Birdman; Bangin með Nikki Glaser; Við erum ekki morðingjar; Live with Yourself s. 1; Joker; Korngult

Það eru tvær vikur síðan ég skrifaði í menningardagbókina og maður gæti haldið að þetta hafi smám saman verið að mjatlast inn en í sannleika sagt er ég frekar latur að lesa eða hlusta eða horfa á ferðalögum. Megnið af þessu er frá allra síðustu dögum, frá því að ég kom heim eða var a.m.k. á heimleið.

***

Ég horfði á Birdman í vélinni heim frá París. Það var ekki síst viðeigandi í ljósi nýlegra deilna um gæði Marvel-mynda versus gæði listabíós. Myndin fjallar um leikara sem er frægastur fyrir að hafa leikið ofurhetjuna Birdman – leikarinn er leikinn af Michael Keaton og Birdman minnir óneitanlega svolítið á Batman. Leikarinn vill hins vegar láta taka sig alvarlega(r) og er þess vegna að setja upp eigin aðlögun á smásögu Raymonds Carver What We Talk About When We Talk About Love. Í eigin leikstjórn með sjálfan sig í aðalhlutverki. Hann er afar tæpur og fær til sín annan leikara, Edward Norton, sem er jafnvel enn tæpari en þykir mjög hæfileikaríkur og hann ýtir Keaton lengra af sporinu. En svo má segja að sögnin í myndinni sé að listin verði til á þessum tæpa stað – í hinni hráu tilfinningu, brjálæðislegu nautn, ótta, dauðaþrá, greddu jafnvel. Þessu var lengi vel held ég tekið sem gefnu – en eftir leikhús-metoo finnst mér einsog það verði varla lengur. Í stað þess að leikhúsið sé staður þessa brjálæðis á það að vera vinnustaður þar sem maður getur talið sig óhultan – faglegur vinnustaður þar sem vinnur faglegt fólk. 

Hvað sem því líður er Birdman frábær mynd – a.m.k. snappsjott af ástandi ef maður tekur henni ekki sem fagurfræðilegu manifestói.

***

Ég horfði á uppistandið Bangin’ með Nikki Glaser. Það var ekki spes. Ég var búinn að sjá treilerinn og bestu brandararnir voru þar. Sennilega væri þetta skemmtilegra ef maður væri átján ára. Kannski ekki samt – ekki mjög woke. Best kannski ef maður er fertugur en átján ára í anda.

***

Fyrsta jólabókaflóðsbókin sem ég las var Við erum ekki morðingjar eftir Dag Hjartarson. Bókin fjallar um unga konu sem gaf út bók sem setti líf hennar úr skorðum – maður veit ekki mikið meira en það kemur smám saman í ljós þessa einu nótt sem bókin annars spannar, meðan hún segir manni sem hún býr með (þau leigja sitthvort herbergið) alla sólarsöguna.

Það er eitthvað gott að gerast í fyrrihlutanum, einhver stemning – faglegheit, for lack of a better word, en líka eitthvað næmi, stíll, innsýn. Það truflaði mig stundum hvað bókin vísar oft í samtíma-Reykjavík og hvað kærasti konunnar – Benni – á sér augljósa fyrirmynd (það er ekki síst lúðalegt í ljósi þess hvert sagan svo leitar). Á einum stað segir stúlkan við sambýlismanninn að hluta vandræða hennar megi rekja til þess að á Íslandi lesi allir skáldsögur með símaskrána til hliðsjónar (eða eitthvað álíka, ég man þetta ekki orðrétt). Kannski er það eitthvað svona meta-komment á Við erum ekki morðingjar sem er einmitt full af símanúmerum sem maður getur auðveldlega tengt við raunverulegt fólk – án þess þó að vera lykilróman eða mikil tíðarfarslýsing, bókin dvelur fyrst og fremst í sársauka aðalsöguhetjunnar og þessir lyklar segja manni ekkert annað en hvar höfundurinn sótti fyrirmyndir sínar. Ekki heldur um fólkið sem er fyrirmyndir. Þetta er svolítið einsog að sjá bíómynd þar sem maður þekkir mikið af statistunum í bakgrunni – og einn af aðalleikurunum hefur verið rækilega tæpkastaður.

