Andspyrna í einu rúmi

Þú skríður upp í rúm, kveikir á símanum og skyndilega hrekkurðu upp einsog þú hafir verið að falla í draumi: Allt þetta fólk er dáið. Þú veist varla hvar þú liggur lengur, fylgist með dánartölunni vaxa og dvína, kippist við í augnablik einsog á þig sé skotið, kippist svo aftur við af hræsninni: á þig er ekki skotið, þú liggur í rúminu, þér er hlýtt og fjöllin skýla þér, lúpínubreiðurnar, blámi fjallanna, fjarlægðin.

Afsakið tilfinningasemina en þið skríðið upp í rúm, hvort sínu megin, kveikið á símunum og setjið í brýnnar; þið hafið ekki unnið fyrir tárum en langar að grenja eða að minnsta kosti andvarpa, fórna höndum. Börnin eru sofnuð og þér skilst að Disneylandi Parísar hafi verið lokað í fyrsta sinn frá því það opnaði fyrir 25 árum síðan. Svo gerðist víst eitthvað í Beirút. Og eitthvað alls staðar, úti um allt, kannski drepast aldrei færri en í París, hugsarðu, og verður ósegjanlega leiður. Þessi leiði er að fara að bjarga heiminum.

Svo ferðu bara að gera eitthvað annað. Hvað sem er. Sofa. Dreyma. Þú þekkir fólk í París. Þú ferð þangað á fimmtudag, þið farið þangað bæði, hótelið er skotspöl frá Bataclan, þar sem fasistarnir vinna, þar sem Marine Le Pen verður bráðum forseti og salafistarnir plotta uppreisn. Þú hugsar eitthvað um skriðþunga mannkynssögunnar og réttir upp hendur, sendir inn afsögnina, þetta er ekki gerlegt – fimmtán ára, þeir voru fimmtán ára.

Þú skríður upp í rúm. Það er alveg sama hvað þú lest þessa frétt oft, hún er alltaf eins. Klukkan er orðin margt og bráðum hefst andspyrnan.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png