Jól

Klukkan er hálftólf að kvöldi í vesturbæ Hoi An. Við fórum út að borða með mági mínum og konu hans, sem eru í heimsókn en búa annars í Peking (en hann vinnur í Bangkok). Við fengum sjóvartara, tvo ólíka smokkfiskrétti, risarækjur, banh xeo pönnukökur með svínakjöti, wokaða tjarnavafklukku, vorrúllur, papayasalat með kjúklingi, djúpsteikt rækjumauk á sítrónugrasstöngli og makríl. Og nóg af hrísgrjónum auðvitað. Í eftirrétt voru ferskir ávaxtadrykkir – mangó, vatnsmelónu, ananas – grænt te og pönnukökur með súkkulaði, banana og ananas. Maturinn var himneskur – fersk kryddin beinlínis tínd af akrinum fyrir framan okkur – og enginn réttanna kostaði meira en 5 dollara. Aram fékk tvær dósir af sprite með herlegheitunum og var að tryllast úr sykursjokki á eftir (hann fær sjaldan svo sæta drykki). Svo fórum við heim í pakka. Ég fékk risastóra pottahanska á hrammana á mér, fallegar og stórar kryddkrúsir stútfullar af chili og sichuan-pipar, ávísun á sérsniðna leðurskó – eitt eða tvö pör eftir því hvað ég vel mér fína (hef annars bara gengið í sandölum og hlaupaskóm síðustu vikur) – og fínasta ninjaspilið úr stokknum hans Arams. Nú eru allir farnir að sofa nema Nadja, sem er að tína saman gjafapappírinn, og ég sem drakk víst dálítið mikið (og sterkt) kaffi með pökkunum.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png