top of page

Björt ljós, borgarljós: Chicago og ákafinn

Ég á í dálitlum vandræðum. Ég hef áttað mig á því að efnið sem ég vill fjalla um er alltof viðfangsmikið til að ég ráði við það – það er of mikið af rangölum og hætt við að þessir textar verði bara sundurlaus langhundur eftir sundurlausan langhund. Þess vegna þarf ég að finna leið til þess að skipta þessu upp í passlega munnbita. Það verður því ekkert skrifað hér í dag um heilan áratug af blústónlist – 1950-1960 – einsog til stóð heldur ætla ég bara að tæpa aðeins á stemningunni og henda svo seinna í nokkrar færslur um tiltekna tónlistarmenn og þemu.

***

Eitt helsta vandamál blússins var (og er) að þrátt fyrir að hann væri menningardíalekt bandarískra blökkumanna, sérílagi í suðurríkjunum, þá þótti hann afar gamaldags – og hefur alltaf sótt trúverðugleika sinn í fortíðina. Það var kostur að vísa svona í ræturnar og auðvitað skapandi fyrir sjálfsmyndina en líka dragbítur ef sjálfsmyndin átti að vera endalaus áþján og störukeppni við þrælahald og ánauðarbúskap og plantekruvæl. Einsog ég hef áður nefnt voru vinsælustu blústónlistarmennirnir fyrir 1950 yfirleitt þeir sem voru nútímalegastir – skáru sig frá fortíðinni – og þá oft mjög djass- og/eða poppskotnir. Billie Holiday, Lonnie Johnson, Bessie Smith, Tampa Red, Eddie Lang o.s.frv. Hinir ómstríðari og meira „orginal“ tónlistarmenn á borð við Robert Johnson, Skip James og Son House voru allir meira og minna fallnir í gleymskunnar dá þarna 1950. Og höfðu í sjálfu sér aldrei baðað sig í athygli meðan þeir voru enn að, þótt þeir hefðu átt nokkru fylgi að fagna á pöbbunum heima hjá sér og dottið inn með eitt og eitt lag í glymskrattana.

Einsog einhver sagði þá var líka krepputíminn í Mississippi ekki heldur sá tími sem bandarískir blökkumenn vildu helst minnast – ekki einu sinni meðan hann gekk yfir. Blökkumenn vildu horfa til framtíðar og komast úr sveitinni – sennilega í þeirri von að einn fagran veðurdag í nútímalegri stórborg myndu þeir ekki lengur þykja annars flokks fólk. Ég hef meira að segja séð viðtal við Ruth Brown (frá því upp úr aldamótum 2000) þar sem hún segist vona að fólk hætti að spila blúsinn – sú skuld sé einfaldlega greidd, hún sé búin að borga og nú ættum við að geta snúið okkur að öðru. Blúsinn tilheyri (nú sem fyrr) fortíðinni.


Stórveldistími Chicagoblússins er í raun furðu langur – ef maður miðar við að hann hefjist með I Can\’t Be Satisfied Muddy Waters árið 1948 og standi langt fram á áttunda áratuginn – það má kannski segja að þetta séu 25-30 ár. Jafnvel enn lengri. Fyrir því eru auðvitað alls konar ástæður.

Fyrsta áratuginn er hann einfaldlega nýr og spennandi. Þann næsta nær hann vinsældum meðal hvítra og getur af sér bæði nýjan hippablús í Bandaríkjunum og bresku blússprenginguna – þegar Rolling Stones komu til Bandaríkjanna drógu þeir Howlin\’ Wolf með sér í sjónvarpið og endurvöktu feril margra helstu blúsmannanna, akkúrat þegar stemningin var að dofna. Loks, upp úr 1970, var farið að dokumentera miklu meira af tónleikum og mikið af því live-efni sem til er af þessum tónlistarmönnum er frá þeim tíma. Chicago-blúsinn er (einsog mikið af blús) partítónlist og átti sér stað á klúbbum og í leigupartíum – plöturnar voru í einhverjum skilningi aukaafurð af tónleikum sem voru lítið sem ekkert dokumenteraðir. Sú orka var ekki beisluð og sett á teip fyrren á áttunda áratugnum og olli endurnýjuðum áhuga. En Chicagoblúsinn hefur ekkert breyst og er raunar miklu einsleitari árið 2020 en hann var árið 1961.


Og þessi svik koma berlega fram í tónlistinni. Það hefur stundum verið sagt að blúsinn hafi verið dapurlegur þar til Muddy Waters og félagar komu fram og settu svolítið stuð í hann og það er ekki alveg úr lausu lofti gripið. Þetta er gröð og lífsjátandi músík sem hentar vel til dans. Hins vegar er hreyfingin líka mikið í hina áttina. Tónlistin er ákafari og óþolinmóðari og hærri og meira ógnandi. Móðins blúsinn á fimmta áratugnum er Dinah Washington með Evil Gal Blues og Josh White með St. James Infirmary – þetta eru döpur lög en falleg. Vangadansar. Og þau eru miklu kurteislegri heldur en Chicagoblúsinn:

I\’m the beggar on the corner, you\’ve passed me on the street 
And I wouldn\’t be out here beggin\’ if I have a enough to eat 
 And don\’t think I don\’t notice that our eyes never meet 
I was born a little different, I do my dreaming from this chair 
I pretend it doesn\’t hurt me when people point and stare 
There\’s a simple way to show me just how much you care
Don\’t laugh at me, don\’t call me names 
Don\’t get your pleasure from my pain

Syngur Wolf í stúdíóútgáfunni – þessi live hérna að ofan er eiginlega bara viðlagið og sóló og ofsi.

Howlin\’ Wolf er ekki bara að segja sögu af fólkinu sem hlær að hinum kúgaða, hann er að setja sig í spor þess kúgaða, og hann er ekki bara að segja að það sé ljótt að hlæja, hann er að banna fólki að hlæja. Með þjósti. Og þegar maður horfir á þennan risavaxna mann segja það langar mann barasta ekkert að hlæja að honum eða þeim minnimáttar aðilum sem hann hefur tekið upp á sína arma.

Á þessum tíma er Big Bill Broonzy líka að gefa út Get Back (Black, Brown and White), Floyd Jones gefur út Stockyard Blues aðeins fyrr og Muddy Waters gefur út Mannish Boy – allt eru þetta mjög pólitísk lög og þótt líta megi á blúsinn sem pólitískan í sjálfum sér, eða pólitískan í „hið persónulega er pólitískt“ skilningnum, þá eru lögin fram til þessa alla jafna ekki pólitísk á þennan hátt (þótt pólitíkin hafi aukist jafnt og þétt frá því Billie Holiday gaf út Strange Fruit árið 1939). Stemningin þarna á sjötta áratugnum er samt nokkuð önnur – það er alveg nýr tónn í blúsnum, ekki bara pólitískur, og kannski sjaldnast, en alltaf ákafur og óforskammaður.

0 views0 comments

Recent Posts

See All

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page