Bólusetningaraunir

Frá því snemma í vor var mitt fyrsta morgunverk alla morgna að endurhlaða covidsíðu Västmanlandsléns til að sjá hvort komið væri að mínum aldurshópi að láta bólusetja sig. Þetta gekk mishratt hjá mismunandi lénum og var orðið vandamál víða að fólk var að bóka sig langt að heiman – á Gotlandi fylltist allt og þeir þurftu að banna fólki sem ekki var með lögheimili að sprauta sig þar. Ég væri að ljúga ef ég segðist ekki hafa íhugað að fara þessa leið, en ég ákvað í samræmi við eindregnar ráðleggingar heilbrigðisyfirvalda að draga andann rólega og bíða þess að mín kommúna byði mér sprautu. Västmanland var líka bara svona í meðaltali – hvorki snemma né seint – og ég hef trú á því að maður eigi að bíða þolinmóður og ekki troðast fram fyrir raðir.

Ég var reyndar skráður til heimilis á Íslandi og fékk tvívegis boðun um að mæta í bólusetningu hér, sem ég komst eðli málsins samkvæmt ekki í.

Ég hrópaði upp yfir mig morguninn sem stóð 1978 á skjánum. Spratt upp úr sætinu, náði í símann og hringdi strax til að bóka tíma. Fyrsta hindrun var að ég var ekki skráður með lögheimili í Svíþjóð og hefði þar með í raun aldrei getað farið til Gotlands eða annarra léna af því mér stóð ekki til boða að bóka tíma í gegnum heilsugæsluna, heldur hefði ég þurft að fara í gegnum flóttamannahjálpina (sem sá um alla „papperslösa“ – sem ég vissi ekki að ég væri, sem norrænn ríkisborgari, en reifst ekki við konuna í símanum með tölvuna sem sagði nei). Næsta hindrun var svo að ég var á leið úr landi þann 3. ágúst. Fyrsti lausi tími var nefnilega eftir nokkrar vikur og ég þurfti að vera til staðar til að fá sprautu númer 2 sjö vikum eftir fyrri sprautuna – þann 9. ágúst – og ef ég gæti ekki lofað því fengi ég ekki sprautu númer 1 heldur ætti að bíða þolinmóður þar til ég kæmi til Íslands.

Ég hefði kannski getað hringt til baka og talað við einhverja aðra manneskju sem vissi ekki hvenær ég færi úr landi – ég hafði sagt þessari það áður en ég vissi að hún myndi neita mér um sprautuna – og bara logið. En tvennt stoppaði mig. Eða þrennt.

Mér er í fyrsta lagi almennt meinilla við að ljúga, sérstaklega um hluti sem ég held að skipti máli. Kannski hliðra smá, eða ýkja í besta falli, en mér fannst tilhugsunin um að ljúga þessu óþægileg.

Í öðru lagi – og þetta voru kannski eftirárök til að réttlæta það sem mér fannst óþægilegt – fannst mér að ef ég ætlaði að treysta heilbrigðisyfirvöldum fyrir því að ég ætti að bólusetja mig og leyfa þeim að velja ofan í mig efnið og allt hitt, þá ætti ég að treysta þeim líka þegar þau segðu óráðlegt að taka sprauturnar í ólíkum löndum (síðan þá hef ég heyrt um ótal manns sem hafa látið sprauta sig á ólíkum stöðum vandræðalaust – en það hafði ég ekki heyrt þá).

Í þriðja lagi sá ég ekki fyrir, frekar en aðrir, að verkan bóluefnisins myndi vera einsog hún er – að bólusettir myndu smitast en veikjast minna og delta-afbrigðið ryddist yfir allt og færi verr með óbólusetta. Ég ímyndaði mér, einsog allir aðrir, að smitum myndi fækka og hættan yrði fljótt fyrir bí. Líka fyrir óbólusetta – þótt auðvitað ættu sem allra flestir að bólusetja sig upp á hjarðónæmið og það allt.

Helsta ástæða þess að ég vildi fá bólusetningu þarna í vor var að ég vildi einfalda heimferðina – ég vildi komast hjá sóttkví (ég þóttist alveg viss um að panikviðbrögðin rynnu af fólki miklu síðar en sjálf veiran). Ég sá ekki fyrir að ég yrði í „viðkvæmum hópi“ í miðjum deltafaraldri. Því ákvað ég bara að gera einsog mér var sagt og bíða þolinmóður. Maður á að bíða þolinmóður.

