Blöðin og Hagalín

Morgunblaðið er frekar íhaldssamt blað. Sem er hressandi. Það er ekki gott fyrir mann með mótþróaröskun að vera fastur í búbblu. Það er betra að býsnast yfir málflutningi pólitískra andstæðinga sinna en að býsnast yfir málflutningi svonefndra samherja sinna. Í morgun las ég dásömun á verstu íhaldsseminni í nýju bók Houellebecq, vörn (dulbúinni sem hlutlaus umfjöllun) fyrir transruglinu í JK Rowling og Reykjavíkurbréf um hvað Trump væri misskilinn og hvernig almennt væri nú samþykkt að veiran hefði orðið til í kínverskri rannsóknarstofu. Reyndar las ég líka ágætis viðtal við næringarfræðing og annað við Björn Hlyn – þar sem fram kom að hann vilji gera Ölver að heimili blústónlistarinnar og gott ef mér finnst hann ekki bara 15-20% betri leikari eftir að ég frétti það.


Mín bíður svo Stundin. Á morgun ætla ég sem sagt að býsnast yfir ofvirkri félagslegri uppljómun – frjálslyndinu sem trúarsetningu. Það komu engin blöð frá þriðjudegi og þangað til í gær – ég lét vera elstu moggana en hirti lau- og sun og svo þessa Stund. Ég verð hissa ef það verður jafn mikið um bókmenntir í Stundinni og í sunnudagsmogganum – þótt það sé ekki beinlínis „mikið“ þar heldur.

Mynd úr safni Moggans af Guðmundi G. Hagalín.

Annars er ég alveg dottinn í lókalbókmenntirnar og er að ljúka við níunda bindið í ævisögu Guðmundar G. Hagalín. Fyrstu átta bindin fjalla um bernsku, æsku, unglingsár og allra fyrstu fullorðinsárin (ég hoppaði yfir þau). Hagalín er rétt tæplega þrítugur þegar níunda bindið – Þeir vita það fyrir vestan – hefst.


Þetta er áhugavert efni, sérstaklega fyrir ísfirskan rithöfund kannski, en líka bara líf í tuskunum. Það slær mig hvernig pólitískur klofningur hefur litið allt öðruvísi út á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar. Hagalín er mikið í mun að sýna að sér sé vel við alls konar fólk sem er ósammála honum. „Sjálfstæðismaður, en drengur góður“ er einkunn sem maður sér víða. Hagalín var auðvitað eðalkrati og bæjarmálamafíósi af guðs náð – í makkerí með Finni Jónssyni, Haraldi Guðmundssyni og Vilmundi landlækni – og þeir svífast einskis. Eru að mörgu leyti íhaldssamir en líka framfarasinnaðir og fullir af krefjandi kærleik í garð smælingjanna (þeir setja t.d. reglur um að það megi ekki eyða sveitastyrknum í óholla fæðu – fá kaupmenn í lið með sér og láta merkja alla hollustuna sérstaklega í búðunum). Þá er honum tíðrætt um marga kommúnista að þeir séu gáfumenni og jafnvel drengir góðir (en auðvitað heilaþvegnir af Sovétinu). Næstu stund er hann að gera Brynjólf Bjarnason hlálegan á fundi með því einu að svara ræðu hans með einu „halelúja“, að bola kommúnistum úr verkalýðsfélaginu og nefndum og að rota sjálfstæðismenn úti á saltfiskreitunum þegar þeir eru að gera sig líklega til verkfallsbrota.

Haraldur Guðmundsson var alþingismaður Ísfirðinga og síðar ráðherra. Þessi tilkynning birtist samhengislaust í Vesturlandi um miðjan þriðja áratuginn. Mér til mikils flisss.

Það er svo alþekkt að bæjarblöðin á þessum tíma, Skutull og Vesturland, eru ofsalega hörð. Mjög fyndin oft – en líka bara bókstaflega svo rætin að maður skilur ekki að þetta fólk skuli geta hafa mæst mörgum sinnum á dag á förnum vegi án þess að skiptast á gúmorrenum; sem það hlýtur þó að hafa gert. Altso mæst, ekki slegist. Og ef það er eitthvað að marka Hagalín fór nú bara vel á með þeim, þegar það var ekki að takast á í bæjarblöðunum eða svindla hvert á öðru í atkvæðagreiðslum eða rota hvert annað á saltfiskreitunum. Enda drengir góðir.


Það er líka áhugavert að hugsa um stöðu Hagalíns sem „borgaralegs höfundar“ – hann sem var frekar rauður krati (sérstaklega á nútímastaðli) en taldi kommúnista hálfgerðan skríl. Hinumegin pólitíska rófsins í íslenskum bókmenntum, sem nær frá krötum að kommum, eru svo menn einsog HKL og Þórbergur en þeir eru líka hinumegin við Vilmund landlækni – sérstaklega eru Þórbergur og Hagalín í miklu vinfengi við Vilmund (sem er með Hagalín í öllum krataplottunum til að klækja á kommunum á Ísafirði). Og einhvern veginn undarlegt að hugsa um Vilmund sem snertipunkt eða nöf milli þessara fylkinga.


Það segir svo sína sögu um þessa ævisögu Hagalíns að ég man ekki hvað konan hans heitir. Hún kemur yfirleitt bara við sögu sem „kona mín“ og þá jafnan til þess að nefna hvað hún er alltaf ægilega bíl- og sjóveik. Þau geta ekkert ferðast án þess að hún sé til vandræða. Maður veit ekki alltaf hvort Hagalín hefur nokkra samúð með henni – eiginlega fær maður það á tilfinninguna að þetta fari mjög í taugarnar á honum. Kannski er það ósanngjarnt mat. Ég held þau hafi skilið á endanum en þar sem Hagalín skrifaði aldrei fleiri bindi í þessa ævisögu veit það sennilega enginn fyrir víst.


Annað sem vekur athygli mína er að alltaf þegar bækurnar hans fá góða dóma segist hann hafa verið „afar hissa“. En þegar hann fær slæma dóma segir hann sögu af því hvernig hann náði sér niður á ritdómaranum síðar, oft með einhverri vel tilfundinni athugasemd eða klækjum.

18 views0 comments

Recent Posts

See All

Heima

Einlægur Önd_edited.png