En jæja. Ég var nú samt að fíla þetta alveg fram í blálokin. Plottpunkturinn – þegar maður kemst loksins að því hvað það var sem olli öllum þessum harmi – er síðan ekki góður. Ég held ég hafi hreinlega æpt upphátt „nei!“ þegar hann loks birtist og liðið svona einsog þegar maður er að spila jenga og er alveg að vinna en rekur sig svo klaufalega utan í og allt hrynur. Að því sögðu var heilmikið að gerast fram að hruni og þetta leit að mörgu leyti vel út – var sprúðlandi sálfræðiþriller nokkuð fram yfir hlé.

***

Serían Live With Yourself er með Paul Rudd í aðalhlutverki. Uppleggið er mjög fínt. Þunglyndur fjölskyldufaðir uppgötvar kóreskt spa sem lofar honum – fyrir 50 þúsund dollara – algerlega endurnýjuðum lífskrafti og lífsviðhorfi og hann hefur ástæðu til að trúa því að þetta virki (vinnufélagi hans hefur gert þetta og farið í gegnum ferlið). Hann slær til – það fer eitthvað úrskeiðis þegar er verið að svæfa hann og hann vaknar lifandi grafinn úti í skógi nokkrum klukkustundum síðar. Skakklappast heim til sín en finnur þar fyrir sjálfan sig – hamingjusamari útgáfu – sem veit ekki heldur hvaðan á sig stendur veðrið. Í ljós kemur að hann hefur verið klónaður án galla sinna og átti að deyja – einsog aðrar frummyndir klóna til þessa. Þeir þurfa svo að finna einhverja leið til þess að vera báðir til í heiminum.

Fyrstu 3-4 þættirnir eru fínir. Svo verða skrifin alltaf væmnari og væmnari og maður fær engu meiri innsýn í persónurnar – þær hætta að þróast og mikið af upprunalega vandamálinu (þunglyndinu) er bara látið óhrært, einsog það hafi aldrei verið til. Eiginkona Rudds er ekki nema sjónarmun verr skrifuð en hann sjálfir (já, sjálfir) en það munar samt einhverju – allt of þunnt. Þetta endar svo á ótrúlega heimskulegu glotti. Já og Paul Rudd er góður í að leika svona næs en ringlaða sæta náunga – en það er hrikalegt að láta hann leika í mjög dramatískum senum, alveg út í hött, hann bara getur þetta ekki.

***

Ég ætlaði fyrst að sjá Joker á fríkvöldinu mínu í París en þegar ég kom í bíóið var biðröð út á næsta horn og ég sá ekki betur en allir í röðinni væru þegar með miða. Ég fór leiður heim á hótel en fattaði svo að ég ætti annað fríkvöld í Keflavík daginn eftir og þar var auðvitað líka verið að sýna Joker – í hálftómum sal, bara ég og nokkrir Pólverjar (sennilega höfðar myndin betur til meginlandsbúa).

Ég er búinn að sjá svo marga skrifa að þeir ætli nú að bera í bakkafullan lækinn um þessa mynd að ég veit ekki hvar ég á að byrja. Ég fílaði hana. Að því sögðu er Joker auðvitað ekki góðmenni – eða neins konar Che Guevara fígúra heldur. Ekki Greta Thunberg. Engin fyrirmynd vestrænna sósíalista. Hann er fórnarlamb kerfis sem stendur á sama um smælingja – geðsjúkur maður sem fær ekki hjálp. Í myndinni krystallast þetta ástand og reiðin í þjóðfélaginu vellur og vellur. En Joker sem útleið er auðvitað ekki bara hinn fátæki og reiði, heldur líka trúðurinn, vitleysingurinn, Trump og Boris og Vigdís Hauks og Sigmundur í ósamstæðum skóm að éta hakk á ritzkexi á Snapchat.

