top of page

Athyglissjúklingar í eftirlitssamfélagi

Ég hef líklega takmarkaðan áhuga á dystópíusamfélaginu sem slíku; eða, sá áhugi er í það minnsta sálfræðilegur frekar en félagsfræðilegur, hefur minna að gera með áhuga á samfélaginu og samfélagsbreytingum og meira að gera með „harmanna heim“ – innræti mannsins, manninn í heiminum og heiminn í manninum. Sem þýðir auðvitað ekki að ég sé ekki pólitískur – en Heimska er samt að mörgu leyti „minna“ pólitísk bók en Illska og Gæska þótt hún sé skrifuð inn í rammpólitískt dystópíuformið.

„En hvað á ég við með því?“ segir höfundurinn, togar út úr sér pípuna og beinir stútnum að lesendum, „Jú, eitthvað á þessa leið“, heldur hann áfram og stynur einsog HKL. Nöff, nöff.

Ég skrifaði hana á bilinu 5-8 sinnum (eftir því hvernig maður telur) – miklu oftar en aðrar bækur sem ég hef skrifað (en hún er líka stysta bókin mín – pínulítið styttri en Eitur fyrir byrjendur) og það sem virkaði ekki í flestum hinum handritunum var höfuðáherslan á hið samfélagslega og pólitíska, að leggja út af samfélagslýsingum, hinu megindlega, frekar en hinu sérstaka og eigindlega. Sagan var alltaf didaktísk – sama hvað ég gerði – það er varla hægt að segja neitt innan dystópíuformsins sem verður ekki strax banalt; innan þess verður allt predikun, hver einasta yrðing er 70%: svona á þetta ekki að ver(ð)a og ekki nema 30% skáldskapur.

Eða, jæja.

Það er hægt að skrifa innan þess, breyta hlutföllunum svo að þau virki – Atwood getur það, Orwell ekki – og auðvitað væri ofsögum sagt að ég hafi yfirgefið dystópíuna. En ég þurfti að nálgast hana út frá sögupersónum sem áttu sér annað (og ríkulegra) líf en bara það að búa í eftirlitssamfélagi, voru ekki einföld afleiðing þess og bjuggu yfir löngunum og þrám sem áttu ekki augljósan uppruna í því. Og endaði þar í einhverjum skilningi nálægt sjálfum mér – þótt ég hafi þrætt fyrir það í viðtali við Friðriku Benónýs í Stundinni – aðalsögupersónurnar eru að minnsta kosti báðar ísfirskir rithöfundar.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page