AndastélÉg bauð eftirlegukindunum úr útgáfuhófi Einlægs Andar heim í Tangagötu og gaf þeim að drekka. Eðlilega var vínið hið yndislega Hans Baer hvítvín en annars var drykkur hússins Fluffy Duck – sem Andri Pétur skírði „andastél“ eftir að ég hafði bönglast með „hnoðrönd“ allt kvöldið.


Það er dálítið flækjustig hérna – maður fær ekki hollenska eggjapúnsið advocaat á Íslandi svo maður þarf að búa það til sjálfur. Til allrar lukku er það furðu auðvelt og erfitt að klúðra drykknum annars. Og hann er fáránlega góður.


Við byrjum á púnsinu.


Advocaat


Tíu eggjarauður (ég keypti gerilsneyddar í plastflösku – það er þá einn bolli)

1/2 tsk salt

Rúmur bolli af sykri

Kanill eftir smekk – ég tek svona hálfa teskeið, sem er frekar mikið

Bolli af brandíi

2/3 bolli af vodka

2 tsk vanilludropar


Maður tekur eggjarauðurnar, saltið, sykurinn og kanilinn og hrærir saman þangað til það er orðið ljóst og fremur þykkt. Síðan hellir maður áfenginu út í og hrærir á meðan.


Næst setur maður skál yfir vatnsbað og hellir blöndunni út í. Hrærir þar til blandan er aftur farinn að þykkna – 8 mínútum mælti uppskriftin sem ég eltist við með. Ef maður er með hitamæli má hætta þegar blandan er orðin 55 gráðu heit.


Þá slekkur maður undir. Hrærir vanilludropunum út í, hellir í flösku og kælir í ísskáp í a.m.k. 6 klukkustundir. Þetta geymist í mánuð.


Andastél


30 ml triple sec (ég sérpantaði það en skilst það sé fínt að nota líka cointreu, jafnvel grand marnier eða orange curacao)

30 ml appelsínusafi

45 ml advocaat

45 ml gin

Klaki og sódavatn.


Fyrst hellir maður fyrstu fjórum hráefnunum í kokteilhristara ásamt klaka. Hristir vel. Síar út í sæmilega rúmgott glas fullt af klaka og fyllir það síðan með sódavatni. Þetta má skreyta með appelsínuhýði.


42 views0 comments
Einlægur Önd_edited.png