáli til að geta sett inn nokkra rafmagnsgítarblúsa sem njóta sín best í botni. Einn frá hverjum áratug – og byrjað 1957. Þetta er kannski einhvers konar alternatíf-saga rafmagnsgítarblússins (staðlaða útgáfan færi sennilega með hann til Bretlands í Clapton og Mayall, þaðan til Texas í ZZ Top og Stevie Ray, svo í adult contemporary Robert Cray, endurfrægð Buddy Guy og John Lee Hooker og þaðan í Bonamassa og Eric Gales – en það er meira pönk í þessari tímalínu).

Sjötti áratugurinn: Slim Harpo – I\’m a King Bee.

Sjöundi áratugurinn: Howlin\’ Wolf – Back Door Man.


Níundi áratugurinn: Gun Club – Preaching the Blues

Tíundi áratugurinn: Jon Spencer Blues Explosion – Ditch

Fyrsti áratugurinn: White Stripes – Death Letter (eftir Son House)

Annar áratugurinn: Delgres – Lanme La.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png