Aflýsing tónlistarmanna, helvítis bólusetningin og besta djammsessjón sögunnar

Yasin heitir sænskur rappari, fæddur undir lok síðustu aldar. Hann er uppalinn í Rinkeby-hverfi Stokkhólms en af sómölsku bergi brotinn, og raunar skyldur nokkrum frægum tónlistarmönnum (á norðurlöndunum). Hann hefur verið að gera tónlist frá því hann var um 16 ára gamall en sló fyrst í gegn 21 árs, fyrir tveimur árum, með laginu DSGIS (sem stendur fyrir Det som göms i snö – „það sem snjórinn hylur“ er fyrri hluti máltækis sem endar „birtist í þíðunni“). Síðan þá hefur hann undantekningalítið raðað lögum sínum í efstu sæti Spotify-listanna.

Þegar DSGIS kom út var hann nýstiginn út úr fangelsi en hann hafði rúmu ári áður verið dæmdur í 27 mánaða fangelsi fyrir gróft brot á vopnalögum en var sleppt snemma (reyndar var lausn hans frestað einu sinni um mánuð vegna slæmrar hegðunar í fangelsinu). Hann hefur löngum verið talinn háttsettur í glæpaklíkunni Shottaz sem hefur orð á sér fyrir að vera sú ofbeldisfyllsta í Stokkhólmi – og það er nú alveg svolítið, klíkuheimurinn í Svíþjóð er bara frekar harður í seinni tíð, mikið um skotárásir, sérstaklega undanfarið.

Viku eftir að DSGIS kom út var hann handtekinn grunaður um morð – í nýárspartíi sem hann hélt á hæð í hóteli sem hann leigði í Stokkhólmi – og haldið í varðhaldi í rúma tvo mánuði áður en honum var sleppt (og málinu ekki fylgt frekar eftir).

Í apríl í fyrra var síðan sautján ára gömlum sænskum rappara rænt. Hann er víst frægur en er hvergi nefndur á nafn í blöðum og ég hef ekki haft fyrir því að gúgla mig fram um það hver hann er (og myndi sennilega ekki þekkja hann hvort eð er). Rapparinn ungi var niðurlægður í myndböndum á samfélagsmiðlum, látinn skríða um á fjórum fótum með hundaól, hann stunginn, barinn, klæddur í kjóla og kvenmannsnærföt og látinn bera hárkollur o.s.frv. Á endanum var honum síðan sleppt en hann – sem er líka tengdur klíkuheiminum, þó ekki Shottaz – neitaði að vinna með lögreglu eða leggja fram nokkurs konar kæru. Yasin lá víst undir grun strax í fyrra en var ekki handtekinn fyrren í upphafi árs og þá á grundvelli sönnunargagna sem lögregla hefur úr Encrochat-spjallforritinu – og fær frá frönsku lögreglunni sem krakkaði forritið síðasta sumar.

Yasin gaf út tvær plötur í fyrra – þá fyrri í maí og þá síðari í október. Sú fyrri var í fjórða sæti á plötulistanum eftir 21 viku og öll þrettán lögin af þeirri síðari fóru á topp-50 listann í Svíþjóð vikuna sem platan kom út. Hann var svo tilnefndur og vann bæði „hipphopplistamaður ársins“ og „nýgræðingur ársins“ á P3-verðlaunahátíðinni nú í mars (P3 er ein af ríkisútvarpsrásunum).

P3 ákvað að taka hann ekki úr spilun – enda ætti að meta hann út frá listrænum eiginleikum frekar en glæpsamlegum gerðum í einkalífinu – en dró þó úr spilun laga hans, á þeim forsendum að fólki gæti þótt óþægilegt að heyra þau og það þyrfti að fara einhvern milliveg. Þá reyndi Yasin að senda bréf úr fangelsinu til þekkts klíkumeðlims í Stokkhólms þar sem hann stakk upp á því að einhverjum á P3 yrði hótað eða þeim rænt ef lög hans væru ekki meira spiluð (einu sinni á tveggja tíma fresti var nefnt sem lágmark). Bréfið var stoppað af eftirlitinu í fangelsinu en komst í fréttirnar – og P3 sagði að þetta skipti engu til eða frá um hversu mikið hann yrði spilaður.

