Andardráttur

Lífið er ljúft en ég væri að ljúga ef ég tæki ekki fram að ég er svolítið þreyttur. Þó er liðin heil helgi frá útgáfuhófinu, bæði laugardagur og sunnudagur. Eitthvað af því er spennufall. Fátt finnst mér jafn taugatrekkjandi og að spila músík – og fátt skemmtilegra heldur. Kurt Vonnegut sagði einhvern tíma að allir rithöfundar sem hann þekkti væru misheppnaðir tónlistarmenn. Enda myndi engin heilvita manneskja skrifa bækur ef hún réði við að spila fallega tónlist.


En útgáfuhófið tókst vonum framar. Ekkert klúðraðist nema einhver alger smáatriði – ég komst meira að segja í gegnum næstum allt lagið mitt svona sirka á réttum nótum (endirinn fór eitthvað í handaskolum en það var bara alltílagi). Svo var ég svo hæper að ég gleymdi að hjálpa til við að róta þegar við hættum að spila. Ég fæ stundum nafnablakkát þegar ég á að árita bækur en það lét mig alveg vera núna (held ég). Ég varð óðamála en það var bara af því ég var glaður.


Myndirnar hér að neðan tók Baldur Páll Hólmgeirsson.


-----


Ég er ekki með í neinum af þeim ritdeilum sem nú geisa, nema að Hermann Stefánsson heldur því fram í grein sinni á Vísi að það lesi eiginlega enginn þetta blogg. Sem er auðvitað mælanlega satt, en stundum má satt kyrrt liggja. Ég hef líka tilfinningar. Svo þekki ég auðvitað Finnboga Hermannsson ágætlega – hann er einn af rithöfundunum á svæðinu og skrifstofan mín var einu sinni skrifstofan hans. En ég hef ekki lesið bók seðlabankastjóra og ekki heldur Svarta víkinginn. Nýju bókina hans Bergsveins, Kolbeinsey, las ég hins vegar og hún hitti mig óþægilega fyrir – hún er kraftmikil og ég var eiginlega miður mín eftir lesturinn. Ég meina það vel, ég var miður mín einsog maður getur verið eftir góða bók, ekki eftir lélega. Ég las bók Braga Páls líka og hún er að sönnu bæði hrottafengin og skemmtileg, en mér finnst nú ekkert æðislega illa farið með Arnald í henni miðað við drengina í 70 mínútum. Það er gengið ansi nærri þeim og þeirra líkamshelgi. Ekki í sjálfu sér ólíkt því hvernig einn þeirra – Gillzenegger – skrifaði um hóp íslenskra femínista fyrir ekki svo mjög löngu.


Kött Grá Pje benti á það á Twitter, þeim annars undarlega miðli, að þetta væru allt karlar að takast á. Guðni, Hermann, Bergsveinn, Ásgeir, Bragi Páll, Arnaldur, Guðmundur Andri, strákarnir í 70 mínútum, Finnbogi o.s.frv. Ég veit ekki hverju það stýrir en karlar og konur eiga mjög ólíkan átakakúltúr. Stelpur fljúgast minna á á skólalóðum – en það þýðir vel að merkja ekki að þær takist ekki á. Það sló mig reyndar hvort að útilokunarkúltúrinn væri kvenlægari – þetta að flokka fólk í innangarðs og utangarðs, og mögulega baktal líka – en strákar væru meira í beinna einelti. Kannski er kvenfólk bara minna gefið fyrir leiðindi samt, það gæti líka vel verið. Ég hugsa reyndar að ég myndi frekar humma það fram af mér í svona prívatfýlu ef kona gerði að mér atlögu en karl. Það er bara ekki mjög gott lúkk að vera að dissa konur. Og sennilega er versta beiskjan í þannig átökum.


Það rennur reyndar upp fyrir mér að einu sinni var ég drepinn í ljóðasafni eftir konu. Eða því hótað einhvern veginn – ég man ekki alveg hvernig það var orðað og á ekki eintak, finnst ég eiginlega ekki hafa rétt á því. Ég tók því nú samt alls ekkert illa, enda var ég búinn að vinna fyrir því að láta skammast svolítið í mér, og bókin var bara frekar góð, svona það af henni sem ég þorði að lesa.


Þetta eru rosalega vafasamar slóðir til að vera að delera um annars, svona ábyrgðarlaust, og milljón breytur í þessu aðrar en kyn auðvitað, og tilfinning mín fyrir þessu mótuð af tiltekinni lífsreynslu sem er ekki endilega algild; allri lífsreynslu fylgja fordómar og alhæfingar eru aldrei meira en afar grófgerðar myndir af veruleikanum – og allir hinir fyrirvararnir í bókinni.


