Bönnum Hana

Síðustu áratugir 20. aldarinnar voru mikið umbrotaskeið í menningu vesturlanda. Fyrir þann tíma var allt svolítið hólfaskiptara – allt átti sitt rými og þeim rýmum var gert mjög mishátt undir höfði. Krefjandi verk og ögrandi, jafnvel óþægileg – áttu alls enga leið að því sem kalla mætti opinber rými. Þau gátu verið til en bara í sínum eigin lokuðu afkimum. Ef þau voru sýnd í almennum bíóhúsum, bækurnar seldar í bókabúðum eða listaverkin hengd upp þar sem „venjulegt fólk“ – að ekki sé minnst á börn – gat notið þeirra varð uppi fótur og fit. Niðurstaðan varð svo oftar en ekki málsókn og „bönn“.

Bönnin voru samt ekki alltaf eiginleg bönn – réttarhöldin yfir Howl eftir Ginsberg, sem er eitt frægasta tíma dæmið um listaverkabann, snerist ekki um að það ætti að banna ljóðið. Það átti ekki einu sinni að banna prentun þess eða dreifingu. Enda hefðu málfrelsislög hamlað slíku. En vegna þess að bókin var prentuð í Englandi og flutt inn til Bandaríkjanna var hún stoppuð í tollinum og gerð upptæk á þeirri forsendu að hún innihéldi klám. Spoiler – og trigger – warning: ljóðið inniheldur klám. Þar er meira að segja fullyrt að fólk geti haft ánægju af því að láta margríða sér í rassgatið. Og það er enginn parental advisory miði á kápunni og til stóð að dreifa henni í til þess að gera venjulegar bókabúðir.

Lagernum var þannig haldið í gíslingu mánuðum saman. En vegna þess að málsmetandi fólk kom hinu óþekkta ljóðskáldi og útgefanda hans til varnar skapaðist þrýstingur og umtal – útgefandinn sá að áhuginn var nægur til þess að hann gæti endurprentað bókina innan Bandaríkjanna og gerði það. Þegar lagernum var svo loks sleppt úr tollhúsinu var bókin orðin margföld metsölubók. Það er auðvitað fagnaðarefni – en það er líka mikilvægt pólitískt að yfirvöld (mórölsk, pólitísk eða efnahagsleg) átti sig á því að þau græða ekki á því að reyna að þagga listaverk heldur þvert á móti. Þetta má aldrei verða taktík sem virkar.

En Howl var ekki bannað. Ekki frekar en alræðisstjórnir austantjalds lögðu í vana sinn að banna rithöfundum að skrifa. Þær bara komu í veg fyrir útgáfu efnis sem þótti skaðlegt fyrir heill ríkisins og sálarlíf alþýðunnar. Það er ekki það sama og að banna neitt. Listaverkin mega vera til – þau mega bara ekki sjást, það má ekki heyrast í þeim og umfram allt annað: þau mega ekki hreyfa við fólki (eða triggera tilfinningar).

Gjarnan er líka reynt að takmarka einfaldlega útbreiðslu listaverka – stærstur hluti bókabannsumræðunnar í Bandaríkjunum snýr að skólabókasöfnum. Listar sem stundum birtast á Facebook um bækur sem eru „bannaðar“ í bandarískum skólum eru aldrei bannaðar í öllum bandarískum skólum heldur í einhverjum þeirra.

Listin er í eðli sínu truflandi. Hún hrærir við okkur. Ekki alltaf á sama hátt – stundum hlæjum við, stundum grátum við samúðartárum og stundum fyllumst við hofmóði. En stundum ögrar hún líka gildum okkar – skoðar þær forsendur sem okkur þykja sjálfgefnar og leyfir sér að spyrja hvort þetta standist. Stundum er þessi ögrun út í hött – alveg brjálæðisleg – og hún er merkilegt nokk ekki alltaf vitleysislegri fyrir það. Stundum ýtir hún þá við hugsunum og tilfinningum sem við vissum ekki einu sinni að gætu verið til.