***

Næst á jólabókaflóðslistanum var Korngult hár, grá augu eftir Sjón. Sjón er einfaldlega einn allra besti rithöfundur sem Íslendingar hafa átt og sá þeirra sem höfðar einna mest til mín – hann hefur sína eigin auðþekkjanlegu fagurfræði, sem er kannski sprottinn af súrrealismanum en er löngu orðin að einhverju öðru í hans meðförum, og ég les bækurnar hans ölvaður af aðdáun einsog veiklað fanboi. Að því sögðu er ég ekki alveg sannfærður um þessa tilteknu bók – hún er allavega ekki jafn augljóst meistaraverk og síðustu tvær (Codexinn og Mánasteinn). Það er margt í henni sem nær til mín en að sama skapi gríp ég sums staðar í tómt – kannski þarf ég bara að lesa hana aftur og kannski er ég bara löngu orðinn saddur af nasisma og kannski er ég að leita eftir einhverju sem ég átti von á en er ekki til staðar og þá þarf ég sennilega fyrst að komast yfir það.

Miðkaflinn í bókinni fannst mér bestur – bréfin og skjölin. Þar finnst mér Gunnar Kampen og heimurinn sem hann lifir í birtast skýrast. Sennilega er leiðin að hjarta þessarar bókar í gegnum persónuna fyrst og síðan að restinni – þaðan stækki hún.

En meira að segja bara rétt svo í meðallagi góð Sjónsbók er samt Sjónsbók – samt frábær – hún hefur vaxið frá því ég lét hana frá mér og ég yrði ekkert hissa þótt hún ætti eftir að halda því áfram um dálítið skeið.

***

Þriðja jólabókaflóðsbókin var Aðferðir til að lifa af eftir Guðrúnu Evu.

Ástin Texas – kom hún út bara í fyrra? Hún var allavega frábær og Aðferðir til að lifa af er það líka. Aðferðirnar er ekki smásagnasafn en samt smásagnasafn – og jafnvel örsagnasafn. Sagan vindur sér á milli sögumanna og sjónarhorna sem ryðja mjög gætilega yfir mann heilum mannsævum af tráma og ást og sérkennilegheitum. Einhvern veginn bæði þægilega óþægilegt og óþægilega þægilegt aflestrar – minnir mig á bækur sænskrar vinkonu minnar, Idu Linde, a.m.k. að þessu leyti, og líka þannig að þær undirstrika svo rækilega hvað er alltílagi að vera svolítið fokkt opp, að vera ringlaður og í rugli, hornskakkur í tilverunni. Mér finnst alltaf aðeins auðveldara að standa á fætur þegar ég hef lesið – allavega þessar síðustu tvær Guðrúnar Evu.

***

Fjórða jólabókaflóðsbókin var Gráskinna eftir Arngrím Vídalín. Það er eitthvað lífrænt við þessa bók og það er eitthvað mjög ólífrænt við hana. Ég er ekki viss um að mér finnist hún alveg ganga upp. Fyrstu 120 síðurnar eru nánast einsog formáli að endalokunum, síðustu 20 síðunum – og hugsanlega hefði hún bara verið betri sem óplottuð mannlýsing/ævisaga. Að því sögðu er plottið mjög flott, sem og snúningurinn á því, og endirinn góður og aðalsöguhetjan – eina persónan sem maður tengist nokkuð af viti – vel sköpuð. Ég hefði viljað dvelja meira í mónómaníu Jóhannesar og minna í einhverjum sögum af ættmennum hans – sem þess utan virka stundum mjög anakrónískar, manni finnst stundum nánast einsog Jóhannes sé að alast upp á stríðsárunum, þessi borgaralegi Grönvold-heimur á miklu meira skylt við sagnaheim gullaldar Kiljans en síðustu 30 árin. Og þá meina ég ekki að borgarastéttin sé ekki til, hún sé ekki íhaldssöm og hómófóbísk – það bara lítur ekki svona út lengur, held ég, er öðruvísi í laginu.