-------


Annars, talandi um höfunda á svæðinu, þá sló það mig um daginn hvað væri orðið mikið af rithöfundum hérna á stór-Ísafjarðarsvæðinu. Fyrir utan okkur Finnboga þá er auðvitað hún Didda, Guðlaug Jónsdóttir, sem er tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir sína fyrstu bók, Í huganum heim. Þá eru að minnsta kosti þrír höfundar hér af erlendum uppruna – hin finnskættaða Satu Rämö, sem hefur gefið út ótal ferðabækur og verður með reyfara næsta vor sem heitir „Hildur“ og gerist á Ísafirði; hin litháískættaða Greta Lietuvninkaité, sem gaf út skáldsöguna Slepynes fyrir nokkrum árum og mun væntanleg á ensku og Helen Cova, sem hefur gefið út tvær bækur, Sjálfsát og barnabókina Snúlla finnst gott að vera einn, á íslensku, ensku og spænsku. Þá mætti líka telja með Carmen Quintana Cocolina, sem er eins konar tengdadóttir Ísafjarðar – gift Nonna Gunnars og þau eru hérna oft. Hún gaf út bókina Felicidad fyrir nokkrum árum, sem er söguleg skáldsaga um eftirstríðsárin á Spáni, ef ég er ekki að misskilja eitthvað. Svo var Jón Hallfreð að gefa út vísur og kvæði í minningarriti um frænda sinn og nafna. Að síðustu mætti nefna alla þá höfunda sem eru starfandi og eiga sterk tengsl við bæinn, eru héðan eða hafa búið hér lengi eða eiga hér frístunda/vinnuhús – svo sem Eyvind Pétur Eiríksson (sem á einmitt afmæli í dag), Rúnar Helga Vignisson, Braga Valdimar, Huldar Breiðfjörð, Ólínu Þorvarðardóttur, Elísabetu Jökuls og sjálfsagt einhverja fleiri. Það liggur eiginlega við að við þyrftum að fara að eiga okkar eigið rithöfundasamband. Eða héraðsfélag innan RSÍ. Eða bara góða facebook-grúppu og árlegt jólaglögg.


___


Svo las ég í fréttunum að einhver tískuhönnuður væri að gera föt sem væru innblásinn af skáldsögunni On The Road eftir Jack Kerouac. Og þá fór ég að hugsa hvað væri langt síðan ég hefði lesið Kerouac, sem ég hélt mikið upp á einu sinni og held að ég myndi gera núna líka, þótt það sé reyndar mikið í móð að „þroskast upp úr“ honum. Ég hef bara ekki þroskast nein lifandis ósköp og það sem mér fannst sjarmerandi við bækurnar hans – einhver kontrast milli þess fínlega og þess óhamda í prósa, og löngunarinnar til þess að lifa frjáls og afleiðinganna af því – held ég að myndi enn tala til mín. Ég ætti eiginlega að taka bækurnar sem ég raðaði alltaf sjálfur upp í þríleik – On The Road, Dharma Bums og Big Sur – og renna í þær aftur. Í þeirri fyrstu er hann gleðikúrekinn sem rífur sig af stað út í einhver ævintýri – svolítið hangandi aftan í hömluleysi vina sinna, sérstaklega Neal Cassady. Í Dharma Bums er það orðið þreytt og hann leitar að ró, hangandi aftan í zeni vina sinna, aðallega Gary Snyder, og dettur ofan í búddismann (sem gerði Burroughs óðan – hann kallaði búddisma „andlega geldingu“). Í Big Sur er hann svo bara orðinn súrrandi dysfúnksjónal – reynir að halda sig frá partíunum og ruglinu en ræður ekkert við það, endar alltaf einhvern á gólfinu búinn að gubba yfir sig allan. Kerouac skrifaði aldrei neitt um þessi fáu ár sem hann átti eftir – sem einkenndust af beiskju og reiði og drykkjuskap. Hann þoldi ekki bítkynslóðina og þoldi ekki að vera kenndur við hana og þoldi ekki alla ungu hippsterana sem tjölduðu fyrir utan hjá mömmu hans, þar sem hann átti sjálfur heima. En þessi bók er svona upptakturinn að þeim árum. Gjaldþrot örgeðja og hrifnæms manns.


Kannski er samt ágætt að eiga svona í minninu bara. Ég horfði á The Mask um daginn, alveg handviss um að hún væri ennþá geggjuð, og þá var hún bara ágæt. Ekkert hræðileg. Bara ágæt, sem voru vonbrigði. Footloose, sem ég horfði líka á, var hins vegar frábær og gaman að sjá hana aftur. En þetta er hættuspil.

80 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png