Í vikunni var birt opið bréf með löngum undirskriftalista þess efnis að bíómyndin Elle eftir Paul Verhoeven ætti ekkert erindi á dagskrá RÚV enda væri hún „löðrungur í andlit þolenda“. Svona lýsti gagnrýnandi ríkisútvarpsins myndinni á sínum tíma:

[Elle] snýst um aðalpersónuna Michèle, vel stæða konu á miðjum aldri, sem verður fyrir árás strax í upphafsatriði myndarinnar þegar grímuklæddur maður brýst inn til hennar um miðjan dag og nauðgar henni. Myndin hefst með óhljóðunum yfir myrkum ramma og í nokkur augnablik er óljóst hvort um sé að ræða ofbeldi eða samræði, þótt allur vafi virðist hverfa þegar myndavélin sýnir okkur verknaðinn í miðjum klíðum innan um glerbrot á gólfinu. Þessi tvíræðu augnablik setja þó tóninn fyrir það sem koma skal, því sem áhorfendur vitum við aldrei nákvæmlega hvað við eigum að halda, hvar aðalpersónan stendur, eða nákvæmlega hvert myndin sjálf stefnir, enda gerir hún í því að ögra frásagnarhefðum svipaðra kvikmynda og virðist bæði meðvituð um væntingar áhorfenda sinna og reiðubúin að snúa upp á þær. Þannig verða eftirmálar nauðgunarinnar undarlega hversdagslegir; Michèle lætur nánast eins og ekkert hafi gerst og þegar hún loks segir nánustu vinum frá gerir hún afskaplega lítið úr atburðinum.

En í gagnrýni þeirra sem skrifuðu RÚV verður þetta að:

Myndin er því verkfæri til að viðhalda úreltum og skaðlegum mýtum nauðgunarmenningar og misréttis kynja og sýning hennar á ríkismiðlinum er fullkomin vanvirðing við tugþúsundir kvenna sem orðið hafa fyrir kynferðisofbeldi hér á landi.

Helstu rökin fyrir þessu virðast vera þau að á einhverju stigi málsins í annars margbrotinni mynd sé daðrað við það að aðalsöguhetja myndarinnar hafi fengið kikk út úr því að vera nauðgað. Nú ætla ég ekki að fara að debatera hver séu eðlileg viðbrögð við nauðgun en mér hafði einmitt heyrst úr svipaðri átt og skrifaði þetta tiltekna bréf að það væru ekki til nein „eðlileg viðbrögð við nauðgun“ heldur væru þau alltaf persónuleg og oft á tíðum jafnvel mjög órökræn. Það er auk þess í samræmi við það sem ég þykist vita sjálfur – af fyrstu hendi og annarri og jafnvel þriðju líka. Við það má svo bæta að það er jafnvel enn galnara að ætlast til þess að sögupersónur séu rökrænar en annað fólk – enda eru sögupersónur bæði óáreiðanlegar og stundum ekki annað en myndhverfingar, hlutar af sagnalyklum.

Í umræðum á Facebook hefur því verið hent fram að fyrir undirskriftafólkinu hafi fyrst og fremst vakið að krefjast einhvers konar triggerviðvörunar á myndina og ræða sýningartíma hennar. Um það má segja tvennt:

1) Það er ekki inntak bréfsins sem sent var RÚV og hvergi í því er talað um sýningartíma eða viðvaranir

2) Myndin er sýnd klukkan 22 á sunnudagskvöldi og er tveir tímar. Seinna má það ekki vera. Sýningu lýkur þá á miðnætti. Auk þess er myndinni lýst í dagskrárlýsingu og ætti engum að dyljast umfjöllunarefni hennar. Æski maður frekari upplýsinga er búið að skrifa þúsundir blaðsíðna um efni hennar á netið. Hún er þess utan bönnuð innan 16 ára.

