top of page

Að hafa gaman


Ég var lengi fram úr í dag. Teygði mig í Hina feigu skepnu á náttborðinu og kláraði hana áður en ég steig á fætur. Það vantar auðvitað sögulega fjarlægð á þetta tímabil í kringum 2000 – árin í kringum 11. september, þetta eru taumleysisár, sérstaklega fyrir hina gagnkynhneigðu karlagreddu – og það væri áhugavert að vita hvernig þessar bækur líta út í þeirri fjarlægð þegar hún fæst. Núna erum við á uppgjörsárum og kannski er tímabilið lengra en bara rétt í kringum aldamótin – kannski væri nær að fara bara aftur í Elvis og mjaðmahnykkina og rekja þessa sögu fram að ... tja hverju? Ég ætlaði að segja Harvey Weinstein en hans nótar hafa alltaf verið til og alltaf ópererað í skuggunum – ég er líklega frekar að hugsa um performansinn á greddunni (alveg án tillits til þess hvort viðkomandi listamaður er í raun og veru dónakarl eða siðsamur eða getulaus eða bara yndisleg mannvera).


Hin feiga skepna fjallar sem sagt um 62 ára gamlan bókmenntaref – sjónvarpsgagnrýnanda – sem fær unga konu af kúbönskum ættum á heilann. Eða öllu heldur fær hann brjóstin á henni á heilann. Sami maður hefur víst í eldri sögu eftir Roth sjálfur breyst í brjóst – svona einsog Gregor Samsa breyttist í bjöllu. Með einhverjum útúrdúrum fjallar bókin eiginlega bara um það hvernig hann kemst yfir þessi brjóst og hvernig hann getur ekki án þeirra verið. Hann tuðar mikið – eiginlega er megnið af þessu tuð (og Roth er alveg meðvitaður um það – David er ekki sympatísk persóna) – og meðal þess sem hann tuðar um er að hafa í einhverjum skilningi verið svikinn um æskuna. Hann er fæddur 1930, giftir sig '56 og kemur seint inn í kynlífsbyltinguna – þennan tíma þegar maður þurfti ekki að skammast sín fyrir að vilja snerta, þurfti ekki að „suða um kynlíf“, þegar fólk hélt að það hefði engin „kynferðisleg réttindi“. Og þá er hann fastur í hjónabandi (en heldur mjög mikið framhjá, einsog lögin kveða á um). Nú stöndum við auðvitað handan þessa tímabils og er ljóst að þessu frjálsræði fylgdi ekki síst yfirgangur og tilætlunarsemi – þegar skömminni sleppti varð fólk óforskammað, eins undarlega og það nú hljómar. Það var ekki alltaf gaman.


Og talandi um gaman. Ég las líka á dögunum bókina Í návígi við fólkið á jörðinni eftir Þóri Guðmundsson. Þar segir Þórir sögur frá ólíkum heimshornum – fyrst og fremst frá hinum svonefnda þriðja heimi. Oft eru þær alveg hrottalegar – harmur, fátækt, ofbeldi, neyð og svo framvegis. En líka nokkrar ljóðrænar og fallegar inn á milli. Mér fannst hún bæði góð og áhugaverð þótt ég fyllist alltaf líka dálítilli skömm yfir því hvað ég er illa að mér um eitt og annað þegar ég les svona bækur og hvað sumir hlutir festast illa í höfðinu á mér – þótt mikið af því sé bara trivial-spursmál. Svona „Jerevan er höfuðborgin í ...“ og ég man ekki neitt. Lokaorðin voru samt rosa skrítin. Bara allra síðasta setningin er „Maður er manns gaman“. Hin ljóðræna niðurstaða. Eftir allan þennan harm og þennan lokahnykk leið mér einsog ég hefði legið á gægjum – staðið á öxlunum á Þóri og horft inn um einhvern glugga. Átti þetta að vera gaman?

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page