7. apríl


Bon jour, Charles.

A video posted by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Apr 7, 2016 at 2:18am PDT

Ég fór á fætur klukkan 02.30 og tók þrjú-rútuna til Keflavíkur. Í rútunni var ég með grímu fyrir augunum og svaf. Þegar ég tók hana af mér í Keflavík og leit á sessunaut minn – sem ég hafði ekki séð áður – fannst mér hann eitthvað kunnuglegur en hristi það svo af mér. Það var of dimmt og of snemmt og hann gat ekkert verið kunnuglegur.

Inni í flugstöð heilsaði ég síðan upp á hann. Snorra Pál, ljóðskáld og myndlistarmann, sem var á leiðinni til Berlínar. Við ræddum byltinguna og einlægnina og vonleysið og grúskið og hvað sé hætt við að maður verði bara skrítinn karl. (Ég er kannski löngu orðinn skrítinn karl).

Ég hitti líka myndlistarmanninn Leif Ými sem var að fara að setja á svið íslenskt verkfall í Palais de Tokyo.

Ég lenti á Charles de Gaulle, þar sótti mig bílstjóri sem keyrði mig til Le Havre þar sem ég uppgötvaði að passinn minn var týndur. Upphófst vesen, símhringingar, tölvupóstar. Þetta er í annað sinn sem ég er passalaus í Frakklandi á innan við ári (síðast týndi ég honum í Reykjavík en komst til Parísar á ökuskírteininu). Líklega endar þetta með neyðarpassa svo ég komist til Istanbul á sunnudaginn. Wow air eru eitthvað minna en hjálpfús – það er svolítið einsog þjónustuverið þeirra svari bara í mjög fyrirfram ákveðnum frösum. Mig vantar bara að einhver líti milli sætanna í vélinni en það hefur a.m.k. enn ekki gerst. Á morgun hringi ég aftur á CDG – til að fá öppdeit á hvort hann hafi fundist – síðan á Leifsstöð og loks í sendiráðið. Það er bara spurning hvernig ég kemst til Parísar til að sinna þessu á sama tíma og ég á að vera að sinna þessari bókmenntahátíð. Ég held það sé alveg fullur vinnudagur.

Svo fékk ég mér lúr. Fór út og hljóp fimm kílómetra. Fór í sturtu og fékk mér pho á víetnömskum veitingastað í næstu götu, þar sem ég las hálfa Listgildi samtímans eftir Jón B.K. Ransu. Þetta er handhæg bók fyrir leikmann – margt kunnuglegt auðvitað en gott að það sé ekki gert ráð fyrir að ég viti allt (einsog oft er). Ég klára hana sjálfsagt í kvöld eða á morgun, hún er mjög stutt og pen.

Jóga og blogg. Nú er það Netflix, #cashljós og chill.

Mér sýnist að samkvæmt markmiðalistanum sem ég setti mér í gær sé ég með 9/10. Hef ekkert skrifað í dag (en aðeins átt samskipti við ritstjóra vegna verks). Og kannski verið pínu fúll en glaðari en ég átti inni fyrir að vera út af þessu passarugli sem hefði auðveldlega getað gert mig grátandi vitlausan af sturlun.

Ég á það kannski bara inni.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png