top of page

Rúst


Skrifstofan mín er í rúst. Ég byrjaði eitthvað að endurskipuleggja hérna á mánudaginn og losaði mig við gamla lagerhillu án þess að hafa einu sinni pantað nýja vistlegri (billy) hillu í staðinn fyrir hana. Og nú eru bara haugar af bókum alls staðar sem vita ekkert hvar þær eiga að vera. Prentarinn minn er ótengdur og ekkert pláss fyrir hann nálægt tölvunni en ég þarf samt að prenta út örlítið erindi sem ég á að flytja á fundi forsætisráðherra um sjálfbærni á morgun. IKEA er rétt búið að tilkynna mér að hillan mín sé farin í póst þegar ég átta mig á því að mig vantar líka nýja gólfmottu. Sendingarkostnaðurinn er 5.800 per skipti – þetta hefði ég getað sparað mér.


Ég er að reyna að spara allt – blankheitin eru að fara með mig. Í fyrradag ákváðum við Nadja t.d. að ég kæmi ekki með á ráðstefnu í Montpellier í ágúst. Hún er að vísu ekki hundrað prósent viss um að hún fari sjálf en líklega gerir hún það. Ég ferðast víst nóg í sumar hvort eð er. Í næstu viku fer ég til Grikklands og í júní fer ég til Englands með Aram í fermingargjafarferð að sjá einhvern YouTubara á sviði. Í júlí fer ég til Svíþjóðar til að hangsa með tengdafólki. Ég viðurkenni samt að ég syrgi dálítið þessa Frakklandsferð – ég hlakkaði til hennar. En sjálfbærnin spyr víst ekki að slíku. Ég get ekki lagt fjárhag fjölskyldunnar í rúst og sótspor sumarsins er löngu komið úr böndunum.


Búinn að vera að lesa svolítið nýjar þýðingar. Ungi maðurinn eftir Annie Ernaux – ég las líka Staðinn í fyrra og ég bara ... nei, þetta er ekki gott. Kannski er eitthvað í hinum bókunum eða í frumtextanum – ég útiloka það ekki. Mér finnst öll umræða um Ernaux og um bækur hennar fasínerandi – en ég sé bara ekki að bækurnar standi undir þeirri umræðu. Grafreiturinn í Barnes eftir Gabriel Josipovici fannst mér ekki heldur góð. Kramp eftir Maríu José Ferrada var hins vegar góð og líka Arfur og umhverfi eftir Vigdísi Hjorth.


Ég hef verið að íhuga að gera aðra tilraun til þess að lesa Infinite Jest. Ég gafst upp á henni fyrir sirka tíu árum síðan – mjög fljótt, vel að merkja, var ekki kominn nema kannski 20 síður inn í doðrantinn. En DFW heillar mig samt – mér finnst gaman að hlusta á hann tala og hugsa. Eins þarf ég að lesa meiri Franzen – las víst aldrei nema Freedom. Árstíðafjórleikur Ali Smith er líka á dagskránni, meiri Zadie Smith, meiri Pynchon, Pale Fire á ég eftir og Shuggie Bain og fleira. Og Sjálfstætt fólk – kannski verður þetta árið sem ég les hana loksins.


Annars hef ég fengið mikinn áhuga á gönguferðum og langar af þeim sökum að lesa Psychogeography eftir Will Self. Ég ætla að flannera í sumar, þótt ég komist ekki til Frakklands að gera það – er að hugsa um að ganga svolítið á milli bæja bara. Kannski ég flanneri líka í Þessalóniku og Aþenu í næstu viku. Og svo þarf ég að lesa Raven's Nest eftir Söruh Thomas. Hún gerist á Ísafirði – og ég les allt sem tilheyrir ísfirskum bókmenntum.



1 comment
natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page