Í byrjun mánaðarins var svo haldin sænsk Grammy-verðlaunahátíð, sem Yasin komst ekki á frekar en á P3-hátíðina, og þar vann hann aftur „hipphoppari ársins“ fyrir plötuna 98.01.11 – en var auk þess tilnefndur fyrir plötu ársins, sem textahöfundur ársins og sem listamaður ársins. Vinur Yasins, rapparinn Haval – sem situr einnig fangelsaður fyrir sama brot – var tilnefndur sem nýgræðingur ársins en laut í lægra haldi fyrir Monu Masrour.

Nokkur umræða spannst um þetta allt saman, einsog gefur að skilja, og hvort eðlilegt sé að horfa framhjá glæpum tónlistarmanna við spilun, umfjöllun eða verðlaunatilnefningar – hvort verkin standi sjálfstæð og hvort það sé ábyrgðarhlutur að hampa ofbeldismönnum. Yasin hefur stundum sagt að hann sé hættur í glæpalífinu. En hann hefur verið dæmdur og kærður og þykir sennilegt að hann verði dæmdur aftur – ef það er borið saman við t.d. glæpi Auðs, sem hefur verið tekinn úr spilun á Íslandi, hefur lítt birst um það nema óljósar ásakanir á samfélagsmiðlum og engar kærur eða ákærur og þaðan af síður dómar.

Þá hefur fólk nefnt að ef aðstæðurnar væru aðrar hefði fólk tekið þessu alvarlegar. Pistlahöfundurinn Hanne Kjöller bar málið saman við mál Paolo Roberto sem er fyrrverandi boxari sem starfaði við sjónvarp og var þess utan orðinn hálfgert vörumerki fyrir pasta, ólífuolíu og þess háttar – nokkurs konar Jamie Oliver Svía. Paolo er vel að merkja afturhaldsseggur í skoðunum – barðist gegn hjónabandi samkynhneigðra og hefur sagt sig mikinn andstæðing femínismans (en ákafan stuðningsmann „jafnréttis“). Nema hvað – ekkert af því kostaði hann æruna. Hann var hins vegar handtekinn í fyrra fyrir að kaupa sér þjónustu vændiskonu og í kjölfarið var hann rekinn úr sjónvarpsþáttum sínum á TV4 og vörumerkið Paolos var lagt niður. Honum var sem sagt aflýst og hefur lítið til hans sést frá miðju ári í fyrra – fyrir það sem Hanna segir að sé augljóslega miklu minna brot en það sem Yasin hefur verið sakaður um. Hún ber þetta líka saman við dóma og kærur sem Cornelis Vreeswijk mátti þola – en hann sat nokkrum sinnum inni fyrir minni brot (meðal annars fyrir fylleríisakstur, slagsmál á krám og fyrir að hóta og skera – lítillega – eina af tveimur transkonum sem höfðu fylgt honum heim til ástarleikja – um þetta samdi hann meðal annars lag). Hanna tekur reyndar fram að henni þyki aflýsingarmenningin hroðbjóður – en gangsteragælurnar séu engu skárri.

Þá hafa aðrir nefnt að ef fórnarlamb Yasins – hinn ónefndi, barnungi rappari – hefði verið barn úr millistéttinni, einhver saklaus 17 ára pólópeysustrákur frá Östermalm, hefðu viðbrögðin verið önnur. Það sé gengisfelling á lífum hinna jaðarsettu að láta einsog þau séu ekki nægilega mikils virði til að taka andköf yfir – og jafnvel einhvers konar Wire-hugsunarháttur, að af því strákurinn sé „in the game“ (altso meðlimur í klíku) þá sé ofbeldið sem hann verður fyrir bara eitthvað bíó (sem færi gerandanum street cred sem megi jafnvel verðlauna sem dramatíska list).