Þótt myndin stuði er óhemja af listrænt þenkjandi fólki – gagnrýnendum úr öllum stéttum, af báðum kynjum – sem ekki bara ver hana heldur fagnar henni. Þótt einn kalli hana „vegsömun nauðgunarmenningar“ þá er annar (eða önnur, réttara sagt – og umtalsvert fleiri) sem segir að aldrei hafi verið gerð kraftmeiri mynd um valdeflingu þolanda. Þótt einhverjum ofbjóði er bróðurpartur gagnrýnenda vægast sagt ánægður. Það er heldur ekki – hvað sem móralistarnir segja – ekkert samhengi milli þess að vera femínisti og að vera mótfallinn myndinni. Myndin er ekki sérstakt afsprengi feðraveldisins – nema að sama marki og allt annað.

En einsog ég segi er list ekki bönnuð með því að setja í lög að „listaverk a sé bannað“. Heldur er hún jöðruð. Hún er gerð óútgáfuhæf. Rýmið sem hún birtist í er leyst upp eða því lokað. Þeim sem gerir hana sýnilega er refsað. Þú sérð hana ekki lengur í bíóinu og ef hún er sýnd í bíóinu er plakatið ekki uppi við götuna. Kannski sérðu hana bara hjá vini þínum sem reddaði sér eintaki. Í samizdat stemningu. Af því eintökin eru ekki á hverju strái. Það er að sönnu erfiðara að „stöðva“ útgáfu á tímum internetsins en það er líka auðveldara að grafa hana – það þarf sterkara signal til að skera í gegnum síbyljuna.

Og sennilega hafa stóru rýmin sem leyfa sér að fara út fyrir almenna og saklausa afþreyingu þess vegna aldrei verið mikilvægari – hvort sem það er Bíó Paradís við Hverfisgötu eða sýningartímar á RÚV eða eitthvað annað. Íslensk heimildarmynd sem kemst á dagskrá hjá RÚV er til – um hana er rætt á twitter, á kaffistofum, til hennar taka ráðamenn afstöðu – en íslensk heimildarmynd sem fæst ekki sýnd á RÚV (einsog t.d. Ge9n eftir Hauk Má Helgason, sem fjallaði af miklu listfengi, dýpt og óþægilegri róttækni um níumenningamálið) er ekki til. Hún hefur verið grafin.

Að þessum rýmum er alltaf sótt og tilvist þeirra er ekki sjálfsögð. Stundum er sótt að þeim af móralistum sem telja sig þess umkomna að fjarlægja alla óþægilega list úr almannarýminu svo hún skaði engan. Stundum af kapítalistum sem telja sig geta grætt meiri pening á að sýna eitthvað annað – eða selja eitthvað annað. Stundum af einhverjum öðrum. Ég hugsa að listabíó á RÚV eigi ekki marga dygga áhorfendur, gæti vel trúað að það „beri sig ekki“ og finnst ekkert sennilegra en að innan stofnunarinnar séu margir sem vildu helst bara kasta öllu slíku artífartí-drasli út í hafsauga – ekki síst þegar m.a.s. menntaða vinstraliðið er farið að biðjast undan „viðbjóðnum“. (Og ætla samt ekki að gera lítið úr því að innan RÚV starfar líka óhemja af menningarlæsu fólki – það er bara ekki endilega alltaf sama fólk og ræður mestu). Þá er ábyggilega einhver tilbúinn með niðurskurðarhnífinn – það má eiginlega bara bóka það.

Í sjálfu sér kemur það mér ekkert á óvart að í heiminum séu harðir móralistar og umvöndunarfólk. Prestafrekjan er víða. En ég varð sannast sagna alveg miður mín þegar ég fór að forvitnast á Facebook og áttaði mig á því hversu mikinn stuðning þessi krafa hafði á bakvið sig – líka úr listakreðsum – og hversu lítið kikkbakkið við þessari fáránlega repúblíkönsku kröfu er. Ég á bara ekkert annað orð sem lýsir því en hræðilegt. Það er í alvöru hræðilegt ástand.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png