top of page

Að lesa sig heimskan

Schopenhauer var ekki mjög hrifinn af lestri. Sá sem eyðir dögum sínum í sleitulausan lestur, sagði Schopenhauer, eyðir þeim á leikvelli hugsana annarra og missir smám saman hæfileikann til þess að hugsa sjálfur, rétt einsog sá maður sem ævinlega ekur í vagni gleymir loks hvernig maður gengur. „Svo er farið um margan menntamanninn; hann hefur lesið sig heimskan“, segir Schopenhauer.


Og hananú.


Spurning úr skoðanakönnun sem ég tók nýlega þátt í.

Ég man að Edward Bunker sagði á bókmenntahátíð í Reykjavík fyrir 20 árum að allir rithöfundar ættu að eyða að minnsta kosti fimm sinnum meiri tíma í lestur en skriftir. Til þess að læra iðnina, minnir mig að hann hafi sagt, til þess að verða eitt með tungumálinu og sagnamennskunni og skilja það sem er vel gert, hvernig það er vel gert.


En hvort það var ekki Schopenhauer líka sem sagði að fólk svona almennt upprætti þrjá fjórðuhluta persónuleika síns til þess að líkjast meira öðrum? Það má segja mér að sá sem læri iðn sína vel – að minnsta kosti „listiðn“, handverk hins skapandi manns – uppræti eitthvað af því sem gerir hann einstakan listamann. Það sem stingur í stúf registerast oftar sem villa eða mistök eða agnúi en það sem virkar slétt og fellt.


Byrjendur eru kannski oft (en alls ekki alltaf) lélegir en þeir eru líka oftar (en ekki alltaf) einstakir. Fagmönnum svipar saman. Þeir læra hver af öðrum, kynna sér sömu stefnur og strauma og tæki og tól, rækta með sér svipaðar hugsanir, lesa sömu bækurnar á sama leikvelli hugsana – oft á tíðum deila þeir meira að segja félagslífi, enda hafa þeir sameiginleg áhugamál og stuðning hver af öðrum, búa á svipuðum slóðum og deila þar með veðurfari, fyrirkomulagi samgangna og úrvali í kjörbúðum. Það er meira að segja furðu algengt að listamenn séu börn annarra listamanna og eigi sjálfir listamenn að mökum, og allir búi í sömu hverfunum í sömu borgunum kynslóð eftir kynslóð.


En hvernig fer maður að því að læra list sína – eða bara vera til í heiminum – án þess að glata sjálfum sér? Án þess að renna saman við alla hina einstaklingshyggjumennina? Án þess að fórna þremur fjórðu hlutum síns innsta kjarna? Hvernig fer maður að því að lesa fimm sinnum lengur en maður skrifar án þess að lesa sig heimskan?


Kannski með því að horfa meira á sjónvarpið?

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page