27. apríl: Botnlangabólga og bókmenntir

Nú er ég með mörg mínusstig. En þótt ég hafi t.d. ekki bloggað (eða hreyft mig mikið) þá er ég búinn að skrifa og lesa mikið og hef lítið drukkið og ekkert reykt.

Ég hef hins vegar verið lasinn. Með botnlangabólgu, að öllum líkindum. Læknirinn heldur að botnlanginn sé í raun löngu sprunginn en nú hafi ég fengið sýkingu, sem sé staðbundin og því hægt að lækna hana með sýklalyfjakúr. Ég var ómskoðaður í gær og fékk uppáskrift í apótekið og nú í morgun fór ég í sneiðmyndatöku til að staðfesta greininguna frá því í gær. Svör fást á næstu dögum.

Nojan í mér segir að ég sé með magakrabba. Hún er sem betur fer ekki óbrigðul. Ég hugsa að nýlegur dauði vinkonu minnar sé ekki til þess að hjálpa til.

Þessi sneiðmyndataka var annars með því sci-fiaðasta sem ég hef gert um ævina. Eða svona. Kannski er tengingin meira við Dr. House og læknadrömun en Star Trek. Þetta er líka minna sneiðmyndatæki en í Hollywood.

Hvað hef ég lesið? Nú er ég að lesa Elskan mín, ég dey eftir Kristínu Ómars – meistaraverkið hennar, segja sumir. Og ekki ætla ég að rífast við suma þótt ég sé bara hálfnaður. Það borgar sig ekki því maður veit aldrei hverjir sumir eru, þeir gætu verið hverjir sem er. Bókin er undirfurðuleg, sársaukafull, vandræðaleg og kímin – það er í henni einhver stemning sem ég held að sé miklu meira móðins nú en þegar bókin kom út, um miðjan tíunda áratuginn. Kannski er það misskilningur en líklega ekki. Ég vil ekki kalla það kaldhæðni því hún er alltof hlý til að vera kaldhæðni en það er skyld stemning.

Ég las Fjárhættuspilarann eftir Dostójevskí. Sem var eiginlega frábærari en ég átti von á. Hafði séð fyrir mér að þetta væri b-verk – hún er skrifuð á mánuði til þess að uppfylla samning. Ég hef átt hana hérna í plastinu árum saman. Hann er einhvern veginn líka Tjékhovskur þarna – þetta er stofudrama, tragíkomedía með dásamlega breyskum karakterum. Ég hef ekki lesið Dostó í áreiðanlega 15 ár og þetta voru mjög ánægjulegir endurfundir.

Ég las Giovanni’s Room eftir James Baldwin (sem drapst einmitt úr magakrabba). Bókin fjallar um ungan bandaríkjamann í París sem á unnustu sem er á ferðalagi um Spán. Á meðan hún er í burtu fer hann að halda við ungan ítalskan karlmann – Giovanni – og verður mjög ástfanginn. Þetta endar allt með ósköpum, einsog við er að búast. Bókin mallar í sektarþrungnu bítnikki fyrstu 80% en fer síðan af stað í annars konar dramahryllingi undir lokin, sem setur allt hitt í merkilegra ljós.

Giovanni’s Room var víðast hvar ekki vel tekið á sínum tíma. Hún fékk mestmegnis hlandvolga dóma í pressunni og fleiri slátranir en fagnanir. Svarti pardusinn Eldridge Cleaver fann að samkynhneigðinni, sem hann sagði að væri sturlun á borð við að nauðga börnum. Ljóðskáldið Langston Hughes sagði að hún væri illa skrifuð og ofhlaðin. Og ljóðskáldið Amiri Baraka fann að því að Baldwin – sem er svartur – hefði skrifað bók um hvítt fólk, að það væri eitthvert undarlegt form af sjálfsfyrirlitningu. En Baldwin mun hafa verið gefinn fyrir að fara sínar eigin leiðir, einsog gjarnt er á þá sem leggja stund á hugrekki, og hafði ímugust á að vera flokkaður sem „svartur höfundur“. Þá var hann líka mjög pólitískt mótiveraður og gjarn á að rekja þræði milli kynþáttamála, kynferðismála og stéttskiptingar.

Ég hef velt því svolítið fyrir mér hvort það séu margar bækur í íslenskum bókmenntaheimi sem hafa hlotið „uppreisn æru“ af þessu tagi eða hvort við séum of lítið þjóðfélag til að bera slíka fimleika. Það þarf krítískan massa af fólki til þess að halda á lofti fána tiltekinnar bókar og annan eins krítískan massa sem vill bara grúska í bókasöfnum í leit að einhverju vanmetnu. Við eigum fullt í fangi með að fjalla um bækurnar sem eru miðlægar á sölumarkaði.

