Bilað fingrafar, Bush forseti og Burger King

Í gær var ég í lyftunni á leiðinni úr bílakjallaranum upp fílabeinsturninn endilangan þegar lyftan staðnæmdist og inn kom trúboðalegur maður – svört jakkaföt, nafnspjald í barminum, grátt hár, snyrtileg miðaldra kona í kjól með honum, bæði með vingjarnlegt en strangt augnaráð. Hann ávarpaði okkur á spænsku en virkaði samt amerískur – kirkjan sem hann var merktur bar spænskt nafn. Eitthvað um Jesú Cristo. Sjálfur maðurinn hins vegar hét „Presidente Bush“.

***

Það er ekki alveg laust við að maður fái snert af kofabrjálæði af að vera hérna. Ekki skil ég hvernig þeir díla við þetta auðkýfingarnir sem eiga heima hér allan ársins hring. Þeir láta stjana við sig – leggja ekki í bílastæðahúsinu heldur keyra bara upp að lobbíinu, stíga út með börnin og láta starfsmennina leggja bílnum og bera vörurnar upp í íbúð. Fyrir þetta tipsa þeir – mér skilst að starfsfólkið geri nánast hvað sem er fyrir tips ef hægt er að koma því við.

***

Ég var mjög duglegur að læra spænsku með duolingo áður en við komum. En svo þvarr mér þróttur eiginlega strax og ég kom. Ég heyri líka frekar litla spænsku í kringum mig – talsverða sænsku, ensku, íslensku og svo kínversku. Ef frá er talin veitingastaðarferð okkar Nödju í síðustu viku hef ég heldur ekki borðað neitt sem gæti talist „hondúrskur matur“ – við höfum borðað kínverskt og evrópskt hér heima og úti í bæ hef ég étið pizzur og farið á Burger King. Það er mikið úrval af bandarískum keðjum hérna, alls konar sem maður hefur aldrei prófað – Denny\’s og Cinnabon og fleira. Annars skilst mér að hondúrskur matur sé bara mexíkóskur matur með engu kryddi. Ég ætla að stinga upp á því við Nödju að við förum næst á einhvern mexíkóskan stað. Ég ætti kannski að nota það sem hvata til að læra meiri spænsku – að geta pantað mér tacos.

***

Fingrafarið mitt hætti að virka í vikunni. Bara strækaði alveg. Ég komst ekki lengur upp með lyftunni eða út í garð eða neitt. Þurfti að fara og láta skrá nýjan fingur. Ég hef verið duglegur að grípa í gítarinn – kannski er þetta þess vegna, fingurnir láta á sjá. Almennt hefur trú mín á mátt fingrafaravísindanna líka farið mjög dvínandi síðan ég kom. Það eru allir í stöðugum vandræðum með þetta – stinga fingrinum fimm-sex sinnum í lesarann áður en þeir fá grænt ljós. Ég skil ekki hvernig þetta á síðan að gagnast við að elta uppi glæpamenn – eða hvaða gagn það gerir að skanna fingraförin þegar maður kemur inn í landið ef tækin bera svo bara ekki kennsl á þau þegar þau skjóta upp kollinum næst. Hugsanlega er bróðurparturinn af öllum glæpamönnum heimsins saklaus. Að minnsta kosti þeir sem voru sakfelldir á grundvelli fingrafara (fólk ofmetur líka DNA mjög mikið).

***

Stundum ranka ég við mér einhvers staðar og hugsa: Já, einmitt, ég er í Hondúras. Yfirleitt er ég þá kominn út af hótelinu – stend á bílastæði einhvers staðar eða sit fastur á rauðu ljósi á meðan einfættur maður leikur kúnstir með hækjuna sína fyrir framan bílinn og götubörn þrífa hjá mér rúðuna með skítugri tusku. Svo kem ég aftur heim á Panorama, skelli mér í laugina með krökkunum og þá er einsog ég sé einhvers staðar annars staðar.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png