top of page

Af óbærilegu léttmeti tilverunnar


Ég verð alltaf svolítið snúðugur í framan þegar ljúflestrar- eða afþreyingarhöfundar kvarta undan því að sér sé mismunað í bókmenntaheiminum. Nýjasta dæmið er viðtal við Jenny Colgan í Morgunblaðinu – þar dregur hún reyndar ástarsagnahöfunda út fyrir sviga og segir þá verða fyrir meiri útskúfun en glæpasagnahöfundar eða vísindaskáldsagnahöfundar. Fái síður verðlaun eða viðurkenningar eða boð á bókmenntahátíðir. Og þó selji þeir helmingi fleiri bækur. Þetta sé ekkert nema kvenfyrirlitning.


Ég held það sé einfaldast að segja að þetta með sé heilt yfir satt – þótt þetta sé líka eitthvað sem er að breytast. Ljúflestrarhöfundar birtast oftar og oftar á bókmenntahátíðum, fá oftar verðlaun og svo framvegis – en þeir sjást sjaldnar en a.m.k. fagurbókmenntahöfundar. Hvort þeir eru jaðraðir meira en t.d. krimmahöfundar þori ég ekki að segja. Svo er auðvitað skilgreiningaratriði hvar ljúflestrarbókunum lýkur og fagurbókmenntirnar hefjast, en ég held maður geti samt leyft sér að segja að þetta gildi á einhverjum þannig kvarða – eftir því sem þú skrifar af meiri fagurfræðilegum metnaði (og minna til þess einfaldlega að skemmta) því líklegri ertu til þess að fá verðlaun og boð á alvarlegri bókmenntahátíðir (vinsældahöfundar dómínera hins vegar yfir flestum bókamessum). Ég hafna því að þetta snúist um ástarsögur sem slíkar – enda er mjög mikið af alvarlegri fagurbókmenntum ástarsögur.


Í sjálfu sér er síðan spurning hversu mikið bókmenntahátíðir eða verðlaunanefndir eigi að vera eltast við afþreyingarbókmenntir – ég er ekki viss um að Adam Sandler líti á það sem mikla móðgun við list sína að vera aldrei (eða sjaldan) boðið á Cannes; eða að fólkið sem stendur á bakvið Cannes líti á það sem hlutverk sitt að prómótera skemmtiefni Sandlers. Og það alveg jafnt þótt fólki finnist Happy Gilmore og Punch Drunk Love frábærar myndir – með talsverðan þunga. Ég held þvert á móti þá snúist hátíðir og verðlaunaveitingar einmitt um það að horfa framhjá vinsælu léttmeti til þess að vekja athygli á hinu – því sem fæst ekki sýnt í öllum bíóhúsum, á öllum streymisveitum eða stillt upp í stóra hauga á öllum flugvöllum, einsog t.d. bókum Jenny Colgan. Að þær séu oft beinlínis hugsaðar sem mótvægi við vinsældaköltinu eða þeirri hundalógík að vegna þess að einhver selji margar bækur sé viðkomandi augljóslega frábær og eigi að fá verðlaun og viðurkenningu.


Afþreyingarhöfundarnir fá síðan auðvitað annað – þeir fá söluna og dreifinguna og þýðingasamningana sem fagurbókmenntahöfundar fá sjaldan eða aldrei. Þeir þéna margfalt á við meira að segja allra vinsælustu fagurbókmenntahöfunda, þótt þeir fái sjaldnar gullmiða á bækurnar sínar eða skrítna skúlptúra til að stilla upp í hillunum sínum. Og þeir fá líka athygli fjölmiðla – þótt þeir birtist sjaldnar í menningarkálfunum, sem eru hvort eð er að hverfa. Jenny Colgan hefur t.d. verið nefnd 115 sinnum á Vísisvefnum – mest í fréttum af vinsældalistum – en Colson Whitehead aldrei. Það er nú öll mismununin.


Það er líka skrítið að Colgan skuli vísa til þess að það halli á ástarsöguna vegna þess að það séu aðallega eldri konur sem lesi þær. Eldri konur lesa nefnilega aðallega allt – ekki bara ástarsögur og léttmeti. Þær eru einfaldlega stærsti lesendahópur samtímans. Þú gætir allt eins sagt að ástæðan fyrir því að ólínulegar framúrstefnuskáldsögur njóti ekki sannmælis sé kvenfyrirlitning – af því það eru aðallega eldri konur sem lesa þær. Og ólínulegar framúrstefnuskáldsögur eiga sannarlega miklu erfiðar uppdráttar en léttar ástarsögur sem enda vel.


Sjálfur gleðst ég mest þegar verðlaun og hátíðir vekja athygli á höfundum sem ég þekkti ekki – eða sem mér finnst að fleiri ættu að þekkja. Ég sé ekki alveg tilganginn með því að vekja athygli á Jenny Colgan – og minni tilgang með því að vekja athygli á Colson Whitehead en t.d. Mariönu Enriquez, sem er dásamleg og alltof fáir lesa. Auðvitað er samt ágætt að hafa stórstjörnur á borð við Colgan inn á milli og þær trekkja áreiðanlega helling – bókmenntahátíðir eiga að þjóna breiðum hópi. En mér finnst hálf absúrd að vinsælustu stjörnurnar séu að barma sér yfir hunsun og jaðarsetningu; og ég óttast miklu frekar að bókmenntaheimurinn verði of hallur undir vinsældaköltið heldur en hitt.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page