5. janúar: Menningarneyslan

Stranger than Paradise eftir Jim Jarmusch. Eða fyrsti hálftíminn af henni. Ég hugsa að mér hefði þótt þessi mynd mjög töff þegar ég var 25 ára. Mjög existensíal. En þetta er bara illa leikið röfl – fallegar tökur stundum og ekki beinlínis hjartalaust en drepleiðinlegt.

Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson eftir Braga Ólafsson. Einhver sagði við mig fyrir langalöngu að þetta væri skelfilega léleg bók og ég veit ekki hvers vegna en ég virðist hafa tekið mark á því (bókin er búin að vera í plastinu síðan 2010). Hún er vissulega dálítið þreytandi á köflum, en það er líka hluti af sjarmanum hvernig hún hristir allt af sér. Paródía um kjaftatítusamfélagið, hjartnæm saga um vináttu, aðstæðnakómedía, metafiksjón – svei mér þá ef þetta er ekki bara besta bókin hans Braga. Ég hélt annars að þessari bók hefði almennt verið illa tekið – líklega hefur það bara verið þessi ónefndi kunningi minn sem kom þeirri hugmynd að hjá mér – því hún var tilnefnd og virðist hafa fengið bara frekar góða dóma.

(Útúrdúr þessu tengdur: Ég var beðinn um það nýlega að skrifa um „vanmetnar“ íslenskar bækur fyrir fyrirbærið Finnegan’s List, sem var nú að koma út, og valdi Borg eftir Rögnu Sigurðardóttur, Hvítfeld eftir Kristínu Eiríksdóttur og Algleymi eftir Hermann Stefánsson – hér má lesa þetta, sem og val níu annarra höfunda frá ýmsum löndum).

Piada. Þegar ég var 7 ára fór ég með fjölskyldunni til Rimini á Ítalíu. Meðal þess sem ég man frá Rimini er að hafa verið pest við Svanhildi Hólm og Dóru Björk, systur mína (sem slógu þar upp vinskap og héldu lengi), að hafa fengið hvítt kassettutæki og Arena með Duran Duran (ég á tækið enn, spólan er týnd, en ég keypti mér Arena nýlega aftur á vínyl), og að hafa reglulega borðað eitthvað sem ég hélt að héti piata með t-i og fékkst á einhverri búllu í nágrenni við hótelið okkar. Jú og ég man líka að maður þurfti að vera með sundhettur í sundlauginni og áreiðanlega miða líka og hugsanlega var hún lokuð í síestunni (þegar maður þurfti mest á henni að halda). Allavega. Ég hafði nokkrum sinnum reynt (af takmörkuðum mætti) að komast að því hvað þetta var sem ég át þarna úti – og datt í fyrsta sinn nú í vikunni í hug að gúgla þessu með d-i. Og þetta reyndust vera lyftidufts- og hveititortillur með alls kyns ólíku áleggi – „ítölsku brögðunum“ stóð í uppskriftinni. Ég gerði þetta í kvöldmat og svo aftur í hádegismat fyrir mig og börnin daginn eftir – vafði þeirri síðustu í smjörpappír og álpappír og fór með hana heita upp á skíðasvæði að ná í Nödju, sem var að prufukeyra gönguskíðin sem hún fékk í jólagjöf.

Fúsi froskagleypir eftir Ole Lund Kirkegaard. Við Aram lásum Fúsa. Það er stórvarasamt að reyna að troða gömlum uppáhaldsbókum upp á börnin sín, en virðist hafa heppnast stórslysalaust í þetta sinnið. Aram hló meira og minna samfellt allan seinnihluta bókarinnar og ekki minnst þegar Fúsa var skotið út um fallbyssu.

Sagan af furðufugli eftir Sjón með myndskreytingum Daða Guðbjörnssonar. Við Aino lásum þessa. Það er undarlegt að hugsa sér þetta sem bók eftir Sjón með myndskreytingum eftir Daða – einhvern veginn renna verk þeirra of mikið saman, bæði í konsepti, stíl og stemningu, til þess að eitt sé hugsanlegt án hins. Textinn fjallar um myndina og myndin um textann. Þetta er órofa heild. Og rokna skemmtilegt.

Mister heartbreak með Laurie Andersson. Ég var að róta í plötukassanum mínum og rakst alltíeinu á þessa, sem virðist keypt notuð í Finnlandi. Ég hef einhverja óljósa hugmynd um að ég hafi keypt hana fyrir löngu síðan en ég hef áreiðanlega aldrei hlustað á hana. Hún er mjög fín, ekkert sérstaklega agressíf eða grípandi, auðvitað, en fín. Ég veit samt hreinlega ekki hvernig maður bindur svona verk í orð, hvernig maður lýsir því eða segir eitthvað um það af viti. Kannski bara svona, fín. Og kannski mynda ég mér ekki skoðun af viti fyrren eftir fleiri hlustanir.

3 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png