top of page

Fúsk


Í Svíþjóð geisar fúskfaraldur í bókmenntum – skilst mér á tveimur nýlegum greinum sem ég las (hér og hér). Annars vegar er um að ræða faraldur alls konar námskeiða í ritlist þar sem kennarar eru víst vægast sagt misvandaðir. Og hins vegar er faraldur af instagram-gagnrýni – sem sagt er að taki yfir bókmenntaheiminn (svo allir eru hættir að hlusta á atvinnugagnrýnendur).


Það þarf enga menntun til þess að kenna ritlist og það úir og grúir af námskeiðum, bæði á netinu og í raunheimum, og þeim fylgir víst gjarnan einhvers konar loforð um „uppfyllingu draumsins“ – að nemandinn fái fljótlega eftir útskrift að lifa unaðslífi rithöfundarins, umlukinn aðdáun annarra með alla vasa fulla fjár. Ef sá árangur tefst eitthvað er oft líka til sölu „útgáfuþjónusta“ – þar sem kúnnarnir (því svona nemendur eru auðvitað fyrst og fremst kúnnar) geta annað hvort greitt fyrir „ritstjórn fagmanneskju“ og „aðstoð við sjálfsútgáfu“ eða hreinlega borgað fyrir útgáfu hjá því sem einhvern tíma var kallað vanity-pressa – forlag sem tekur greitt fyrir að gefa út höfunda sína. Í einhverjum tilvikum getur „forlagið“/„ritlistarskólinn“ aðstoðað þá við fjármögnun og hjálpað þeim að fá smálán.


Það er svo Gabriella Håkanson sem skrifar um alvöru gagnrýnendur í Sydsvenskan – og kemur með marga punkta henni til varnar. Instagram-krítikin hverfi út í eterinn og því myndist engin uppsöfnuð þekking; gagnrýnendur í blöðum velji sér ekki bækur eftir áhugasviði einsog instagram-krítíkerar; og síðast en ekki síst sé bókagagnrýni í blöðum ekki fyrst og fremst meðmæli einsog instagram-krítíkin getur verið, heldur greining – ekki bara á bókmenntaverkinu heldur samhengi þess. Þetta síðasttalda held ég að sé mikilvægast og snýst ekki beinlínis um „eðli“ – það er ekkert sem segir að maður geti ekki skrifað alvarlega og úthugsaða krítík á instagram – heldur kúltúr, því það er eiginlega enginn sem gerir það (og ef það er einhver sem gerir það grefst viðkomandi augljóslega strax undir í algóritmanum). Dagblaðið getur líka valið að halda að þér vönduðu gæðaefni jafnvel þótt þú myndir bara troða í þig klikkbeitusykri ef þú fengir sjálfur ráðið. Instagram matar þig bara á sykurdrullunni ómengaðri.


Ég veit ekki hvaða hliðstæður þetta allt gæti átt sér á Íslandi. Einhverjar, augljóslega. Fyrir að verða áratug ætlaði ég að fá bíómiða fyrir gagnrýnanda Starafugls á einhverja stórmynd en fékk neitun á þeim forsendum að bíókeðjan væri hætt að útvega gagnrýnendum miða – bara „inflúensarar“ fengju miða. Þá hafði ég aldrei heyrt þetta hugtak og fólk var ekki byrjað að tala um áhrifavalda. En frá viðskiptasjónarmiði meikar það auðvitað sens – þú vilt vekja athygli á myndinni og þá er miklu betra að fá eitthvað seleb til þess að birta mynd af sér við innganginn á bíóinu fyrir mynd – „ofsa peppaður!“ – heldur en að senda einhvern lúða í ljótri úlpu til þess að sitja út í sal, hugsa fyrst um myndina og skrifa SÍÐAN eitthvað þegar viðkomandi er búinn að HUGSA MÁLIÐ. Það kann bara ekki góðri lukku að stýra. Enn er samt bíórýni á stóru miðlunum.


Svo er slatti af ritlistarnámskeiðum en þau eru nú flest held ég hugsuð fyrir almenning – og ekki til þess að fara í eitthvað meik. Þeir sem ætla í meikið fara væntanlega í ritlistina í HÍ? Eða? Ég hreinlega þekki þetta ekki nógu vel. Ég held að Bókasamlagið bjóði upp á svona útgáfuþjónustu – en veit svo sem ekki hvernig hún lítur út. Það er mjög lítið af instagram-gagnrýnendum – og fæstir birta neinn texta af viti eða myndbönd. Bara mynd af einni og einni bók. Það eru nokkrar bloggsíður og svo er fólk virkt á fb-síðum einsog bókagulli – þar fara bókameðmælin fram.


***


Annars er fátt að frétta. Ég skilaði af mér handriti eftir athugasemdir í gær. Var ég búinn að segja einhvers staðar hvað bókin heitir? Er það kannski ennþá leyndarmál? Á laugardaginn þarf að ferma Aram. Borgaralega. Ég er með flensu (og neikvætt covid-próf). Suma daga er veðrið ágætt en aðra daga ekki. Og allt mallar þetta áfram bara.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page