Svo las ég Mannorð eftir Bjarna Bjarnason. [Varúð: Spoilerar!] Bókin fjallar um útrásarvíkinginn Starkað Leví sem hefur glatað mannorðinu og leitar til fyrirtækis sem sérhæfir sig í að veita mönnum nýtt mannorð, í þessu tilviki gott mannorð skáldsins Almars Loga Almarssonar. Einfaldasti lykilrómanlestur segir manni að Starkaður Leví sé Björgólfur Thor og Almar sé Bjarni sjálfur. Ekki að það sé neitt aðalatriði, en á litlu landi – og í skáldsögu sem fjallar beinlínis um mannorð, það orð sem fer af manni, félagslega tilvist hans í samfélagi – þá hlýtur það að hafa einhver áhrif á lesturinn.

Ég hafði lítið lesið um bókina þótt hún hafi vakið athygli mína á sínum tíma, fyrir það litla sem ég vissi. En ég átti von á að í henni væru átök um endurreisn mannorðs – og meiri pælingar um hvað mannorð sé í raun, eða skömm. En auðvitað er það alveg í karakter fyrir útrásarvíking – erkitýpuna – að gera lítið til þess að endurreisa mannorð sitt og fara frekar styttri leiðina og kaupa sér nýtt.

Skáldið Almar Logi er einhvers konar þunglyndissjúklingur sem vildi helst deyja, ef ekki væri fyrir harminn sem það ylli hans nánustu. Þetta er auðvitað merkileg sýn skáldsins á sjálfan sig – sem Bjarni leikur síðan með þegar hann daðrar við hugmyndina um að skiptin hafi í raun átt sér stað, slær bæði í og úr, og Starkaður Leví / Björgólfur Thor skrifi kannski Mannorð, Bjarni/Almar sé löngu horfinn.

Ég veit ekki hvort það er galli að maður telji að bókin sé um eitthvað annað en hún er – að forsendurnar kalli fram önnur sagnaminni, aðra heimspeki, en er svo að finna í bókinni. Það er nefnilega ýmislegt í henni um ídentítet, dauðaþrá, lífsþrá sem hætt er að fari forgörðum þegar maður er að leita að mannorðinu í henni. Kannski er þetta hluti af leiknum; eitthvað sem maður ætti að lesa í, hvernig mannorð bókarinnar (einsog það birtist í kynningarstarfinu) þvælist kannski fyrir henni.

Eitt og annað fór í smámunataugarnar á mér – mér fannst bókinni ekki nógu vel ritstýrt (það voru kaflar hér og þar sem voru bara of veikir ennþá – það hefði mátt veita syni og eiginkonu Almars meiri kraft) og prófarkarlestur klikkar á nærri því hverju einasta erlendu orði (cappucHino, cHiabatta o.s.frv.). En þetta er merkileg bók fyrir því og hefði alveg mátt fara hærra.

Hvað fleira hefur gerst? Prince dó. Ég hélt upp á hann og skrifaði um hann stutt fyrir Starafugl. Þar skrifaði ég líka stutta grein um aðra bók sem ég las, Tram 83 eftir Fiston Mujila. Við fengum tvo frakka í heimsókn, í boði frönskukennarans á heimilinu. Þá kom í ljós að þau höfðu verið mér samferða frá París um daginn og síðan í fluginu vestur líka. Hann tók eftir mér, karlinn, enda er ég tveir metrar og með kúluhatt; fyrst á CDG, svo á Reykjavíkurflugvelli, sá mig síðan úti á götu hérna og sagði við konuna sína að þessi náungi með hattinn væri bókstaflega alls staðar. Honum fannst svo sérstaklega gaman að hitta mig hérna aftur – eiginmann frönskukennarans – og átta sig á því að ég væri höfundur bókarinnar sem hann hafði verið að lesa í fluginu og var hálfnaður með.

Annars hef ég mestmegnis bara legið í móki. Lyfjamóki og verkjamóki. Það vill til að það fer skáldum vel að liggja banaleguna. Nadja var á deddlæn með styrkumsókn og vann til miðnættis síðustu kvöld og fór einu sinni á fætur aftur fyrir fimm; svo var hún á skíðum í gærkvöldi, þannig að ég hef eiginlega ekkert hitt hana nema á forbífartinni. Ég er búinn að horfa á rosalega mikið af sjónvarpsþáttum – Louie, GoT og byrjaði aftur á The Wire.

Og nú hringdi síminn: Sneiðmyndin staðfesti það sem þeir héldu. Líklega hefur botnlanginn sprungið úti í Tyrklandi en lífhimnan einangrað þetta, sem hún gerir víst stundum og er bara heppni, annars hefði ég endað á bráðamóttöku í Istanbul. Ég þarf að fara á spítalann og fá einhver lyf í æð og verð þar næstu daga, líklega fram að helgi.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png