Barnasafn og Englagarðar

Það er búið að aftengja fingrafaraskannann í lyftunni og nú kemst hver sem er upp. Þetta var gert fyrir nokkrum dögum. Mér finnst rökrétt að álykta að flugumaður sem starfar fyrir byltingaröflin í landinu leynist á hótelinu. Hugsanlega er það iðnaðarmaðurinn sem brosti óvenju breitt til mín um daginn þegar ég var í skærgula „Anti-Fascista Siempre“ stuttermabolnum mínum. Næsta skref er sennilega að byltingarherinn komi upp með lyftunni og skeri auðvaldið á milli eyrnanna. Þann dag ætla ég að reyna að muna að vera í bolnum góða. Ég er ekki viss um að Let There Be Rock bolurinn geri sama gagn.

Annars er allt meinhægt, einsog það á að vera. Ég er svolítið lúinn eftir daginn. Skrítið hvað maður getur orðið þreyttur af þessu. Ég svaraði tölvupóstum í morgun og reyndi að skipuleggja haustið – það verður talsvert af bókmenntareisum – borðaði svo hádegismat. Eftir hádegi sat ég og starði á tölvuna milli þess sem ég dundaði mér og beið eftir að eitthvað gerðist. Dundið fólst mestmegnis í að spá í nýjan stand fyrir gítarfetlana mína sem ég ætla að smíða í haust. Og það tók sennilega þrjá tíma og ég var næstum bara búinn að gefa daginn upp á bátinn þegar allt hrökk í gang og ég skrifaði viðstöðulaust í tvo tíma og kláraði kaflann sem ég er búinn að vera að kljást við. Hann fjallar um innbrot í rækjuverksmiðju.

Svo fór ég að hlaupa, borðaði kvöldmat og nú er ég hér að drekka kaffi og borða súkkulaðikex. Við nýttum helgina vel. Á laugardag fórum við á eins konar vísindasafn fyrir börn – það er kallað „Barnasafnið“ – og fræddumst um stjörnurnar, risaeðlur, ólík störf í þjóðfélaginu og hella og fleira. Þetta var mjög gaman en líka mjög gamalt og þreytt og svolítið skítugt og hafði flest verið gefið einhverju öðru safni fyrir fjörutíu árum og svo selt fimm söfnum í millitíðinni áður en einhver góðgerðasamtök splæstu í það fyrir íbúa San Pedro Sula. Stemningin var mjög eitís.

Þá voru líka mjög fáir starfsmenn og hvert svæði var lokað nema þegar maður var með gæd með sér. Það var ekki hægt að ráfa um og uppgötva neitt – heldur var algert möst að fylgja bara sínum gæd. Gædarnir töluðu auðvitað bara spænsku en við reyndum að hjálpa til við að upplýsa börnin og þýða það sem við gátum. Það gekk bærilega. Best var þegar við lágum á bakinu undir hvolfþakssýningartjaldi og horfðum á myndband um sólkerfið við einhverja dúndrandi eitís sjónvarpsklassík.

Það var líka svolítið fyndið – við Nadja erum ekki ókunnug alls konar menningarlegum árekstrum. Það er ekki allt eins í Svíþjóð og á Íslandi og mér finnst mjög oft að hlutirnir eigi að vera einsog þeir eru á Íslandi (t.d. að börn byrji í skóla sex ára) en henni finnst að þeir eigi að vera einsog í Svíþjóð (að börn byrji í skóla sjö ára). Alltaf þegar við erum í þriðja landinu bætist þá enn ein vídd í viðbót inn í blönduna: hvað er eðlilegt í Hondúras eða Víetnam eða Króatíu o.s.frv. og hvernig er það samanborið við normin á Íslandi og í Svíþjóð. Við fórum á þetta safn með mágkonu minni og mágbarninu og þá bætist alltíeinu kínversk vídd við. Það gerðist svo sem ekkert sérstakt en ég var mjög meðvitaður um það allan tímann að við værum að upplifa þessa hluti á ólíkan hátt og dæma upplifunina út frá fremur ólíkum forsendum. Hjörtunum svipar saman í Súdan og Grímsnesinu en það er ýmislegt í þankagangnum sem skilur mann að engu að síður.

Svo spilar reyndar líka rullu að mágkona mín er föst hérna lengur en við og á a.m.k. rúmt ár eftir af dvölinni og er held ég orðin mjög þreytt á Hondúras – hægri þjónustu og hitanum og því öllu saman, ofan í auðvitað glæpina og að vera heimavinnandi og alls konar annað. Hún er hérna vegna þess að Yesper verður að vera hérna um sinn og af engri ástæðu annarri.

Á sunnudaginn fórum við í Angeli Gardens. Við ætluðum reyndar aldrei að finna það. Google Maps vildi að við keyrðum beint inn í frumskóginn – inn í hnausþykkt kjarrið – en ég heyktist við það og hringsólaði eitthvað þar til ég fann skilti sem vísaði okkur eftir handónýtum steinsteyptum vegi sem leiddi að enn handónýtari moldarslóða sem leiddi okkur að Englagörðunum.

Ég hreinlega veit ekki hvað þetta heitir á íslensku – canopy segja heimamennirnir, Nadja segir linbana. Rennibraut? Maður fer upp fjallið á fjórhjóli – upp flennibrattan og ójafnan stíg en kemur niður í sigbelti, rennir sér eftir vír á milli trjánna. Það eru níu stöðvar og maður endar á veitingastað.

Þetta var mjög gaman. Fyrst voru starfsmennirnir reyndar í svolítið miklu akkorðsgír – einsog þeim lægi á að drífa okkur niður fjallið, það ætti eftir að slægja 40 tonn af túristum í dag – en þeir róuðust fljótt og þá var skemmtilegra. Starfsmennirnir á barnasafninu voru svolítið þessu marki brenndir líka. Sem er skrítið því almennt er þjónusta frekar hæg í landinu. Kannski er bara reglan að þetta eigi að vera óþægilegt.

Krakkarnir fóru með starfsmönnum en við Nadja fórum sjálf. Víða var mjög hátt niður og gott útsýni og sums staðar fór maður líka bara mjög hratt – mikið stuð. Krakkarnir urðu aldrei neitt hræddir samt og varla við Nadja heldur.

Loks fórum við á Denny\’s – ég er að reyna að prófa eitthvað af þessum amerísku keðjum sem hér eru útumallt og maður hefur aldrei komið á. Denny\’s er svolítið einsog McDonalds á sterum – meiri alvöru matur. Á morgun er ég að spá í að kíkja á Wendy\’s í hádeginu.

Við kláruðum báða dagana á að fara út að laug og tjilla með bók.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png