Þrífari vikunnar er alltaf einn

Í fyrradag lá ég uppi í rúmi og las úr fjórða bindi Harry Potter seríunnar af símanum fyrir börnin mín, sem máttu þola að ég kíkti reglulega inn á RÚV-appið til þess að sjá hver fengi íslensku bókmenntaverðlaunin í ár – eða í fyrra, réttara sagt. Fengi þau í ár fyrir árið í fyrra. Vefmiðlabindindi mínu fylgir ákveðin hlýðni við línulegan tíma og ég var eiginlega alveg viss um að ég myndi gleyma því að horfa á tíu-fréttirnar, af því ég geri það aldrei, og hélt að þá myndi ég ekki fá að vita þetta fyrren í morgunfréttunum klukkan 8. Sem hefði auðvitað verið hræðilegt. Svo hræðilegt raunar að þetta var ekki einu sinni í morgunfréttunum daginn eftir. Var einfaldlega hætt að vera frétt. Allir sem vildu vita þetta áttu að vera löngu búnir að komast að því.


Ég sá svo fyrir tilviljun að það var mynd af sigurvegurunum á forsíðu Fréttablaðsins – sem liggur annars ekki á lausu hérna (og er eiginlega of mikið þunnildi til að ég nenni að eltast við það). Ég hef ekki séð Moggann síðan á mánudag – held samt að það hljóti að hafa komið moggi í gær. Ég hefði að öllu eðlilegu fengið fréttirnar þar.


Ónefnd manneskja af erlendum uppruna í mínu lífi dæsti þungan yfir því annars þegar Bergsteinn Sigurðsson upplýsti glaðbeittur í sjónvarpsfréttunum hvernig allt tilnefnda fólkið væri meira og minna skylt og gæti þannig sett hin og þessi venslamet. Við erum auðvitað ekki nema fimm á þessu landi og öll skyld, þetta finnst útlendingum skrítið. Sem betur fer fyrir hneykslunargirni minnar ónefndu manneskju fengu engir ættingjar þetta – Kamilla Einarskáradóttir fór tómhent heim og Gunnar Helgason var ekki tilnefndur í ár og Melkorka og Svikaskáldin fengu ekki, bara mamma hennar, Sigrún Helgadóttir (sem er ekki systir þeirra bræðra, það ég viti). Ég veit ekki hvort maður er skyldur sjálfum sér en Hallgrímur setti met með því að fá bikarinn í þriðja sinn í sama flokki – en Andri Snær hefur líka fengið verðlaunin þrisvar, í öllum flokkum. En Andri á held ég enga ættingja sem hafa fengið. Sem er áreiðanlega yfirsjón hjá dómnefnd, frekar en eitthvað annað.

Þrífari vikunnar. Það er svo mikið að gera hjá Hallgrími í síldinni síðustu árin að hann hefur ekki haft tíma til að skipta um föt.

Ég held annars skenslaust að það hljóti að vera mjög undarleg tilfinning að fá svona verðlaun fyrir fyrsta og annað bindi af þremur. Sennilega alltaf gaman samt – bara skrítið. Yrði ekki hálfgert krakk að fá svo kannski ekki fyrir þriðja og síðasta bindið – hápunktinn?


Börnin voru – þrátt fyrir að eiga bágt með að þola vinnslustoppið í Potternum – spennt að vita hvort Didda, heimilisfræðikennarinn þeirra, fengi verðlaunin í barnabókaflokki. Svo var ekki en Aram hafði nýfengið Akam, Annika og ég frá ömmu sinni og byrjaði á henni strax eftir Potter og er mjög ánægður.


Annars er ég sjálfur mjög illa lesinn í verðlaunabókunum í ár, þótt ég hafi lesið talsvert í flóðinu. Eða svona. Búinn að lesa sennilega 70% af tilnefndum skáldverkum – en það var allt í einni og sömu bókinni. Þarf eiginlega að fara að bæta úr þessu. Hugsa að ég bíði samt með Hallgrím þar til ég get hámlesið hann allan.

30 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png