6. apríl, 2016

Það munaði minnstu að ég púllaði Gunnar Wærness* og færi af stað til Frakklands einum degi of seint. Í gær hélt ég að flugið suður væri á fimmtudag og flugið út á föstudag. En svo rak ég augun í að flugið frá París til Istanbul (#humblebrag #heimshornaflakk) er á sunnudag og fannst þetta eitthvað furðu stutt stopp. Og kíkti á flugmiðann minn. Flugið suður er á eftir, fer út í fyrramálið.

Mér finnst vera orðið ansi langt síðan ég átti rólegan dag í vinnunni. Núna í #cashljós ruglinu hef ég verið að berja saman pistil/ljóð fyrir þáttinn OBS í Sveriges Radio (sem fjallar vel að merkja ekki um íslenska pólitík), ganga frá upplýsingum fyrir endurskoðandann minn, svara milljón tölvupóstum og skrifa ritgerð um illsku (fyrirbærið) fyrir bókmenntahátíð í Lyon í vor. Dóttir mín var veik, já og konan mín á tímabili líka.

Ég vinn hægar en ég gerði einhvern tíma, það hjálpar ekki til; ég rusla mér ekkert í gegnum neitt lengur á viljastyrknum einum saman. Eða svona, sumt, ekki allt. Ég lagði t.d. af stað keyrandi vestur þegar flugið mitt frá Berlín lenti í Keflavík fyrir tveimur vikum, á miðnætti, til að mæta í tæka tíð fyrir afmæli konunnar minnar.

OBS-pistillinn var átta dögum á eftir deddlæn en verður ekki tekinn upp fyrren ég kem heim aftur, svo það kemur ekki of mikið að sök.

Og nú flýg ég s.s. suður á eftir og út klukkan sex í fyrramálið, illa sofinn, til þess að sitja síðan í bíl frá París til Le Havre þegar ég lendi. Bróðurpartinn af næstu viku verð ég í Istanbul. Þangað hef ég ekki komið áður. Ég er að reyna að stilla mig jákvæðar af gagnvart þessum ferðalögum öllum saman, ég hef tamið mér svolítið að kvarta undan þessu – þegar maður ferðast svona eru flestir dagar annað hvort dagurinn sem maður kemur sveittur og lúinn á hótelið eða dagurinn sem maður druslar sér á fætur skítþunnur fyrir allar aldir til að fara heim. Þetta eru að jafnaði leiðinlegustu dagar allra ferðalaga.

En ég er tæpa viku í Istanbul og get vonandi skoðað eitthvað. Bláu moskuna. Torg og stræti. Nadja var þarna fyrir 17 árum og sá mann kveikja í sér. Það var uppnám en einhvern veginn ekki einsog þetta væri eitthvað brjálæðislega spes. Bara nokkrar löggur og svo búið.

Þegar ég fór til Frakklands í haust fékk ég sérstakan póst frá bókmenntahátíðinni um að ég gæti hætt við, ef ég væri hræddur við hryðjuverk. Þetta var í kjölfar árásanna á Bataclan. Samt var hátíðin ekki einu sinni í París heldur Caen. Ég hef ekkert slíkt fengið frá Istanbul þar sem hafa verið gerðar tvær stórar hryðjuverkaárásir frá áramótum. Þar eru allir sultuslakir.

Ég er reyndar ægilega kvartgjarn út af öllu síðustu misserin. Ekki síst peningamálum (blankur), vinnuálagi – ég kemst aldrei í frjáls skrif; ýmist vegna launaharks eða veikinda eða húsavesens eða starfsdögum kennara eða einhvers annars; finnst einsog það sitji alltof margt á hakanum, sem ég myndi vilja sinna í rólegheitunum – svefnleysi, slæmu líkamlegu ásigkomulagi (helvítis djammreykingar) og fréttafíkn. Já og svo er það þetta með lesturinn. Ég les alltof lítið. Hef litið í nokkrar smásögur í síðustu viku – nú man ég ekki hvað hann hét, pólverji sem … jú, Bruno Schulz, Krókódílastrætið heitir bókin. Þetta þýddi Hannes Sigfússon. Sturlað orðskrúð sem er skemmtilegt í svona fimm-sex blaðsíður en nær síðan engum tökum á mér – hrynur undan eigin skrauti, einsog skraut er nú annars mikilvægt. Eiginlega er textinn bara kjánalegur. Ég skil alveg tilraunina einsog hún er kynnt í textum um bókina, að skrifa einsog einhvers konar impressjónískur málari – og fíla aðrar slíkar tilraunir (t.d. Gertrude Stein), en þá vegna þess líklega að þær ganga alla leið. Þetta er of mikið hálfkák. Eða eitthvað.

Ég er sem sagt eiginlega ekki ánægður með neitt sem ég les. Las líka nokkrar smásögur í íslensku 20. aldar safni og þar var að vísu eitt og annað ánægjulegra en ég átti von á. En það var fyrir rúmri viku og ég er auðvitað löngu búinn að grafa það undir stressfjalli og #cashljósi. Og svo hef ég verið að fletta í Jack Spicer ljóðum.

Ég fylli mest upp í lestrartíma með krossgáturáðningum, sem er að verða alger djöfuls ósiður.

Ég þarf að lesa meira og blogga meira. Eiginlega þyrfti ég að setja það í forgang. Ferðablogg? Dagbókarblogg? Lestrarblogg? Ég var líka búinn að hálfskrifa inn hérna nýja plokkfiskuppskrift sem er ekki í bókinni.

Eigum við að segja að markmiðin séu 10:

1) Ná að skrifa eitthvað á hverjum degi. 2) Éta ekki yfir mig. 3) Reykja ekki. 4) Drekka ekki yfir mig. 5) Ná að lesa á hverjum degi. 6) Gera jóga á hverjum degi. 7) Fara út að hlaupa annan hvern dag. 8) Blogga daglega. 9) Lesa ekki gat á internetið. 10) Njóta dagsins (og kvarta lítið út af tittlingaskít/kunna gott að meta).

Síðasta sólarhringinn er staðan þá þannig að ég át yfir mig í hádeginu, fór út að hlaupa, gerði tvisvar jóga, las ekki rassgat, kláraði OBS-pistilinn, las gat á internetið og hef mestmegnis verið í fýlu. Sem gerir sex stig af tíu mögulegum.

* Norska ljóðskáldið Gunnar Wærness var gestur ljóðahátíðar Nýhils fyrir áratug; hann ruglaðist á dögum og missti af fluginu sínu. Kannski væri samt nær að tala um að púlla Bjarna Ben, í ljósi #panamaskjalanna.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png