Að þekkja framan í einhvern

Ég er að ryðjast enn einu sinni í gegnum yfirlestur á Heimsku og laga alls konar smotterí. Það er þekkt að maður verður hálf bit á eigin texta eftir sirka tíunda yfirlestur – allt virðist grunsamlegt og skrítið. Mér finnst oft einsog ég geti engu treyst. Þegar maður er kominn upp í tuttugu lestra verður maður rangeygur af rugli.

Það hjálpar ekki til að ég lifi í dálítilli tungumálasúpu – ég les mest á ensku, konan mín talar sænsku við mig og ég svara henni á íslensku, og Aram (sem talar íslensku við mig en sænsku við mömmu sína) blandar eðlilega mikið saman. Það er ansi langt síðan ég talaði reglulega íslensku við fullorðinn Íslending sem svaraði mér á íslensku – ég skæpa við foreldra mína nokkrum sinnum í mánuði en það er allt og sumt. Við þetta má svo bæta að ég er mér að nokkru leyti meðvitaður um að:

1) ýmislegt í máli mínu ber keim af þeirri litlu vestfirsku, sem ekki hefur verið upprætt – ég stend fast á rétti mínum til að skrifa „á helginni“ frekar en „um helgina“; 2) við höfum tilhneigingu til að ógilda alla sérvisku í máli – sérstaklega ef það finnast ekki fordæmi í virðulegu ritmáli (hvernig ný fordæmi eiga að verða til er svo auðvitað spurning); 3) ég hef sjálfur lagt stund á alls kyns tungumálahryðjuverk, klámþýðingar, bókstafsþýðingar, útúrsnúninga, kópípeist, vélskriftir, tilraunamálfræði og aðra eins vitleysu, sem hefur skemmt tilfinningu mína fyrir „réttu máli“; 4) margt af því sem potað er í við yfirlestur er ekki villa heldur val – t.d. hvort maður skrifar „náttúrulega“ eða „náttúrlega“.

Rithöfundur þarf að geta eignað sér tungumálið – þarf hreinlega að leyfa sér stundum að beita því af valdsmannlegri hörku, hroka þess sem leyfir sér (þótt hann sé á hina höndina líka þjónn þessa verkfæris). Og það er að mörgu leyti óþolandi staða fyrir hvern sem er að vera þröngvað út úr málinu, vera sagt: „svona talar enginn“ eða „þetta er ekki [góð] íslenska“ – þegar maður hefur ekki gert annað en að tala/skrifa einsog manni er tamt og eðlilegt. En á sama tíma verður maður að hafa einhverja auðmýkt gagnvart því að maður gerir mistök og stundum orðar maður hlutina klaufalega – hafi maður ekki þá auðmýkt lærir maður aldrei neitt. Maður vill vera frjáls innan tungumálsins, maður vill ekki að það breytist í bönker.

Í gær spurði ég Facebook um orðasambandið „að þekkja framan í einhvern“, í merkingunni að þekkja einhvern í sjón – sem er í bókinni og ritstjóri strikaði undir. Nokkrir deildu því og á einum og öðrum þræði sköpuðust umræður sem var áhugavert að fylgjast með. Mörgum þótti þetta kunnuglegt þótt þeir gætu ekki bent á hvar þeir hefðu séð eða heyrt það – það finnast enn engin dæmi í ritmáli og það gúglast ekki – öðrum þótti þetta skrítið og ekki góð íslenska. Merkilegt nokk þá var það fyrst og fremst yngra fólki sem fannst þetta kunnuglegt, en fannst það á sama tíma fornfálegt, eða sjóara- og/eða bændaslangur – einn hélt sig kannski hafa séð það hjá Laxness – en eldra fólkið sem fussaði og þótti þetta ekki fínt.