Einnig hefur verið nefnt að tekið hefði verið harðar á þessu ef rapparinn ungi hefði verið kona og hún áreitt kynferðislega (margt af því sem gert var við strákinn – t.d. að berhátta hann og klæða hann í efnislítinn nærfatnað og mynda það – hefði verið kallað kynferðislegt ofbeldi í umræðunni ef hann væri stúlka). Það sé litið mun alvarlegri augum en niðurlæging litaðs unglingsstráks úr gettóinu.

Af þeirri umræðu að dæma má ímynda sér að mál Auðs hefði ekki endilega verið hanterað neitt öðruvísi í Svíþjóð. Og væri kannski nær að bera það saman við mál grínistans Sorans Ismail sem var þó kærður fyrir eitt og annað – kynferðisofbeldi, vændiskaup o.s.frv. – en ekki ákærður fyrir nema eitt málanna og held ég ekki sakfelldur fyrir neitt. En missti þó ferilinn (ef frá er talin heimildamynd sem var gerð um hann – Persona Non Grata – og hans mál, hefur ekkert sést til hans í nokkur ár). Var hann þó, annað en Paolo Roberto, mjög afgerandi hluti af „góða fólkinu“ sjálfur – meðal annars beitt sér mikið gegn Svíþjóðardemókrötunum.

***

Ég verð ekki bólusettur í Svíþjóð. Ég hef staðið síðustu vikur og endurhlaðið síðuna og fylgst með ártalinu færast nær og nær fæðingarári mínu – hér er maður ekki boðaður í bólusetningu heldur fær maður að bóka sér tíma þegar kemur að ártalinu manns. Þegar kom loks að mér hringdi ég umsvifalaust – símsvarinn lofaði að hringja í mig til baka og þuldi upp númerið mitt en svo var ekkert hringt. Sjálfsagt af því númerið er ekki sænskt. Ég beið því eftir að Nadja kæmi heim með sænskan síma og hringdi aftur. Þá var hringt til baka stuttu síðar. Fyrst var mér sagt að ég yrði að snúa mér til hælisleitendaþjónustunnar, hún sæi um alla sem væru ekki skráðir í landið, og svo spurði konan í símanum hvenær ég færi úr landinu (3. ágúst) og þá sagði hún að ég gæti ekki látið bólusetja mig fyrir þann tíma. Það væri enginn tími laus fyrr en 22. júní og ég þyrfti svo að bíða a.m.k. í sjö vikur á milli sprauta og þá væri kominn 9. ágúst. Það yrði enginn sprautaður með fyrri sprautunni sem gæti ekki lofað að vera til staðar til að þiggja þá seinni.

Þetta er auðvitað mjög bagalegt. Sennilega teldist ég ekki fullbólusettur fyrir heimferðina nema ég hefði náð seinni sprautunni um miðjan júlí – eða fengið Janssen (sem Svíar eru einmitt að lána Íslendingum 24 þúsund skammta af). En það er enginn sveigjanleiki um þetta frekar en annað. Ég held ég hafi aldrei kynnst annarri eins bjúrókratískri þvermóðsku og í þessu landi. Ég hef sosum nefnt það áður – en ég get t.d. ekki pantað pizzu með appi af því til að borga þarf maður Swish og til að fá Swish þarf maður sænskan bankareikning. Ég get ekki borgað fyrir strætó með appi af því appið er bara í boði í sænska appstore. Alls konar opinbera þjónustu get ég ekki nýtt mér af því ég er ekki með sænsku rafrænu skilríkin – Bank-ID. Ég gat ekki pantað blóm til Nödju fyrren hún fékk sænskan síma af því blómasalinn gat ekki sent sms í útlenskt númer. Get ekki fengið póst til barnanna minna afhentan á pósthúsi nema vera með þau og passann þeirra með mér (fyrir utan að ég stend alltaf í korter meðan póststarfsmenn eru að reyna að hantera passann minn – sem passar ekki inn í kerfið af því hann er ekki esb-passi og ekki ekki-esb-passi og alls ekki sænskt nafnskírteini). Þetta er land ferhyrningsins og allt sem er ekki ferhyrnt verður að gerast ferhyrnt eða fokka sér.

