Þriðjudagur

Ég er með höfuðverk. Sennilega er það svarti dauði. Ef ekki eitthvað þaðan af verra.

Það er ekki alveg jafn sumarlegt og var hérna á helginni. Skýjað en hlýtt.

Ég er að ýta á undan mér að senda frá mér stóran reikning. Af því þegar ég hef gert það þarf ég að snúa mér að skáldsögunni minni. Þeirri sem kemur sennilega ekki út fyrren í fyrsta lagi 2023 eða 2024 jafnvel. Þá hef ég enga afsökun lengur og er bara byrjaður að fresta út í loftið. Það tekur ekki nema tíu mínútur í mesta lagi að ganga frá reikningnum. En meðan ég á það ógert er það hann sem ég er að fresta og ekki bókin.

***

Eiríkur nafniminn Guðmundsson bað Hallgrím Helgason afsökunar í útvarpinu í gær. Það var þá þriðja afsökunarbeiðnin, skilst mér – sú fyrsta var prívat fyrir sex árum. Önnur var á Facebook og þriðja núna í útvarpinu. Eftir því sem mér best skilst tók Hallgrímur fyrstu afsökunarbeiðninni og síðan þeirri annarri og nú hefur hann tekið þeirri þriðju – sem hann kallar samt snautlega og nefnir Eirík í sömu mund og Samherja. Eiríkur gerði sem sagt atlögu að Hallgrími, alveg einsog Samherji, með því að skrifa pistil fyrir sex árum hvers innihald var harðorð gagnrýni á sjálfhverfu rithöfunda (sem höfðu hver á fætur öðrum stokkið til og skrifað skáldævisögu sömu jólin – beint í kjölfar sigurgöngu Knausgaards á ensku). Hallgrímur talar um að hann hafi ekki beðið um þriðju afsökunarbeiðnina heldur viljað að Víðsjá brygðist „mannalega“ við – sem maður hlýtur að skilja svo að það hafi átt að reka Eirík. Eða kannski gera sérþátt um það hvers vegna mætti ekki fjalla um bókmenntaverk í menningarþætti nema af ítrustu nærgætni?

Þetta er eiginlega sprenghlægilegt. Og minnir mig reyndar á það sem gerðist þegar Ebba Witt-Brattström skrifaði pistil í sænskt dagblað þar sem hún vitnaði í ritgerð kollega síns við Helsinkiháskóla um barnagirnd í verkum Karls Ove Knausgaard (eða unglingagirnd – girnd miðaldra karls í unglingsstúlkur – sem Knausgaard hefur bæði fjallað um í illa dulbúnum skáldsögum og ódulbúið í skáldævisögum). Karl Ove, sem öðlaðist heimsfrægð meðal annars fyrir að berhátta alla í kringum sig og delera um eðli þeirra (við miklar skammir), varð feykireiður og spurði hvort Ebba gerði sér ekki grein fyrir því að hann ætti börn sem væru að komast á þann aldur að þau gætu séð blöðin og ættu ekki að þurfa að lesa svona um pabba sinn?

Það held ég reyndar fólkið sem Hallgrímur hefur sært með skrifum sínum í gegnum tíðina standi í röðum og bíði eftir afsökunarbeiðni frá manninum sem eitt sinn varð á orði að valið stæði milli þess að vera „góð manneskja“ og „góður rithöfundur“, þegar hann þurfti að réttlæta það fyrir sér að hafa orðið minningu látinnar konu til skammar. Ég varði hann í því máli og stend enn við það – skáldskapurinn verður að leyfa sér ýmislegt. En það gilda ekki sérreglur um Hallgrím Helgason og það sem maður ber á torg í verkum sínum verður maður að þola að sé rætt á torgum og staðreyndin er sú að þótt Eiríkur Guðmundsson hafi vitnað í ruddalegan texta í sinni umfjöllun þá skrifaði hann ekki umræddan texta og tók ekki undir þann gildisdóm sem í honum fólst heldur fordæmdi. Það sem hann hins vegar gerði – og fellur undir heiðarlega menningarkrítík – var að spyrja hvort þessi sjálfhverfa (í Hallgrími og fleirum) væri afurð þess sensasjonalíska samfélags sem þarf alltaf stærra og meira kikk. Ég held að svarið við þeirri spurningu sé tvímælalaust já.

***

Ég hljóp aðeins í gær. Bara örlítið. Kálfinn þoldi það alveg en ég tók líka ekkert á. Svo veit ég ekkert hvort ég á að kalla þetta „verk“ eða „sársauka“. Mér skilst það sé alveg eðlilegt að maður finni aðeins til – bara á meðan það sé ekki „sársauki“, þá eigi maður að hætta strax.

***

Ég hef fengið tvö boð í bólusetningu á Íslandi en gengur ekkert að fá tíma hér úti í Svíþjóð. Sem er bölvanlegt. Ef það eru sex vikur á milli sprauta þarf ég að fara að fá þetta í gegn ef ég á að vera fullbólusettur þegar við förum heim – sem myndi auðvelda allt (sök sér að fara í sóttkví heima – verra ef ég þarf að sitja í tíu daga sóttkví í Danmörku á leiðinni, því við eigum miða með Norrænu).

***

Ég las Snöru eftir Jakobínu Sigurðardóttur. Eða reyndar las Arnar Jónsson hana. Ég hlustaði. Merkileg bók. Bæði frásagnaraðferðin (allur textinn er annar hlutinn af samræðu – allt sem einn maður segir, en ekkert af því sem hinn segir á móti) og textinn – Jakobína hafði næmt eyra fyrir talmáli og það má furðum sæta að textinn gangi upp í þessu formi, sem virkar svo brothætt.

***

Plata vikunnar er tvenna einsog síðast, en nú tveir karlar. Tommy Johnson, jóðlarablúsarinn – og Sleepy John Estes, vælarablúsarinn.

Frægustu lög Tommys eru Canned Heat Blues (sem hljómsveitin er nefnd eftir) og Cool Drink of Water Blues, með hinni frægu og síendurómandi línu „I asked for water but she gave me gasoline“ (sem Howlin’ Wolf gerði að sinni). Það var alls ekkert óvenjulegt að blúsarar jóðluðu á þessum tíma. Þótt það hefði verið eitthvað um jóðl í vaudeville-sýningum áratugum saman voru það fyrst og fremst vinsældir köntrísöngvarans Jimmy Rodgers sem varð mönnum einsog Tommy Johnson innblástur að sínu jóðli.


Sleepy John Estes var einsog Tommy fæddur upp úr aldamótum. Hann var blindur á öðru auga. Á sínum yngri árum vann hann allan daginn og djammaði og spilaði blús allar nætur og átti það til að sofna á sviði og fékk þess vegna viðurnefnið Sleepy John. Hans langfrægasta lag er Diving Duck Blues, sem meðal annars Taj Mahal og Johnny Winter koveruðu – og Keb’ Mo og Taj Mahal tóku líka saman í kassagítarsútgáfu á nýlegri plötu.


Tommy Johnson er sá sem djöflamýtan var fyrst sögð um – að hann hefði selt sálu sína á krossgötunum – sem var síðar færð yfir á Robert Johnson. Hann kemur líka fyrir í bíómyndinni O, Brother Where Art Thou (leikinn af Chris Thomas King). Hann tók ekkert upp eftir 1930 og lést 1956 (eftir tónleika) en Sleepy John lifði til 1977 og náði þar með að vera með í blúsendurreisnarstemningu sjöunda áratugarins og tók þá upp nokkrar plötur til viðbótar.

2 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png