Það þarf auðvitað ekkert að vera skrítið. Samræming í máli var minni áður fyrr; það sem hljómar auðskiljanlegt en hálfkunnuglegt er fyrir yngri manneskju hálfgerð vísun til þess tíma er fólk talaði ólíka íslensku eftir landshlutum, sérviskum og öðru. Og fullorðið fólk – hugsanlega jafnvel sú kynslóð sem stóð að þessari samræmingu, að minnsta kosti að hluta – er íhaldssamara. Það hefur eytt síðustu áratugum í að fussa yfir þágufallssýkinni og nýju þolmyndinni – eyddi barnæskunni í að passa sig á dönskuslettum, sokkabandsárunum í að passa sig á enskuslettum – og finnst komið gott af skrítilegheitum. Það vilja allir búa í heiminum sem þeir ólust upp í, og eftir því sem við verðum eldri þeim mun meira gengur heimurinn á þolinmæði okkar gagnvart sífelldum breytingum. Það er jafn eðlilegt og breytingarnar sjálfar.

En aftur að „villunni“ sem slíkri. Mér finnst þetta flott orðalag – að þekkja framan í einhvern – og mér er það tamt, þetta er ekki einhver tilraunamennska í mér. Ég nota það sjálfsagt oftast til að lýsa ákveðinni smábæjarstemningu – t.d. því að á Ísafirði þekkir maður kannski ekki alla 2.500 íbúana, en maður þekkir „framan í“ þá flesta (og tekur þannig eftir því þegar einhver nýr birtist). Og þannig er það notað í Heimsku (sem gerist á Ísafirði í framtíðinni).

Hvaðan það kemur veit ég ekki – mér finnst ósennilegt að ég hafi fundið upp á því hjá sjálfum mér en það er svo sem ekki óhugsandi. Þetta er alveg áreiðanlega ekki úr neinni útlensku – ég veit ekki einu sinni hvernig maður segir „framan í“ á neinu máli. Maður segir bara „face“, „ansikte“, „Gesicht“ o.s.frv. Ég gæti ekki skrifað þessa setningu svo vel væri á neinu öðru máli en íslensku.

Það er hugsanlegt að þetta sé talmál sem engum hafi þótt nógu fínt til að setja á blað – það er þó ósennilegt að fyrir því sé mikil hefð. Það er auðvitað ekki hægt að leita að þessu í bókum – en þetta finnst ekki í ritmálssafni, orðstöðulyklum eða á Google.

Mér finnst þetta mjög skiljanlegt – og gat ekki séð að merkingin hefði vafist mikið fyrir fólki. Ein kona sagðist þó ekki „einu sinni“ skilja þetta – sem var undarlegt í ljósi þess að „þýðingin“ fylgdi með (ég spurði hvort fólk þekkti orðasambandið, í merkingunni „að þekkja einhvern í sjón“). Til þess þarf einbeittan brotavilja. En íhaldssemin lætur víst ekki slíkt stoppa sig. Einhver skildi þetta meira þannig að maður þekkti svipinn á einhverjum (t.d. ættarsvip); annar skildi þetta þannig að manni þætti eitthvað kunnuglegt í fari einhvers (s.s. „þarna þekki ég kallinn“ = „þarna þekki ég framan í þig“). Mér finnst báðar þær merkingar líka ganga upp – og hver eigi við fara eftir samhengi.

Ég veit ekki hvernig maður skilgreinir málvillu. Eða hvernig maður skilur í sundur villu og frávik. Heimska gerist í framtíðinni og það væri í sjálfu sér í fínu lagi þótt hún væri öll á einhverju undarlegu máli – en einstaka smá frávik gerir ekki málið á henni fútúrískt.

Ég held samt að ég haldi framaníinu (á meðan ritstjórinn strækar ekki á það fullkomlega) og vona að það gleðji fleiri en það hryggir. Og vel að merkja þá gúglast það hérmeð loksins og hefur birst í ritmáli virðulegs höfundar. Verði ykkur bara að góðu.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png