En ég þarf þá áreiðanlega að fara í sóttkví þegar ég kem heim. Hugsanlega börnin líka af því þau teljast ferðast með mér – geta ekki valið um að vera bara í för með bólusettri móður sinni. Og þarf sennilega tvö dýr PCR-próf – eitt til að komast inn í Danmörku og annað til að komast um borð í Norrænu og frá borði á Seyðisfirði. Fyrir utan auðvitað að ég þarf að ferðast óbólusettur – sem er nú ekki bara áhætta fyrir mig. Ég verð þá heldur ekki fullbólusettur þegar ég þarf að snúa aftur mánaðamótin ágúst-september til þess að taka þátt í bókmenntahátíð – ætli ég aflýsi því ekki bara, kemur í ljós. Ég fer allavega ekki í sóttkví á leiðinni heim því Aram á afmæli daginn eftir að ég kem til baka.

Jæja.

***

Plata vikunnar er Super Session með Mike Bloomfield, Al Kooper og Stephen Stills. Al Kooper var nýbúinn að fá djobb sem plötupródúsent og vissi ekkert hvað hann ætti að gera – og ákvað að gera bara djammsessjón plötu. Upprunalega pælingin var að fá bara Mike Bloomfield, sem var þá nýhættur í Electric Flag eftir að fyrsta platan þeirra floppaði (en hafði stungið af úr Paul Butterfields Blues Band til að stofna Electric Flag). En Bloomfield var hálfgert hrak. Hann hafði alltaf verið þjakaður af ofsalegri minnimáttarkennd og alvarlegu svefnleysi – við það bættist almenn tilvistarkrísa og dálítil heróínfíkn. Hann mætti samt, spilaði fyrsta daginn – var ofsa hress og kátur, einsog hann átti vanda til, lék á als oddi og spilaði músík einsog hann væri andsetinn. Þegar upptökunum lauk fór hann upp á hótel og hrundi bara – þunglyndið helltist yfir hann og hann lagðist aldrei til svefns heldur læddist út og náði fyrsta flugi heim til sín (og eyddi næstu árum í að reyna að gera eins lítið og hann komst upp með – en var stundum þvingaður úr húsi til þess að gera upp skuldir við útgáfufyrirtækið vegna Electric Flag floppsins).

Al Kooper vaknaði við að aðstoðarmaður hans hringdi og spurði hvort Mike hefði náð fluginu. Hann vissi auðvitað ekkert hvaða flug hann væri að tala um – Mike væri sofandi í næsta herbergi. Hann reyndist auðvitað ekki vera þar – bara miði þar sem hann baðst afsökunar, hann gæti þetta bara ekki. Góð ráð voru dýr – Kooper mátti ekki við því að klúðra fyrstu plötunni sinni sem pródúsent – og hann fann Stephen Stills sem kom og kláraði seinni daginn með honum. Þá tóku þeir meðal annars upp hittara plötunnar, Season of the Witch – sem Donovan hafði gefið út árið áður. Fyrsta lagið var hins It Takes a Lot to Laugh, It Takes a Train to Cry, sem Mike Bloomfield hafði einmitt leikið á með Dylan á Highway 61 Revisited.

Það var svo einhver kaldhæðni örlaganna að hafandi eytt óhemju af tíma og peningum í frumraun Electric Flag, sem var sannarlega ofsapródúseruð og ofhugsuð, skyldi Bloomfield fyrst ná almennilegri metsölu með þessum fimm lögum sem voru tekin upp óæfð í einni beit á einum afslöppuðum eftirmiðdegi korteri fyrir einhvers konar taugaáfall.

Þetta er uppáhaldslagið mitt af plötunni. Stop var upprunalega leikið af The James Gang en útgáfan á Super Session er svolítið öðruvísi. Sveitin hafði ekki tíma til að læra allt lagið og allar skiptingarnar svo þeir tóku bara eitt grúv úr laginu og endurtóku það – slepptu öllum söng – og Kooper og Bloomfield skiptast á að sólóa yfir grúvið. Það er eiginlega alveg ótrúlegt að sólóin séu ekki samin heldur spunnin.


0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png