Ég var samt pínu óþolinmóður og skrifaði Heilsuveru strax í sumarbyrjun og spurði hvort þau gætu ekki hitt mig bara á höfninni í Seyðisfirði með sprautuna mundaða. Eða svona nánast. Meðal annars vegna þess að ég átti fyrirliggjandi vinnuferðalög – að kynna íslenskar bókmenntir á erlendri grundu – en þótt ég þættist vita að hlutum hefði verið hliðrað til fyrir fólk í þeim aðstæðum nefndi ég það nú reyndar ekki. Ég fékk þau svör að ekki væri vitað hvernig bólusetningum yrði háttað í ágúst og ég ætti að bíða þolinmóður og láta vita af mér þegar ég væri kominn til landsins. (Og er löngu búinn að afbóka þessi bókmenntaferðalög).

Þegar ég kom til landsins hafði ég strax aftur samband og spurði hvort ég gæti fengið sprautu núna – og var satt að segja hætt að standa á sama, enda ástandið sífellt ískyggilegra fyrir óbólusetta, og farinn að óska þess að ég hefði bara gert einsog margir ráðlögðu mér í vor og logið að sænska heilbrigðiskerfinu um brottfarardag. Þá hefði ég allavega fengið fyrri sprautuna. Þá var mér sagt að næsta holl á Ísafirði væri þriðjudaginn 17. ágúst (á morgun) og ég mætti búast við að vera boðaður þá. Þetta þóttu mér góðar fréttir – þótt ég hefði auðvitað helst viljað að það kæmi einhver beint til mín í ferðasóttkvínna á Hótel Smára og sprautaði mig undireins. En gerði mér sosum grein fyrir að það væri ekki í boði (og fór vel að merkja ekki fram á neina slíka meðferð).

Síðan slepp ég úr ferðasóttkví og fer vestur. Við komumst í húsið. Þá kemur upp smit í bænum og Aram fer beint í einangrun (af því hann var langlíklegastur til að vera smitaður) og við hin í sóttkví sem við sluppum úr í gær, eftir að hafa verið testuð. Við vissum reyndar ekki hvernig neitt sneri þegar við fengum niðurstöðurnar og Nadja hringdi í 1700 til að fá úr því skorið – og þegar búið var að fara í gegnum þetta allt saman (t.d. að við hefðum ekki hitt son okkar að ráði frá 5. ágúst og hann væri í einangrun – ég væri óbólusettur og fjórtestaður á tveimur vikum) var okkur sagt að okkur væri frjálst að fara um í hinni stóru veröld Skutulsfjarðar. Við önduðum léttar – ekki síst vegna þess að ég þóttist vita að nú fengi ég þá mína langþráðu sprautu á þriðjudag. Í gærkvöldi fór ég og hitti systkini mín sem voru í bænum og þar sagði mágur minn mér að hann hefði fengið boð í örvunarskammt á þriðjudag – þar sem ég hafði ekki fengið neitt boð ákvað ég að hafa aftur samband við Heilsuveru í dag og fá það staðfest að ég yrði kallaður til.

Fyrstu skilaboð voru þess efnis að ég væri enn í sóttkví og fengi því ekki bólusetningu að svo stöddu heldur ætti að bíða þolinmóður. Þá útskýrði ég að okkur hefði verið sleppt úr sóttkví í gær – og velti fyrir mér (með sjálfum mér) hvers vegna í ósköpunum það kemur ekki fram einhvers staðar miðlægt að manni hafi verið sleppt. Þá var mér sagt að allir sem væru útsettir fyrir smiti ættu að fara í sóttkví í 7 daga og þá þyrfti að testa þá út. Það væru engar styttri leiðir í boði. Ég útskýrði þá að ég hefði ekki verið útsettur fyrir smiti heldur farið í sóttkví með dóttur minni, sem hefði hugsanlega verið útsett fyrir smiti (sú sem hún umgengst reyndist ekki með veiruna – og ekki Aino heldur). Þá var ég aftur yfirheyrður um allar aðstæður, sem Nadja hafði farið í gegnum með einhverjum starfsmanni 1700 í gær – sem ég hafði líka farið í gegnum með sóttvarnalækni í síma fyrir nokkrum dögum, og mikilvægustu hlutarnir komu þess utan fram á smitrakningarskjali sem ég fyllti út í síðustu viku og skilaði inn – og þegar ég hafði fengið það staðfest að nei, ég væri reyndar ekki í sóttkví, var mér tjáð að allir sem ættu að fara í bólusetningu á morgun væru búnir að fá boð. Bóluefnið væri allt frátekið. Og ég ætti bara að bíða þolinmóður þar til kæmi að mér.

Ég skil það sem sagt þannig að á meðan ég var í sóttkví hafi ég verið tekinn af listanum og þegar mér hafði tekist að væla mig inn á hann aftur hafi öllu bóluefninu verið úthlutað.

Ég veit ekki hvort ég er óþolinmóður maður. En ég er allavega svona hægt og bítandi að verða það.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png