top of page

Því nú: Ver og múður



Allt sem sagt hefur verið um fyrsta þátt Verbúðarinnar er meira og minna satt. Bæði það jákvæða og það neikvæða. Þetta er stórskemmtileg sápa, að hluta til fullkomlega óraunsæ samfélagslýsing en nær samt að kjarna eitthvert svallraunsæi, fordómafull og afskræmd mynd af bæði landsbyggð og fortíð, en líka grimmur og réttur spegill, vel leikin, frekar illa skrifuð en oft fyndin, alltof mikið drama á borðinu í einu (ef Sveppi þarf að vera handalaus hefði verið nær að einhver hefði bara sagt „Sveppi, já, einmitt, hann missti höndina í hausaranum“ í stað þess að troða inn þessu splatterdramatíska vinnuslysi í þátt sem var að fara í allt aðra átt; of mikið af smávillum, allar sögupersónur tala með sömu röddinni sem er blanda af bókmáli og talmáli, blanda af nútímamáli og eitísmáli. „Hví ætti það að ónáða oss, góða besta fokkið þér yður bara í pjölluna á yður, óskammfeilna slordís“.


Og hvers vegna í ósköpunum var skipperinn að drekka frostlög á ballkvöldi í bæjarfélagi þar sem allt bókstaflega flóði í göróttum drykkjum?


Mér finnst skorta tilfinningu fyrir stéttaskiptingunni í þetta – tilfnningu fyrir hírarkíu sem ég kannast við – skipstjórinn er of mikill lúser og bæjarritarinn/athafnakonan of lágt sett í þjóðfélagsstrúktúrnum. Aflaklær eru í mínum heimi meiri lávarðar – virðulegir hæglátir karlar. Það var ekki óregla sem kallaði bölvun kvótakerfisins yfir bæina – það er mjög léleg söguskoðun. Og bæjarritarar voru fremur virðulegar konur sem verbúðardræsur segja ekki svo létt til syndanna – og þær eru með sínar eigin hlaupatíkur. (Og svo notar fólk síma til að finna fulla karla – til þess var síminn fundinn upp). 


Bæði eru greinilega samsett – hann úr Geira á Guggunni eða Hörra á Guðbjarti og svo einhverjum fyllibyttukapteini (sem hefði aldrei verið aflahæsti skipstjóri landsins). Hún er einhvern veginn í senn verkakonan, (nýtilkomin?) framakonan í karlaheimi og húsmóðirin sem hélt samfélaginu saman, stoppaði í götin og sá til þess að krakkar fengu að éta yfir daginn, háttuðu fulla karla og það allt saman. Allar þessar konur voru til – og sú síðastnefnda kannski áhugaverðust því hennar saga er nánast aldrei sögð, þótt við könnumst öll við hana sem erum alin upp fyrir 1990 – en ég held þær hafi aldrei verið ein og sama konan.


Verbúðin er sem sagt meira Dallas en The Wire en samt er þetta skemmtilegt og ágætis spegill og ástæða til þess að ræða ýmislegt – meðal annars bara þessa sýn á landsbyggðina, sem er nú kannski ekki beinlínis byltingarkennd – það er voða fátt þarna sem hefði ekki getað verið í hvaða Bubbalagi sem er, eða bara Nýju Lífi. Nú eða í svallsögum þeim sem Vestfirðingar hafa aldrei hikað við að segja um sjálfa sig. Hvort þær séu allar trúanlegar er svo annað mál.


Og Dallas er kannski ekki The Wire – en djöfull var Dallas samt fínt.


Vinur minn sagði annars við mig á sunnudagskvöldið, þar sem við vorum að sána okkur í staðinn fyrir að horfa á þáttinn, að hann gæti aldrei horft á þetta af því hann hefði einfaldlega of miklar skoðanir á kvótakerfinu og fiskiþorpunum til þess að geta nokkurn tíma verið sáttur. Ég held að það eigi við um marga hérna. Vestfirðingar eru sosum vanir því að bíóið noti þorpin sem einhvers konar ömurðarspegil en þegar við bætist ásetningur um að kryfja kvótakerfið er reitt frekar hátt til höggs – ég veit ekki hversu mikla heimildavinnu Vesturport lagðist í en á Vestfjörðum eru ríflega 7000 sérfræðingar í kvótakerfinu og örlögum sjávarplássins og þeir eru allir meira og minna innbyrðis ósammála. Kvótakerfisfundir á Vestfjörðum eru háværustu fundir sem haldnir hafa verið á landinu – allir að æpa hver upp í annan – sem er ástæðan fyrir því að forystumenn Frjálslynda fólksins voru jafnan þeir sem hæst lá rómur. Það heyrðist ekki í neinum öðrum.


Þetta er kannski sambærilegt við það ef hið vestfirska Kómedíuleikhús myndi gera bíómynd um Reykjavíkurflugvöll. Eða aðförina að fjölskyldubílnum (sem var einmitt kölluð helför í einhverri grein í dag). Loksins verða þessi mál útskýrð fyrir ykkur.


Svo er auðvitað ekkert í heiminum eðlilegra en að fólk hafi mismunandi sýn á fortíðina. Kannski er það meðal annars þess vegna sem fólk fer að sigta burt það sem bara gengur alls ekki – anakrónismana og það. Til þess að koma skikki á hitt, það sem er túlkunaratriði og þarf kannski að ræða. Vandamál listaverka er oft að þau vilja bæði fá fríspil til að „vera listaverk“ og ekki representatíf fyrir raunveruleikann og að vera tekin alvarlega sem samfélagsspegill – svona var þetta, segja sumir, svona var þetta alls ekki, segja aðrir og því mæta aðstandendur (og sumir aðdáendur) með því að segja að þetta hafi nú aldrei átt að vera nein heimildamynd. En fella þá líka úr gildi innsýnina sem verkið er hugsanlega fært um veita. Skálduð saga er ekki sagnfræði, en hún á ekki heldur að vera kjaftæði – það er a.m.k. engin vörn fyrir listrænt gildi hennar.


En að því sögðu eru menn nú ekkert með böggum hildar hérna, það ég get séð. Almenna skoðunin virðist vera sú að þetta sé bara frekar fínt sjónvarp. En greiningin á kvótakerfinu – dickensíska samfélagslýsingin, sem ég held að fólk búist við miðað við lýsingar aðstandenda – er enn ekki komin fram þótt búið sé að sleppa nokkrum spilaköllum lausum. Og þá fyrst lendir sagan á verulega hálum ís.

1 comment
natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page