Stíllinn er mjög lillgammal líka – gamall fyrir aldur fram og þarf svo sem ekki að koma neinum á óvart sem hefur lesið Vídalín fram til þessa. En fínn, sem sagt, mestmegnis rembingslaus og samræmi út í gegn.

***

Preacher – lokasería. Við Nadja höfum verið að dunda okkur í gegnum Preacher síðustu misserin. Þetta er sería byggð á teiknimyndasögublöðum um predikara – Jesse Custer – kærustuna hans, Tulip, og besta vin þeirra sem er vampíra (og ástfanginn af Tulip). Jesse hefur hlotið mátt sem nefnist Genesis og gerir honum kleyft að skipa fólki fyrir verkum. Þrímenningarnir eru að leita Guðs, sem er bókstaflega horfinn úr himnaríki, og í lokaseríunni stefnir allt í heimsslit, sem orkestreruð af Guði í samstarfi við sértrúarsöfnuð og messías, sem er ekki Kristur heldur þroskaheftur sonur Krists, Humperdink, eftirlæti afa síns, Drottins almáttugs.

Þetta er ógeðslega blóðugt og ógeðslega skemmtilegt. Mikið rugl, mikið gaman, mikið kaos, mikill töffaraskapur og húmor.

***

Kanadíska bíómyndin Mommy var sýnd á RÚV á dögunum en við Nadja horfðum á hana í gærkvöldi. Hún fjallar um einstæða móður, son hennar sem er brjálæðislega – glæpsamlega – ofvirkur og vinkonu þeirra, stamandi nágranna. Móðirin og sonurinn eru svokallað hvítt hyski, inn að beini, og allt þeirra fas ber merki stjórnlausrar hysteríu frammi fyrir óleysanlegum vandamálum í heimi sem er aldrei með þeim í liði. Gleðin birtist þegar vandamálin eru hunsuð – þegar það er hægt að hunsa þau – og hverfur einsog dögg fyrir sólu þegar ekki er lengur hægt að hunsa þau. Þau eyða gríðarmiklum tíma í að ræða vandamál sín, þekkja þau, fantasera um leiðir út úr þeim en aldrei þannig að maður – sem áhorfandi – trúi því að þetta muni hafast. Maður sér ekki einu sinni leiðir út úr þessu sjálfur. Strákurinn er stórhættulegur, ofbeldishneigður rasisti, og á sama tíma (einsog Gunnar Kampen – en samt ekki) viðkvæmt blóm. Þeir sem gefast upp á honum – eða ógna honum, reyna að konfrontera hann – eru ekki sýndir í mjög sympatísku ljósi en samt sér maður ekki sjálfur hvernig maður gæti hanterað hann í eigin lífi, jafnt þótt manni hafi lærst að þykja vænt um hann og mömmu hans á þessum tveimur tímum sem myndin starði mann niður.

***

Ég fór í plötubúð í París í síðustu viku og var næstum búinn að kaupa Jeff Beck plötuna Jeff Beck Group fyrir 8 evrur en hætti við vegna þess að ég náði aldrei almennilega sambandi við Blow by Blow sem ég keypti í fyrra. Svo setti ég hana á á Spotify þegar ég var að fljúga af stað úr bænum – áður en ég byrjaði að horfa á Birdman – og fannst ég einsog algert fífl, af því Jeff Beck Group er frábær. Miklu lífrænni tónn en á Blow by Blow, meira svona fyrir mig. Allavega – ég keypti reyndar Graceland með Paul Simon og fyrstu plötu Stray Cats (og Seventh Son of the Seventh Son fyrir Aram) en ég sé eftir að hafa ekki keypt þessa líka. Og þess vegna er Jeff Beck gítarleikari vikunnar, af því að ég er fífl. Lagið er að vísu af Wired, en það er sama.

6 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png