8. apríl (Lestrardagbók)

Ég kláraði Listgildi samtímans í morgun. Frábær bók og hefði mátt vera miklu lengri og með fleiri dæmum – bæði myndum og frásögnum. En þótt hún sé lítil og nett er hún falleg – fallegt í henni letrið og kápan. Hefði samt mátt jafna letrið. Eða hvernig segir maður það, jústífíera? Ég vil að það sé regla á blaðsíðunum.

Ransu skiptir listinni gróflega í þrjá þætti; hugmyndafræðina, markaðsfræðina og fagurfræðina (sem er skipt niður í hið fagra, hið háleita og hið gróteska). Síðan rekur hann hvernig þessir þræðir samtvinnast í íslenskum og alheimskum listaheimum. Í eftirmála talar hann um að fagurfræðin og hugmyndafræðin geti ekki án hvor annarrar verið og að markaðsfræðin hafi óneitanlega mótandi áhrif á bæði fagurfræðina og hugmyndafræðina.

Mér fannst kannski fullmikið bara tæpt á markaðsfræðipælingunum – þar hefði verið áhugavert að fá ítarlegri og krítískari greiningu. Hvað eru vinsældir, hvað er velgengni, hver er munurinn á tímabundnum vinsældum og velgengni (hæpi) og hinu að lista fyrir eilífðina – kannski eru það klisjur en það má setja þær í nýtt samhengi og spurningarnar skipta ekki minna máli (fyrir listina) en hvað er fegurð og hvað er list.

Það er ekki heldur endilega gefið að markaðsfræðin stefni bara að afþreyingarvæðingu listarinnar – það er þvert á móti oft nánast einsog listaheimurinn hafni því að verða alþýðleg afþreying einmitt í krafti markaðarins, með því að gera hið yfirdrifna og súblíma „eintak“ (eða takmarkað upplag) að grunnpunkti. Og eintakið er alger andstæða afþreyingarmarkaðarins. Afþreyingarmarkaðurinn er nýríkir plebbar; eintakslistamarkaðurinn er old money Europe.

En sem sagt, frábær bók og ekki minna frábær fyrir að ég rífist við hana. Fleiri svona bækur.

Hvar var ég í plönunum mínum? Ég horfði á netflix og #cashljós fram eftir öllu í gær. Vaknaði í morgunmat, gerði jóga, hringdi út af passanum mínum (fæ neyðarpassa í Caen á morgun) og las svolítið. Síðan fór ég í hádegismat með Eric Boury, þýðandanum mínum, rithöfundinum Agnes Desarthe, skipuleggjandanum Marianne og rússnesku leikkonunni … Taia, heitir hún líklega. Ég kann ekki að stafa það. Tæ-a.

Eftir krækling, franskar og hvítvín fórum við á bókasafnið og áttum samtal um þær þrjár bækur sem við myndum taka með okkur á eyðieyju. Eða – ég hélt þær ættu að vera þrjár og leyfði mér að velja fjórar (#manspreading) en svo áttu þær að vera tvær. Og ég samt með fjórar. Það náðist ekki að hafa uppi á tveimur þeirra á frönsku – eða eiginlega bara einni þeirra – og ég talaði ekkert lengur en ég átti að gera svo þetta var alltílagi.

Ég valdi: Ulysses eftir Joyce vegna þess að ég reiknaði ekki með því að láta bjarga mér neitt fljótlega og mér skilst að Joyce hafi sagt, þegar bókin kom út, að þetta myndu duga þúsund bókmenntafræðingum í þúsund ár. Og vegna þess að ég hef aldrei lesið hana.

Ég valdi: My Vocabulary Did This To Me, valin ljóð eftir Jack Spicer. Þessi bók er einsog gamall vinur. Ég á engin uppáhaldsljóð í henni, það eru engir hittarar – ekkert Howl eða Une Saison en Enfer – heldur er hún jafngóð alla leið í gegn, 350 síður, og einhvern veginn traust. Svona bók sem ég gæti treyst mér til að lesa aftur og aftur og aftur og aftur og hef lesið aftur og aftur og aftur. Og treysti því að ég fái ekki leið á henni. Ég veit reyndar ekki einu sinni hvort ég hef lesið öll ljóðin í henni, því ég bara opna hana einhvers staðar og les.

Í Bandaríkjunum kjósa menn oft forseta á þeirri forsendu hvort þeir gætu hugsað sér að fá sér bjór með honum. Jack Spicer er minn forseti; ég gæti hugsað mér að fá mér bjór með honum. Sem er auðvitað afleit hugmynd því hann drakk sig í hel – aðeins 2-3 árum eldri en ég er núna.

Ég valdi: Sjálfstætt fólk. Vegna þess að ég hef ekki lesið hana og enga aðra bók veit ég íslenska sem er jafn mikil skyldulesning. Sjálfstætt fólk getur auðvitað ekki lesið Sjálfstætt fólk og haldið sjálfstæði sínu, það segir sig eiginlega sjálft. Sjálfstætt fólk – a.m.k. Íslendingar – hlýtur að þurfa að geyma hana. Þar til á eyðieyjunni. Sjálfstæði hefur nefnilega ekkert að segja nema í félagslegu samhengi. Og þá gæti ég loksins látið af því verða.

Ég valdi: The Selected Writings of Gertrude Stein. Að lesa Stein er einsog að falla í trans. Hún skrifar á einhvern ótrúlega næfan en fallegan máta – setningar sem eru í senn svo ótrúlega einfaldar og ótrúlega margbrotnar. Maður þarf ekkert að hugsa á meðan maður les Gertrude Stein, maður bara lætur sig falla.

Bókin sem þau fundu á frönsku og Taia las úr voru Ulysses og svo var lesið úr The World is Round eftir Stein – sem heitir Willie est Willie á frönsku. Það er svo magnað með Stein að eiginlega þurfti ég ekkert að skilja hvað hún var að lesa til að hafa gaman af því, til þess að njóta þess á svipaðan hátt og ég nýt þess að lesa hana á ensku – og til þess að sýna áhorfendum hvað ég væri að meina las ég brot úr þýðingu minni á Ef ég segði honum (If I Told Him). Sem féll í góðan jarðveg.

Aðrir sem voru nefndir þarna voru Isaac Bashevis Singer og La Fountaine (Agnes), og Litli Prinsinn og Stig Dagerman (Eric). Það var sérstaklega gaman þegar Taia las La Fountaine á barokkska vísu – hún var dásamleg.

Hvernig var þetta með listann? Aftur hefur mér tekist að gera allt nema skrifa nokkuð. Nema bloggið, það er. Níu af tíu. En auðvitað ekkert hlaupið því það er bara annan hvern dag og ég fór í gær.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png