Beta gengur laus


Ég hef lítið lesið Gunnar Gunnarsson. En samt aðeins gluggað hér og þar. Alltaf verið á leiðinni að gera eitthvað í því. Fyrir einhverjum árum áskotnaðist mér svo bókin Beta gengur laus – ég man ekki hvar, sennilega á fornbókamarkaði, kannski gefins einhvers staðar. Ég vissi ekkert um hana – hafði aldrei heyrt á hana minnst og þar sem hún var kápulaus vissi ég ekki einu sinni um hvað hún væri. Þegar ég tók hana upp í síðustu viku vakti tvennt athygli mína í fyrstu. Hið fyrra var að hún virtist skrifuð á íslensku en ekki dönsku og hið síðara að hún virtist vera eitt það síðasta sem hann hefði skrifað, 1973 (ég mundi ekki hvenær hann dó en sló því upp síðar og það var 1975). Þegar ég hóf lesturinn áttaði ég mig fljótt á því að þetta væri mjög ólíkt öðrum verkum Gunnars – í stað epískrar sveitarómantíkur var hér kominn klámfenginn ofsi á borgaralegu heimili (sem ég sá alltaf fyrir mér að væri Gunnarshús).


Í sem stystu máli þá segir hér af hjónum. Ólafur er „skólamaður“ – háskólakennari í málvísindum – svolítið íhaldssamur og svolítið áfengissjúkur, giftur Betu, sem er vergjörn mjög. Þau hafa verið gift í átján ár. Þá flytur frændi Ólafs, Aðalsteinn, inn til þeirra – hann sækir Verzlunarskólann og stundar innflutning á vörum og verður fljótt mjög fjáður. Aðalsteinn er feitur og mikill og ungur og sveitalegur og tekur fljótt að ríða konu frænda síns. Sá endar í einhvers konar taugaáfalli og fer á Klepp – hugsanlega láta Beta og Aðalsteinn bara læsa hann inni til að fá næði til að ríða í friði.


Allt kom þetta mér mjög spánskt fyrir sjónir. Þetta var alls ekki sá söguþráður eða sá stíll sem ég átti von á – þótt mér þætti þetta reyndar á köflum alveg meistaralegt, kannski ekki síst fyrir það hvað þetta var ólíkindalegt. Ég hugsaði oft til Felix Krull eftir Mann, því þótt það sé allt öðruvísi bók er hún einmitt mjög galsafengið lokaverk annars alvarlegs rithöfundar. Ef ég man söguna rétt var Mann hættur að skrifa og henti bara í þetta svona að gamni sínu – fyrir sjálfan sig – og þess vegna er hún ekkert nema fíflalæti þar til hún endar hún alveg rosalega bratt. Hann setur eiginlega bara punkt þegar hann nennir ekki að skrifa lengur.


Ég hugsaði líka oft til annarrar stuttrar skáldsögu frá svipuðum tíma, Leigjandans, eftir Svövu Jakobsdóttur, sem kom út 1969. Hvort þetta væri táknsaga með svipuðu uppleggi – hinn ungi heildsali stingur undan menntamannsfeðraveldinu. Hið nýja auðvald mætir hinu gamla hefðarvaldi. Og fjallkonunni – hinni íslensku þjóð – er alveg sama hver fremur verknaðinn á meðan hún er tekin með stæl og bravúr.


Ég veit ekki hvort ég varð svo fyrir vonbrigðum þegar ég var búinn með bókina og fór að grennslast fyrir um viðbrögðin við henni á sínum tíma og uppgötvaði að þessi Gunnar Gunnarsson var alls ekki hinn stórfrægi Gunnar Gunnarsson, metsöluhöfundurinn sem fundaði með Hitler, heldur var þessi Gunnar Gunnarsson 26 ára blaðamaður þegar Beta gengur laus kom út. Og þar með kannski meira Bragi Páll sinnar kynslóðar en Thomas Mann í elligalsa. Gunnar þessi skrifaði nokkrar bækur sem fóru meira og minna allar framhjá mér, þótt titlarnir séu kunnuglegir – flutti til Svíþjóðar og sneri sér fljótlega að því að skrifa krimma, á því tímabili sem það var mjög óvinsælt.


Í viðtali kom fram að Dan Turèll hefði sagt við Gunnar, á ráðstefnu í Helsinki, að glæpasagnahöfundur gæti ekki gengið um berhöfðaður og dregið hann inn í hattaverslun.

Það er við svona aðstæður sem maður myndi vilja getað framkvæmt samanburðarrannsókn á sjálfum sér annars vegar og sjálfum sér hins vegar. Vilja geta lesið bókina aftur í fyrsta sinn, nema nú vitandi hver skrifaði hana í raun, og borið saman lesturinn. Hefði mér þótt hún jafn góð? Hefði það verið sama bókin? Sennilega hefði ég síður treyst 26 ára blaðamanni á fyrstu bók en áttræðum nóbelsverðlaunakandídat. Hefði kannski frekar reiknað með því að það skrítna væri mistök en vísvitandi furðulegheit. En ég breyti þessu ekki héðan af – ég las Beta gengur laus eftir Gunnar Gunnarsson, höfund Fjallkirkjunnar, en ekki Beta gengur laus eftir Gunnar Gunnarsson, blaðamann, og þar við situr.


Beta gengur laus fékk fremur litlar viðtökur á sínum tíma – fáa dóma – en er þó tekið fram síðar að hún hafi „vakið mikla athygli“. Ef það hefur ekki bara verið spuni hefur sú athygli þá mestmegnis átt sér stað á mannamótum – fólk hefur þá hvískrast á um hana því lítið er skrifað um hana í blöð. Sjálfur sagði Gunnar þessi síðar að hún ætti frekar erindi á sakaskrá sína en í bókmenntasöguna

41 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png