16. apríl

Líklega eru komnir tveir sólarhringar síðan ég gaf síðast skýrslu. Allt er við það sama. Það er heitt en ekki of heitt. Ég er með frekar lítið af stigum (svindlaði á jóga; reykti). Las upp í íslömskum stúlknaskóla í gær. Það var frekar skrítið að horfa á allar þessar skuplur. Ekki þar fyrir að þær voru voða venjulegir unglingar – flissuðu mikið og kennararnir áttu í eilífri baráttu við skvaldur. Þær spurðu líka fínna spurninga – ekkert um trúmál en talsvert um fegurðina. Ein spurði hvort það væru til ljóð sem við vildum að væru ekki til. Önnur spurði hvort það væru til ljóð sem stæðu okkur of nærri til að við sýndum neinum þau.

Eftir upplesturinn tók ég bátinn yfir bospórussund og skoðaði evrópska hlutann. Skrefamælirinn í símanum segir að ég hafi gengið 30 þúsund skref – tæpa 26 kílómetra. Það er það mesta sem ég hef gengið á einum degi síðan ég fékk símann. Það er mesta furða hvað hverfin eru ólík og hvað umhverfið breytist hratt. Á einum stað líður manni einsog á miðöldum í þröngum, skítugum götum þar sem hver smábasarinn tekur við af öðrum; svo sams konar nema hreinni og túristavænni; á þeim næsta eru ekkert nema risavaxin vöruhús; svo kemur túristahverfi með hótelum; þá hippsterahverfi fyrir lókala; fátækleg íbúðarhverfi; hverfi þar sem allar búðir selja veiðarfæri, mótora og akkeri; o.s.frv. o.s.frv.

Ég fór meðal annars í tvær moskur. Suleiman-moskuna og „nýju“ moskuna (hún var ekkert nýlegri að sjá). Þar var mjög friðsælt en það kom mér á óvart – eins lógískt og það nú annars er – hvað er mikil táfýla þarna inni. Kannski er það ekkert skrítið í ljósi þess að líklega koma þúsundir túrista þarna á dag og allir hafa þeir þrammað um í hitanum og þurfa svo að fara úr skónum áður en þeir koma inn. Það var að minnsta kosti mjög mikil táfýla af mér.

Svo fór ég á nútímalistasafnið Istanbul Modern. Þar var bara einhver sú áhugaverðasta sýning sem ég hef séð á nútímalistasafni. Meðal annars verk þar sem maður gróf í sig í gegnum kaðladyr til þess að koma inn í myrkvað herbergi þar sem héngu tvö stór upplýst hnattlíkön úr loftinu. Annað þeirra var ómerkt og hitt, sem var merkt, var á hvolfi (en merkingarnar á réttunni). Það var líka myndbands/dansverk af fólki að dansa í vatnstanki. Og lítil dúkka sem sat á sandhóli og starði inn í risastóran megafón (sem minnti mann auðvitað á bænaköllin hérna – sem vinir mínir, múslimar frá Dúbaí, Albaníu og Marokkó, eru sammála um að séu umtalsvert fallegar sungin en heima hjá sér). Safnið er ekki mjög stórt en það tekur talsverðan tíma að sjá það, einfaldlega vegna þess að maður staldrar alls staðar við. Ég náði ekki að klára fyrir lokun (eða svona; hljóp í gegnum restina).

Svo var minjagripaverslunin glötuð. Það voru ekki einu sinni almennileg póstkort. Sem var í sjálfu sér hressandi (þótt ég hefði viljað kaupa póstkort af verkunum eða jafnvel bækling til minningar).

Á tímabili villtist ég líka – um það leyti sem sólin settist – og stóð á tímabili alls ekki á sama þar sem ég þræddi yfirgefnar, hljóðlátar og illa upplýstar þröngar göturnar í myrkrinu. Ekki það ég viti neitt hvernig glæpatíðnin er hérna. Mér finnst sennilegt að það sé tekið mjög hart á glæpum. En óttinn er yfirleitt ekki heldur upplýstur (ég fatta það núna að auðvitað hefði ég bara átt að fara afsíðis og gúggla glæpatíðninni í Istanbul!)

Í morgun fór ég á fætur, fékk mér morgunmat og fór svo aftur að sofa. Gekk um í hverfinu og keypti alls kyns delikatess til að taka með mér heim. Það er aldrei jafn erfitt að koma ekki við hendur trúaðra kvenna og þegar maður þarf að fá afgang í búð – þá beinlínis gneistar á milli og maður rekst alltaf aðeins utan í. Tómt vesen.

Át köfte akindir í dürüm og drakk með því ayran. Svo gerði ég jóga heima á hóteli og nú ætla ég niður í spaið að hlaupa á brettinu. Í kvöld er síðan aðalupplesturinn – ég ætla að lesa Ljóð um bókmenntir sem ég held að hafi enn hvergi birst, gott ef það var ekki samið fyrir fyrirlestur í Biskops-Arnö. Flugið heim er klukkan 6.50 – ég millilendi í París og er kominn til Íslands upp úr tvö. Ef veðurspáin skánar eitthvað flýg ég svo heim úr Vatnsmýrinni – þar sem hjartað slær – klukkan fimm. Ef ekki, er ég veðurtepptur fram á mánudag.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png